Fara í innihald

James M. Buchanan

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
James M. Buchanan

James McGill Buchanan Jr. (fæddur 3. október 1919; latinn 9. januar 2013) var kunnur bandarískur hagfræðingur, sem hlaut Nóbelsverðlaun 1986. Hann er leiðtogi Virginíu-hagfræðinganna svonefndu, sem rannsaka stjórnmál með aðferðum hagfræðinnar, og hefur verið forseti Mont Pèlerin-samtakanna, alþjóðlegs málfundafélags frjálshyggjumanna.

Buchanan er Suðurríkjamaður frá Tennessee, afkomandi forsetans með sama nafni. Faðir hans var bóndi. Buchanan barðist í Bandaríkjaher í seinni heimsstyrjöld, en stundaði eftir það hagfræðinám í Chicago-háskóla, þar sem hann varð fyrir miklum áhrifum frá Frank H. Knight og öðrum Chicago-hagfræðingum. Eftir doktorspróf 1948 hefur Buchanan kennt við ýmsa háskóla, aðallega í Suðurríkjunum, síðast í George Mason-háskóla í Fairfax í Virginíu, nálægt Washington, D.C. Hann er kvæntur, en barnlaus. Framan af stundaði Buchanan aðallega rannsóknir í ríkisfjármálum, en síðan sneri hann sér að almannavalsfræði (e. public choice theory), en hún snýst um það, hvernig einstaklingar velja í hópum fremur en einir sér. Hefur þessi grein einnig verið nefnd „hagfræði stjórnmálanna“, því að hún beitir aðferðum hagfræðinnar á stjórnmál.

Buchanan kom til Íslands haustið 1982 og flutti erindi í Háskóla Íslands, þar sem hann gerði grein fyrir almannavalsfræðinni. Hann sagði, að hún hvíldi á tveimur meginhugmyndum. Hin fyrri væri, að einstaklingar skipti ekki um eðli, þegar þeir hverfi úr viðskiptum í stjórnmál. Gera verði ráð fyrir, að menn reyni að gæta eigin hags eins vel í stjórnmálum og þeir geri í viðskiptum, ekki af því að það sé alltaf nauðsynlega svo, heldur af því að með slíkri einfaldri forsendu má smíða líkön um hegðun stjórnmálamanna, sem hafi mikinn skýringarmátt og forsagnargildi. Seinni hugmyndin sé, að menn stundi viðskipti í stjórnmálum, skiptist á gæðum, þegar þau séu viðtakandanum meira virði en framseljandanum. Líta megi á stjórnmálasamninga sem viðskipti.

Buchanan hefur víða lýst því, hvaða stjórnmálaályktanir megi draga af almannavalsfræðinni. Þær eru aðallega, að fastar reglur verði að gilda um stjórnmálaákvarðanir, svo að þær bitni ekki á þeim, sem lenda í minni hluta. Munurinn á einkavali og hópvali er einmitt, hvort menn velja aðeins fyrir sig eða hvort sumir í hópnum velja fyrir alla. Í ritinu The Economic Consequences of Mr Keynes heldur Buchanan því fram, að John Maynard Keynes hafi gert hagfræðinni ógagn með því að mæla gegn reglunni um hallalaus fjárlög. Sú regla hafi haldið eyðslusemi stjórnmálamanna í skefjum. Í ritinu Monopoly in Money and Inflation spyr Buchanan, hvers vegna menn hafi ekki litið seðlabanka sömu augum og önnur einokunarfyrirtæki, og setur fram líkan um líklegustu hegðun þeirra. Buchanan telur, að stjórnarskrár 18. og 19. aldar, sem hafi átt að binda hendur valdsmanna, hafi ekki náð tilgangi sínum að fullu. Seðlaprentungar- og skattlagningarvald þeirra sé enn allt of víðtækt. Verkefni frjálshyggjumanna sé að setja þessu valdi skorður.

Helstu verk[breyta | breyta frumkóða]

Lausnarorðið er frelsi (Reykjavík, 1994). Erindi Hayeks, Friedmans og Buchanans á Íslandi (í þýðingu Hannesar H. Gissurarsonar)

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]