Lawrence Klein
Lawrence Robert Klein (14. september 1920 – 20. október 2013) var bandarískur hagfræðingur. Klein er þekktur fyrir framlög sín til Keynsískrar hagfræði, hagmælinga (econometrics) og þróunar efnahagslíkana. Klein hlaut nóbelsverðlaunin í hagfræði árið 1980 fyrir framlög sín til hagmælinga.
Ævi
[breyta | breyta frumkóða]Klein fæddist í Omaha, Nebraska árið 1920. Landbúnaðarkreppa þriðja áratugarins í Miðvesturríkjum Bandaríkjanna, og heimskreppa fjórða áratugarins höfðu mikil áhrif á Klein og kveiktu áhuga hans á hagfræði. Klein lagði stund á hagfræði og stærðfræði við Berkeley háskóla í Kaliforníu og lauk doktorsprófi í hagfræði við Massachusetts Institute of Technology (MIT) árið 1944. Klein var fyrsti doktorsnemi Paul A. Samuelson. Eftir útskrift starfaði hann frá við Cowles-rannsóknarmiðstöðina í Chicago þar sem hann þróaði líkön af bandaríska hagkerfinu og áhrifum hagstjórnarákvarðana.
Á stríðsárunum var Klein um skeið meðlimur bandaríska kommúnistaflokksins og flúði hann land meðan kommúnista ofsóknir McCarthy stóðu sem hæst. Dvaldi hann á árunum 1954-58 í Oxford í Englandi. Eftir heimkomu var hann skipaður prófessor við háskóla Pennsylvaníu þar sem hann starfaði næstu þrjá áratugi. Klein var einn af efnahagsráðgjöfum Jimmy Carter í kosningunum 1976, en tók ekki sæti í ríkisstjórn Carter.
Framlög til hagfræði
[breyta | breyta frumkóða]Klein vakti athygli fyrir að hafa spáð réttilega fyrir um efnahagsleg áhrif endaloka seinni heimsstyrjaldarinnar. Meðan aðrir hagfræðingar spáðu því að stríðslokum myndi fylgja kreppa, þar sem eftirspurn eftir hergögnum drægist saman, spáði Klein því að heimkoma hermanna af vígstöðvunum myndi leiða til hagvaxtar sem knúinn væri áfram af aukinni einkaneyslu.
Klein er þekktastur fyrir tölfræðilíkan, sem nefnt hefur verið Wharton-líkanið (enska Wharton Econometric Forecasting Model). Líkanið er enn notað, til að spá fyrir um efnahagsleg umsvif eins og verga þjóðarframleiðslu, útflutning, fjárfestingu og neyslu, og áhrif breytinga á skattlagningu, opinberum útgjöldum, olíuverði o.fl.