Fara í innihald

Gary Becker

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Gary Becker árið 2008.

Gary Stanley Becker (fæddur 2. desember 1930; d. 3. maí 2014) var bandarískur hagfræðingur, sem kunnur er fyrir frumlega útfærslu hagfræðilegrar greiningar á ýmsum sviðum mannlífsins og hlaut hann fyrir vinnu sína Nóbelsverðlaun í hagfræði 1992. Hann var einn Chicago-hagfræðinganna svonefndu, frjálshyggjumaður og fyrrverandi forseti Mont Pèlerin-samtakanna, alþjóðlegs málfundafélags frjálslyndra fræðimanna.

Gary Becker fæddist í Pottsville í Pennsylvaníu-ríki. Flutti til Brooklyn, New York, eftir að faðir hans gerðist meðeigandi í fyrirtæki[1]. Becker hafði mikinn áhuga á íþróttum á uppvaxtarárum. Um 16 ára aldur tók Becker upp að læra stærðfræði af áhuga. Becker útskrifaðist með B.A. gráðu úr háskólanum Princeton árið 1951 og lauk doktorsprófi í hagfræði í Chicago-háskóla árið 1955. Doktorsritgerð hans, The Economics of Discrimination (1957), þótti mjög frumleg og fékk mikið umtal. Hann hóf kennslu í Chicago-háskóla beint eftir doktorsnámið. Becker kenndi síðar í Columbia-háskóla í tólf ár samhliða rannsóknarvinnu í hagfræði. Árið 1970 sneri hann aftur til Chicago til að kenna. Árið 1954 gekk Becker í hjónaband með Doria Slote og voru þau saman til andláts hennar, árið 1970. Hann eignaðist með henni tvær dætur. Árið 1980 giftist hann sagnfræðinginum Guity Nashat[1].

Gary Becker lést 2014, 83 ára að aldri.

Gary Becker er þekktur fyrir kenningarnar sínar í hagfræði, félagsfræði og lýðfræði.

Í doktorsritgerðinni sinni tók hann til rannsóknar mismunun (e. discrimination). Þar var helsta áherslan kynþáttamismunun. Greining hans leiddi í ljós að tilhneiging var til staðar að hafna minnihlutahópum um starf vegna fordóma. Niðurstöður hans sýndu fram á að fordómar bitni einnig á gerandanum, ekki einungis þolandanum. Þar sýndi hann fram á það að kostnaður hleypidóma verður til staðar við val á umsækjendum og hægt væri að útrýma þann kostnað með því einu að láta fordóma ekki hafa áhrif á val[2].

Mannauðskenningin

[breyta | breyta frumkóða]

Mannauðskenningin var útkoma rannsóknavinnu hans fyrir Burean. Hann kynnti kenninguna sína fyrst árið 1964 í bók að nafni Human Capital. Fyrir sjötta áratug tuttugustu aldar var algengt að telja vinnuafl sem gefið en ekki umbreytanlegt. Hugmyndir sem Adam Smith, Alfred Marshall og Milton Friedman lögðu fram um fjárfestingu í menntun og þjálfun voru ekki settar beint inn í framleiðslulíkanið. Mannauðskenningin byggist á því að einstaklingurinn hefur val á menntun, þjálfun og læknisþjónustu. Einstaklingur hefur valkostinn að auka þekkingu og heilsu. Hann vegur þar ábata þekkingar og heilsu á móti fórnarkostnað. Ábatinn er yfirleitt metinn eftir framleiðni og tekjuöflunarhæfni og kostnaður er metinn sem beinn kostnaður ásamt tekjutapi yfir tímabilið. Einnig tekur einstaklingur tillit til ábata sem verður af ófjárhagslegum þáttum, svo sem menningu og andlegan kostnað sem fellur til við áreynslu[3].

Mannauðskenningin nýtist einkar vel til að meta mun í launum, lífsgæðum og væntri ævilengd ólíkra hópa[3]. Becker hefur einnig nýtt mannauðskenninguna til mats á orsökum vímuefnamisnotkunar og glæpatilhneigingar. Hann færir rök fyrir því að þó vímuefnamisnotkun virðist órökrétt þurfi ekki svo að vera og bendir hann á að í tilvikum megi færa rök fyrir misnotkun vímuefna. t.d. kann að vera, að maður, sem geti aðeins valið um það tvennt að stytta sér aldur með byssukúlu eða eiga nokkur sæluár í heróínvímu, breyti skynsamlega, þegar hann verði heróínneytandi. Er það mjög í takti við viðhorf annarra Chicago-hagfræðinga.

Heimilisframleiðsla

[breyta | breyta frumkóða]

Um miðjan sjöunda áratug tuttugustu aldar hönnuðu Becker og stærðfræðingurinn Kelvin Lancaster hagfræðilega hugmynd af heimilisframleiðslujöfnu. Gert var ráð fyrir að neytendur innan heimilisins fengu nytjar frá keyptum vörum, t.d. ef einstaklingur kaupir hráan mat fær hann nytjar frá því borða matinn, en einungis eftir matreiðslu, sem flokkuð er sem heimilisframleiðsla. Þar bendir líkanið á að heimilisframleiðslan eykur nytjar neytandans. Becker gaf út bókina Treatise on the Family, sem var samantekt kenninga hans um heimilisframleiðslu, árið 1981. Í bókinni ítrekaði hann mikilvægi sérhæfingu í heimilisstarfi með verkaskiptingu.

Hagfræði fjölskyldunnar

[breyta | breyta frumkóða]

Um 1970 hafði Becker eytt miklum tíma að huga að fjölskyldu sinni. Hann var búinn að takast á við fjölskyldumál, svo sem andlát konu sinnar, skilnað, giftingar o.fl. Becker byrjaði að skoða fjárfestingar sem foreldrar setja í börn sín og hlutverkaskipti innan fjölskyldunnar til lengri tíma. Becker velti einnig fyrir sér hvort að barneignir eigi að teljast til fjárfestingu eða neyslu og var það umdeilt. Hann skoðaði einnig fæðingatíðni og fjölskyldustærðir. Becker rannsakaði fjölskyldumynstrið með hefðbundnum hagfræðilegum forsendum; svo sem nytjahámörkunarhegðun, smekk og jafnvægi innan fjölskyldunnar. Einnig rannsakaði hann ákvörðunarþætti; giftingar- og skilnaðar, fjölskyldustærðar og tíma sem fjárfest er í börn af höndum foreldra[4].

Flagðið í fjölskyldunni (e. the rotten kid theorem)

[breyta | breyta frumkóða]

Ein af kenningum Becker sem fékk mesta umfjöllun var kölluð flagðið í fjölskyldunni. Hún gefur í skyn að börn sem fæðast í fjölskyldum sem reknar eru af fórnfúsum, auðugum framfærendum hafi hvata til þess að hámarka auð fjölskyldunnar umfram auð sinn, jafnvel þó einstaklingurinn sé fullkomlega eiginhagsmunasamur. Kenningin byggir á því að hvatinn um framtíðargróða leiði til hegðunarbjögunar í eigingjörnum einstaklingum. Þar má nefna dæmi um að börn efnamanna skyldu því huga að velferð foreldra sinna einungis vegna þess að þau óttist að vera tekin úr erfðaskrá foreldranna.

Kenningin telst vægast sagt umdeild og eru margar deilur um ágæti hennar. Helstu rök sem beitt hafa verið á móti kenningunni eru þær að kenningin tekur ekki tillit til nytjar af frítíma, hún gerir ekki ráð fyrir að einstaklingur hafi huglægan afskriftastuðul, né gerir hún ráð fyrir að einstaklingar fái nytjar úr nokkru öðru en fjármagni[5].

Nokkur verk

[breyta | breyta frumkóða]
  • Gary Becker og Kevin M. Murphy: „A Theory of Rational Addiction,“ The Journal of Political Economy, 96. árg. (1988). Bls. 675-700.
  • Gary Becker og George J. Stigler: „De Gustibus Non Est Disputandum,“ The American Economic Review, 67. árg. (1977). Bls. 76-90.
  • Gary Becker og H. Gregg Lewis (1973): „On the Interaction between the Quantity and Quality of Children,“ The Journal of Political Economy, 81. árg. (1973). Bls. S279-S288.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 „The Sveriges Riksbank Prize in Economic Sciences in Memory of Alfred Nobel 1992“. NobelPrize.org (bandarísk enska). Sótt 8. október 2021.
  2. „OpenLearn from The Open University“. OpenLearn (enska). Afrit af upprunalegu geymt þann 10. apríl 2020. Sótt 8. október 2021.
  3. 3,0 3,1 Gary S. Becker (desember 1992). „The Economic Way of Looking at Life“ (PDF).
  4. Zhang, Wei-Bin (2006). Economic growth with income and wealth distribution. Houndmills, Basingstoke: Palgrave Macmillan. ISBN 0-230-00478-4. OCLC 62872497.
  5. Pettinger, Tejvan. „Rotten Kid Theorem“. Economics Help (bresk enska). Sótt 8. október 2021.