Fara í innihald

Doktorsgráða

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Háskólagráður

Grunnám
B.A. / A.B.
B.Ed.
B.Eng.
B.S. / B.Sc.

Meistaranám
B.Phil.
M.A.
M.Ed.
M.L.
M.Paed.
M.Phil.
M.S. / M.Sc.
M.St.

Doktorsnám
D.Eng.
D.Phil.
D.litt.
Dr.jur.
Dr.med.
Dr.phil.
Dr.theol.
Ph.D.
Th.D.

Doktorsgráða eða doktorspróf er námsgráða og er æðsta námsgráðan á háskólastigi. Orðið er dregið af latnesku sögninni docere sem merkir að kenna en doctor er einhver sem kennir; fastráðnir háskólakennarar þurfa víðast hvar að hafa doktorsgráðu.

Ýmsar doktorsgráður eru til en algengastar eru dr. phil. og Ph.D. sem eru skammstafanir fyrir doctor philosophiae og philosophiae doctor tilsvarslega. Í þessu samhengi er orðið „philosophia“ notað um veraldleg fræði, það er að segja akademískar fræðigreinar aðrar en guðfræði, lögfræði og læknisfræði.

Í guðfræði hefur tíðkast að veita gráðurnar dr. theol. (doctor theologiae) eða Th.D. (theologiae doctor). Í lögfræði hefur tíðkast að veita gráðurnar Dr.iur. (doctor iuris), JD (iuris doctor) og S.J.D. (scientiae iuridicae doctor). Í læknisfræði hefur tíðkast að veita gráðurnar dr. med. (doctor medicinae) og MD (medicinae doctor). En JD-gráða er víðast hvar ekki eiginleg doktorsgráða og sömuleiðis er MD-gráða víðast hvar sú námsgráða sem krafist er fyrir almennt lækningaleyfi og jafngildir ekki doktorsprófi. Því er stundum veitt dr. phil. eða Ph.D.-gráða í lögfræði og læknisfræði ofan á iuris doctor og medicinae doctor-gráður.

D.litt. eða Litt.D.-gráður (doctor litterarum) eru sums staðar veittar ofan á doktorspróf sem heiðursgráður fyrir vel unnið ævistarf í fræðum (yfirleitt hugvísindum. Gráðan L.H.D. (Litterarum humanarum doctor) er oftast sambærileg við D.Litt.-gráðuna. D.D. (Divinitatis Doctor) er stundum veitt guðfræðingum sem sams konar heiðursdoktorsnafnbót. Í lögfræði er LL.D. (legum doctor) stundum veitt sem heiðursgráða.

Í sumum Evrópulöndum hefur einnig tíðkast að veita æðra doktorspróf (dr. habil.) eftir doktorsvörn á töluvert umfangsmeira doktorsverkefni eftir fyrstu doktorsgráðu. Ólíkt doktorsverkefni fyrstu doktorsgráðu er verkefni æðra doktorsprófs ekki unnið undir leiðsögn kennara. Handhafi æðra doktorsprófs getur tekist á hendur leiðsögn doktorsverkefna. Í Norður-Ameríku er ekkert æðra doktorspróf veitt en ferlið er ekki ósvipað fastráðningarferlinu (e. tenure track).