Rickard Sandler

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Rickard Sandler

Rickard Johannes Sandler (29. janúar 188412. nóvember 1964) var sænskur stjórnmálamaður og forsætisráðherra Svíþjóðar. Hann sat á þingi frá 1912 til 1916 og svo frá 1919 allt til 1964 fyrir Sósíaldemókrataflokkinn. Hann beitti sér fyrir menntun verkamanna, var stofnandi Arbetarnas bildningsförbund(sv) (ABF) árið 1912 og kenndi við alþýðuskólann Brunnsvik.

Sandler tók við embætti forsætisráðherra 24. janúar 1925 þegar Hjalmar Branting, formaður Sósíaldemókrataflokksins, gat ekki lengur gegnt embættinu sökum veikinda. Sandlar var forsætisráðherra til 7. júní 1926. Auk þess að gegna því embætti átti Sandler sæti í öllum ríkisstjórnum sósíaldemókrata á millistríðsárunum. Hann var meðal annars utanríkisráðherra í ríkisstjórnum Per Albin Hansson á fjórða áratugnum, frá 24. september 1932 til 19. júní 1936, og aftur frá 28. september 1936 til 13. desember 1939, þegar hann sagði af sér vegna ágreinings um afstöðuna til hlutleysis í Vetrarstríðinu milli Finnlands og Sovétríkjanna.

Um miðjan desember 1938 flutti Sandler ræðu um utanríkisstefnu smáþjóðanna sem vakti athygli víða um lönd, en þetta var stuttu eftir Kristalsnótt og nokkrum mánuðum áður en seinni heimsstyrjöldin skall á. Ræða Sandlers birtist í fjölmiðlum margra landa, m.a. var kafli úr henni birtur í Tímanum. Eftirfarandi útdráttur er tekinn þaðan:

„Sérhver erlend tilraun til að ráða yfir þeim skoðunum, sem túlkaðar eru í sjálfstæðu landi, er óhæfileg og er það ekki síður, þótt hún sé klædd í búning vissra hugsjóna eða stjórnmálastefna. Slíkri viðleitni ber að víkja á bug með ró og festu hér eins og í öðrum lýðræðislöndum.
Önnur viðvörun er jafnframt nauðsynleg í dag. Ég hefi fengið vitneskju um það, að viss þýzk yfirvöld hafa gert tilraun til að framkvæma Aríakenningarnar utan landamæra Þýzkalands með áhrifum á viðskiptasambönd sín í öðrum löndum.
Það hefir m. a. komið fyrir, að sænsk fyrirtæki, sem skipta við Þýzkaland, hafi verið látin vita, að það sé óheppilegt fyrir viðskipti þeirra, að hafa aðra en Aría í þjónustu sinni. Sömuleiðis eru ekki aðeins útibú sænskra fyrirtækja í Svíþjóð, heldur einnig móðurfyrirtækin hér heima krafin upplýsinga um starfsmannahald og hluthafa með tilliti til Aríakenninganna. Hér hefir verið farið yfir hin leyfilegu takmörk.
Þau fyrirtæki, sem hafa neitað að verða við þessum tilmælum um áhrif á mál, sem Svía eina varðar um, eiga kröfu á viðurkenningu almenningsálitsns og stuðningi ríkisvaldsins. En þar sem ég veit, að sum þeirra hafa tekið gagnstæða afstöðu, verður að beina ákveðinni hvatningu til allra sænskra atvinnuveitenda um að styðja að því í þessum efnum, að haldið sé uppi merkjum þeirrar stefnu, að í Svíþjóð gildi sænsk lög, og engin önnur. Af augljósum ástæðum er eftirlátssemi á þessu sviði hollustuleysi við sænska utanríkisverzlun. Fyrir heilbrigð verzlunarviðskipti, sem við óskum að haldist áfram milli Svía og Þjóðverja, er það heppilegast að slík viðleitni fái skjótan endir.“[1]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Utanríkisstefna smáþjóðanna, Tíminn, 1. tölublað (03.01.1939), Blaðsíða 1
  Þetta æviágrip sem tengist stjórnmálum er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.