Fara í innihald

Nils Edén

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Nils Edén

Nils Edén (f. 25. ágúst 1871, d. 16. júní 1945) var sænskur sagnfræðingur, stjórnmálamaður og forsætisráðherra Svíþjóðar 1917–1920.

Edén lauk doktorsprófi í sagnfræði frá Uppsalaháskóla árið 1899 og var sama ár ráðinn sem dósent við sama skóla. Sérsvið Edéns var saga Svíþjóðar á 16. og 17. öld. Árið 1909 var Edén skipaður í prófessorsstöðu við Uppsalaháskóla. Edén, sem var frjálslyndur í stjórnmálaskoðunum, var ákafur talsmaður þess að kosningaréttur yrði gerður almennur.

Árið 1908 var Edén kosinn á þing og skipaði sér fljótt í fremstu röð frjálslyndra þingmanna. Árið 1912 varð hann leiðtogi frjálslyndra í kjölfar þess að Karl Staaff lést.

Árið 1917 myndaði Edén ríkisstjórn með flokki jafnaðarmanna og var Hjalmar Branting fjármálaráðherra í þeirri stjórn. Mikilvægasta afrek stjórnarinnar var að koma loks í gegn breytingum á kosningalögum sem gerðu kosningarétt almennan en Branting og jafnaðarmenn höfðu lengi barist fyrir almennum kosningarétti. Lagabreytingin tók gildi 1921. Ríkisstjórn Edén sagði af sér árið 1920 vegna ýmissa deilna milli stjórnarflokkanna, sér í lagi í skattamálum.

Nils Edén tilheyrði svokölluðum „bæjarliberölum“ (s. stadsliberalerna) og var meðal annars andsnúinn áfengisbanni. Meirihluti þingflokks frjálslyndra fylgdi hins vegar áfengisbanni. Í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu um áfengisbann árið 1922 þar sem tillaga um bann var felld, klofnaði flokkur frjálslyndra. Í maí 1923 stofnuðu andstæðingar áfengisbanns úr röðum frjálslyndra eigin flokk, Sænska frjálslynda flokkinn (s. Sveriges liberala parti). Edén tók þátt í stofnun flokksins, en dró sig fljótlega úr stjórnmálum eftir klofninginn.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Fyrirmynd greinarinnar var „Nils Edén“ á sænsku útgáfu Wikipedia. Sótt 26. desember 2010.