Fara í innihald

Karl Staaff

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Karl Staaff

Karl Staaff (21. janúar 18604. október 1915) var sænskur stjórnmálamaður og forsætisráðherra Svíþjóðar tvívegis, frá 7. nóvember 1905 til 29. maí 1906 og 7. október 1911 til 17. febrúar 1914. Karl Straff myndaði fyrstu ríkisstjórn Frjálslynda flokksins árið 1905 og sat hún fram á árið 1906. Með Staaff sátu í stjórninni auk stjórnmálamanna margir ópólitískir embættismenn.

Á háskólaárum sínum tók Staaff þátt í stofnun félagsins Verdandi (1882) og var formaður félagsins fyrstu árin. Verdandi var róttækt stúdentafélag og margir helstu framámenn úr röðum frjálslyndra sænskra stjórnmálamanna voru félagar í Verdandi, en auk þess voru málsmetandi sósíaldemokratar félagar, þeirra á meðal Hjalmar Branting. Staaff var kjörinn á þing árið 1896 fyrir Folkpartiet, sem gekk árið 1900 inn í Frjálslynda flokkinn (s. Liberala samlingspartiet) við stofnun hans.

Staaff var forystumaður Frjálslynda flokksins á árunum 1907-1915, en flokkurinn átti fulltrúa á sænska þinginu frá 1900 til 1924. Sá flokkur í sænskum stjórnmálum sem í dag kallast Frjálslyndi flokkurinn (s. Folkpartiet liberalerna) er hugmyndafræðilegur arftaki Frjálslynda flokksins sem Staaf stýrði og lítur á hann sem einn af frumherjum flokksins.

Staaff, sem var lögfræðingur, var mjög frjálslyndur í skoðunum og á þingi barðist hann fyrir málefnum verkamanna og því að kosningaréttur yrði gerður almennari. Hann var einnig eindreginn hernaðarandstæðingur. Staaf átti í hörðum útistöðum við sænska íhaldsmenn sem þótti hann grafa undan sænskum hefðum og undirstöðum sænsks samfélags.

Í frétt af andláti hans í Morgunblaðinu 1915 var hans minnst með þessum orðum:

Honum er lýst svo, að hann hafi verið vitur maður, en eigi að því skapi framsýnn, en hafi þó jafnan kunnað að laga skoðanir sinar eftir þvi, hver rás viðburðanna var, og aldrei sýnt þann eintrjáningsskap, sem auðkennir marga stjórnmálamenn.[1]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „Frjálslyndi flokkurinn einn í stjórn“, Morgunblaðið 26. október 1978, bls. 18.
  • Grein um Karl Staaf á sænsku Wikipedia

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Morgunblaðið, 24. október 1915, bls. 5.