Fara í innihald

Tage Erlander

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Tage Erlander
Tage Erlander árið 1949.
Forsætisráðherra Svíþjóðar
Í embætti
11. október 1946 – 14. október 1969
ÞjóðhöfðingiGústaf 5.
Gústaf 6. Adólf
ForveriPer Albin Hansson
EftirmaðurOlof Palme
Persónulegar upplýsingar
Fæddur13. júní 1901
Ransäter, Svíþjóð
Látinn21. júní 1985 (84 ára) Huddinge, Svíþjóð
ÞjóðerniSænskur
StjórnmálaflokkurJafnaðarmannaflokkurinn
MakiAina Erlander (g. 1930)
HáskóliLundarháskóli
Undirskrift

Tage Erlander (13. júní 1901 – 21. júní 1985) var sænskur stjórnmálamaður úr Jafnaðarmannaflokknum sem var forsætisráðherra Svíþjóðar frá 1946 til 1969. Erlander átti lengstu embættistíð allra sænskra forsætisráðherra og var því oft kallaður „lengsti forsætisráðherra Svíþjóðar“. Þetta gælunafn vísaði bæði í langa embættistíð Erlanders og í eiginlega hæð hans, en Erlander var 192 cm á hæð. Erlander var einn áhrifamesti stjórnmálamaður í sögu Svíþjóðar og er gjarnan talinn einn helsti hönnuður norræna velferðarkerfisins.[1][2]

Tage Erlander fæddist árið 1901 í þorpinu Ransäter í Vermlandi í miðhluta Svíþjóðar. Faðir hans var barnaskólakennari og organisti í sóknarkirkju þorpsins auk þess sem hann var formaður bindindisfélags og virkur í trúboðastarfi. Eftir að Tage hafði lokið grunnskólanámi gekk hann í Lundarháskóla, þar sem hann nam í fyrstu stærðfræði og raunvísindi en skipti síðar yfir í hagfræði og stjórnvísindi.[1]

Stjórnmálaskoðanir Erlanders mótuðust af stéttamismunun og bágum kjörum landbúnaðarverkamanna á Skáni. Erlander gekk í sænska Jafnaðarmannaflokkinn og náði árið 1930 kjöri fyrir flokkinn í bæjarstjórnarkosningum í Lundi.[1]

Erlander var kjörinn á sænska þingið árið 1932 og fimm árum síðar hóf hann störf í sænska félagsmálaráðuneytinu undir stjórn Gustavs Möller. Árið 1945 varð Erlander menntamálaráðherra í ríkisstjórn Pers Albin Hansson forsætisráðherra.[3] Um ári síðar lést Hansson skyndilega og Jafnaðarmenn héldu til kosninga til að velja eftirmann hans sem flokksformann. Erlander var á þessum tíma lítið þekktur og búist var við því að Gustav Möller ætti auðveldan sigur vísan í formannskjörinu. Öllum að óvörum vann Erlander hins vegar kosninguna eftir að helsti keppinautur Möllers um formannsstólinn, Ernst Wigforss, dró eigið framboð til baka og studdi framboð Erlanders.[4] Þegar fréttist að Erlander væri orðinn nýr formaður Jafnaðarmannaflokksins og forsætisráðherra Svíþjóðar er sagt að Gústaf 5. Svíakonungur hafi spurt: „Hver í fjandanum er hann, þessi Erlander?“.[5]

Erlander fór lengst af fyrir minnihlutastjórn Jafnaðarmannaflokksins en á sjötta áratugnum gekk hann í stjórnarsamstarf við sænska Miðflokkinn sem gerði honum kleift að sitja eins lengi við stjórn og raun bar vitni. Samstarfið við Miðflokkinn og meirihluti Jafnaðarmanna á efri deild sænska þingsins gerði Erlander kleift að halda í völdin þrátt fyrir kosningasigur borgaralegra hægriflokka í þingkosningum árið 1956.[5]

Stjórnartíð Erlanders á árunum 1946 til 1947 hefur verið kölluð „uppskerutíð“ sænskra jafnaðarmanna vegna hinnu fjölmörgu laga sem voru þá sett til að renna stoðum undir sænska velferðarríkið. Á þeim tíma kynnti stjórn Erlanders til sögunnar almennan lífeyri, foreldrastyrki og greiddar veikindabætur. Árið 1947 voru umbætur gerðar á sænska skattkerfinu svo að tekjuskattur í lægstu tekjuþrepunum var lækkaður, erfðaskattur var innleiddur og skattur á hærri tekjuþrep var hækkaður.[6]

Erlander lét einnig til sín kveða í alþjóðamálum. Hann var meðal annars lykilmaður í stofnun Norðurlandaráðs og talaði fyrir því að stofnað yrði til norræns varnarbandalags, sem þó varð aldrei að veruleika.[5]

Erlander vann sinn stærsta kosningasigur árið 1968, en í þeim kosningum vann Jafnaðarmannaflokkurinn hreinan meirihluta á sænska þinginu. Næsta ár lét Erlander af formennsku Jafnaðarmannaflokksins og eftirlét formannssætið pólitískum lærlingi og samstarfsmanni sínum, Olof Palme.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 1,2 Pétur Pétursson (7. júlí 1985). „Svíar kveðja föður velferðarríkisins“. Morgunblaðið. Sótt 23. ágúst 2019.
  2. „Arkitekt velferðarríkisins látinn“. Alþýðublaðið. 26. júní 1985. Sótt 23. ágúst 2019.
  3. „Tage Erlander áttræður“. Alþýðublaðið. 13. júní 1981. Sótt 23. ágúst 2019.
  4. Gylfi Þ. Gíslason (29. júní 1985). „Tage Erlander – minningarorð“. Alþýðublaðið. Sótt 23. ágúst 2019.
  5. 5,0 5,1 5,2 Gunnlaugur A. Jónsson (26. júní 1985). „Hann átti enga óvini, bara vini“. Dagblaðið Vísir. Sótt 23. ágúst 2019.
  6. Mares, Isabela (2006). Taxation, wage bargaining and unemployment. Cambridge University Press. ISBN 0521857422.


Fyrirrennari:
Per Albin Hansson
Forsætisráðherra Svíþjóðar
(11. október 194614. október 1969)
Eftirmaður:
Olof Palme