Carl Gustaf Ekman

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Carl Gustaf Ekman

Carl Gustaf Ekman (6. október 187215. júní 1945) var sænskur stjórnmálamaður og forsætisráðherra Svíþjóðar. Ekman var formaður Frjálslynda þjóðarflokksins (s. Frisinnade folkpartiet) frá 1924 til 1932. Ekman var tvívegis forsætisráðherra Svíþjóðar, fyrst frá 7. júní 1926 til 2. október 1928, og seinna frá 7. júní 1930 til 6. ágúst 1932.

Ekman sat á þingi frá 1911 til 1932 og var meðal áhrifamestu stjórnmálamanna síns tíma. Ekman var einn af stofnendum Frjálslynda þjóðarflokksins sem varð til þárið 1924 í kjölfar þess að Frjálslyndi flokkurinn (s. Liberala samlingspartiet) klofnaði vegna afstöðunnar til þess hvort leyfa ætti áfengisdrykkju. Ekman var harður bindindismaður, en bindindismennirnir innan Frjálslynda flokksins stofnuðu Frjálslynda þjóðarflokkinn, hinir stofnuðu Sveriges liberala parti. Sem formaður Frjálslynda þjóðarflokksins lék Ekman lykilhlutverk í sænskum stjórnmálum því hvorki hægrimenn né vinstrimenn höfðu meirihluta á þingi og þurftu stuðning miðjuflokka. Seinni ríkisstjórn Ekman glímdi við alvarlegt mótlæti sem að lokum leiddi til þess að Ekman hrökklaðist úr stjórnmálum. Stjórnin réð ekki við efnahagserfiðleika þá sem leiddu af heimskreppunni, en ríkisstjórn hans fylgdi strangri aðhaldsstefnu í ríkisútgjöldum sem urðu frekar til þess að dýpka áhrif kreppunnar. Þá var Ekman gagnrýndur fyrir að hafa þegið fjárstuðning fyrir hönd flokks síns frá sænska iðnjöfurnum og fjárglæframanninum Ivar Kreuger. Ekman neyddist til þess að segja af sér mánuði fyrir kosningarnar 1932 en flokkur hans beið niðurlægjandi ósigur í kosningunum. Árið 1934 sameinuðust aftur báðir frjálslyndu flokkarnir, Frisinnade folkpartiet (flokkur Ekman) og Sveriges liberala parti, undir nafninu Þjóðarflokkurinn (s. Folkpartiet).

  Þessi stjórnmálagrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.