Fara í innihald

Rúnir

Þessi grein er gæðagrein að mati notenda Wikipediu.
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Rúnaletur)
Röksteinninn frá Svíþjóð frá 9. öld. Á hann eru ristar rúnir úr eldri og yngri rúnaröðinni og einnig dulrúnir

Rúnir eru fornt stafróf sem notað var í mörgum germönskum málum frá 2. öld þar til þær smám saman viku fyrir latnesku letri. Rúnir voru fyrst og fremst höggnar í stein eða ristar í tré.

Elstu rúnir sem fundist hafa eru frá seinni hluta 2. aldar og voru þær algengar næstu þúsund árin um norðanverða Evrópu, einkum á Norðurlöndum. Með útbreiðslu kristni fylgdi latneska stafrófið inn í þjóðfélög germana og notkun rúnaletursins stórminnkaði allt frá 12. öld. Þó var það talsvert notað á Norðurlöndum allt fram á 14. öld og voru rúnir í notkun (einkum til skrauts) á einstaka stað allt fram um lok 19. aldar.

Allra elsta rúnaristan, sem þekkt er, er frá því um 150 e. Kr. á greiðu úr horni sem fannst í Vimose á Fjóni. Næst elstu rúnaristurnar eru frá seinni hluta 2. aldar og virðist rúnastafrófið hafa þá þegar verið komið í fastar skorður. Allar ristur frá 2. og 3. öld eru mjög stuttar, eitt eða tvö orð. Flestar þeirra hafa fundist í Suður-Skandinavíu, á Jótlandi, Sjálandi, Fjóni og á Skáni og bendir það til þess að rúnir séu upprunnar þaðan.

Fræðimönnum ber ekki saman um hver fyrirmynd rúnanna sé. Þó er talið að fyrirmyndina gæti verið að finna annaðhvort í latneska eða gríska stafrófinu eða í fornum norðurítölskum starfrófum. Hins vegar er ljóst að rúnirnar eru mótaðar af einhverjum sem var kunnugur stafrófum menningarheims Miðjarðarhafsins.

Uppruni orðsins rún og hugtaksins rúnir er ekki með öllu ljós. Hugsanlega er það komið af forn-germanskri rót, annað hvort rótinni *rūn- (sem má finna í gotísku runa) sem þýðir leynd eða samhljóða rót *rūn- sem þýðir að rista. Ekki er ólíklegt að hugtakið rúnir sé eldra en stafagerðin og hafi verið notað um spádómsmerki.

Afbrigði stafrófsins

[breyta | breyta frumkóða]

Allmörg afbrigði er að finna af rúnum en þau helstu eru svo nefnd eldri rúnaröð eða fuþark hið eldra (sem var í notkun frá 150 til 700 e.Kr.), engilfrísnesk rúnaröð eða fuþorc (800 til 1100), yngri rúnaröð eða fuþark hið yngra (sem var í notkun frá 700 fram til 1100) og stungnar rúnir eða miðaldarúnir (1100 til 1500). Stafrófsnafnið Fuþark er dregið af stafrófsröð fyrstu sex táknanna.

Rúnirnar voru ekki alltaf skrifaðar frá vinstri til hægri eins venjan er með nútíma-rithátt latnesks stafrófs. Þær gátu verið skrifaðar frá hægri til vinstri, jafnvel að ofan og niður. Þær voru einnig stundum skrifaðar án millibils milli orða og jafnvel fyrst frá vinstri til hægri og næsta lína frá hægri til vinstri.

Eldri rúnaröð

[breyta | breyta frumkóða]
Eldri rúnaröðin

Elsta rúnastafrófið sem nefnt er eldri rúnaröðin eða fuþark hið eldra samanstóð af 24 táknum og samsvöruðu þau sennilega nokkurn veginn hljóðkerfi frumnorrænu. Hljóðgildi nokkurra rúnanna er ekki vitað með öruggri vissu en flest táknin eru áþekk samsvarandi latneskum bókstöfum og er framburður þeirra flestra þekktur með nokkuð öruggri vissu. Form táknanna — bein strik sem standa lóðrétt eða hallandi — benda til að þau hafi upphaflega verið ætluð til að vera skorin, rist eða höggvin í fremur harðan flöt en ekki skrifuð á skinn eða pappír. Engar rúnaristur í tré hafa varðveist frá tímum fornnorrænu þó það hafi sennilegast verið algengasta ristunarefnið og má ætla að það sé vegna þess að tré er forgengilegt. Allar varðveittar áletranir eru ristar í stein, málm, horn eða bein.

Greiða úr horni sem fannst í Vimose á Fjóni. Elsta rúnaristan

Elstu rúnaristurnar eru frá 150 til 200 e. Kr. og fundust í suðurhluta Danmerkur. Í Skandinavíu hafa fundist um 370 af þeim samtals um 700 rúnaristum með eldri rúnaröð sem fundist hafa. Rúnaristur frá því fyrir árið 800 hafa fundist allt frá Búrgundar-héraði í Frakklandi í vestri til Rúmeníu í austri og frá Norður-Þrændalögum í norðri til Bosníu í suðri. Þessar ristur er að finna á vopnum, skartgripum, steinum og áhöldum. Textarnir eru oftast afar stuttir, nöfn, áheit eða stuttir textar (til dæmis ristan á gullhorninu frá Gallehus á Jótlandi: ek hlewagastiR ÷ holtijaR ÷ horna ÷ tawido ÷ Það er: Ek Hlewagastiz Holtijaz horna tawido sem þýðir Ég HlewagastiR HoltijaR (frá Holti eða sonur Holta) gerði hornið.[1]

Af þeim 50 rúnasteinum sem voru reistir sem minnisvarðar fyrir árið 800 og fundist hafa eru 35 í Noregi. Rúnaristur má finna um stóran hluta meginlands Vestur-Evrópu þar sem germanskir þjóðflokkar fóru um á þjóðflutningatímanum á 3. til 6. öld. Flestir gripir hafa fundist stakir en sérlega margir skartgripir með rúnaáletrunum hafa fundist í gröfum í suðurhluta Þýskalands frá 6. öld.

rún hljóð nafn
f *fehu „fé“
u *ūruz „úruxi“
þ *þurisaz „þurs“
a *ansuz „æsir, goð“
r *raidō „reið, ferð“
k *kauna „kaun = sár, sýking, hiti, eldur“
g *gebō „gjöf“
w *wunjō „njóta“
rún hljóð nafn
t *Tīwaz „Týr“
b *berkana / *berkō „birki, börkur“
e *ehwaz „hestur“
m *mannaz „maður“
l *laukaz „laukur“ / *laguz „vatn (lögur)“
ŋ *Ingwaz „Freyr“
d *dagaz „dagur“
o *ōþala „óðal“
rún hljóð nafn
h *hagla „hagl“
n *naudiz „nauð, neyð“
i *īsaz „ís“
j *jēra „ár“
ï *īwaz „Ýviður“
p *perþō „gleði, hlátur“
z *algiz „elgur“
s *sōwulō „sól“

Yngri rúnaröð

[breyta | breyta frumkóða]
Yngri rúnaröð, efri röðin svo nefnd danska rúnaröðin, neðri norsk-sænska.

Norðurgermönsk mál, þar á meðal norræn, tóku miklum breytingum á 6. og 7. öld og um 700 var eldri rúnaröðin einfölduð á þann hátt að táknum var fækkað úr 24 í 16. Þessi nýja rúnaröð, sem nefnd er yngri rúnaröð eða fuþark hið yngra, kemur í notkun nánast samtímis í Svíþjóð, Danmörku og Noregi svo það er engu líkara en að Norðurlöndin hafi gert með sér samning um að taka upp nýtt letur. Eitt það merkilega við þessa leturbreytingu er að um svipað leyti fjölgar hljóðum í norrænu samkvæmt greiningum málfæðinga svo eiginlega var þörf fyrir fleiri tákn en ekki færri en áður ef hvert hljóð átti að eiga sitt tákn. Hvers vegna þetta gerist er ekki vitað en tengist þeim miklu breytingum sem verða á þessum málum á sama tímabili. Má vera að úr því að 24 tákn voru ekki lengur nægilega mörg til þess að koma til skila öllum hljóðum málsins þá var álitið að samhengi mundi sýna hljóðígildi þeirra stafa sem hefði fleiri en einn hljóðmöguleika.

Sennilegt er að auknar samgöngur og verslun á víkingaöld hafi haft í för með sér aukna þörf á ritmáli enda er mikill hluti rúnafunda frá þessum tíma frá verslunarstöðum.

Yngri rúnaröðin kemur upphaflega fram í tveimur gerðum, svonefnd dönsk rúnaröð annars vegar og norsk-sænsk hinsvegar, en síðar má finna ýmsar blöndur og útgáfur. Mikill hluti rúnarista frá víkingatímunum eru rúnasteinar og einn sá frægast og sá sem á eru ristar flestar rúnir, 750 talsins, er frá 9. öld í Rök í Austur-Gautlandi í Svíþjóð. Hefst frásögnin á aft uamuþ stonta runaR þaR, það er Eptir Vémóð/Vámóð standa rúnar þær. Fyrir utan rúnir úr bæði eldri og yngri rúnaröðinni eru á steininum dulrúnir sem ekki hefur tekist að túlka. Tveir miklir rúnasteinar voru reistir í Jelling á Jótlandi um 1050 og urðu upphaf þess sem nánast má líkja við tísku í rúnasteinagerð. Var stærri steinninn reistur fyrir Harald konung Gormsson. Um 220 rúnasteina má finna í Danmörku frá um það bil 700 til 1125. Frá dönsku héruðunum á Skáni barst tískan norður til Svíþjóðar, einkum til Upplands. Ríflega 2500 rúnasteina frá 11. og 12. öld hafa fundist í Svíþjóð, flestir þeirra greinilega gerðir í kristinni hefð.

Ýmsar heimildir eru til um nöfn rúna meðal annars þrjú rúnakvæði frá miðöldum sem auðkennd hafa verið sem íslenskt,[2], norskt[3] og engilsaxneskt.[4] Norsku og íslensku kvæðin eru mjög lík og innihalda eitt erindi um hverja rún í yngri rúnaröðinni en það engilsaxneska er nokkuð frábrugðin enda á það við engilsaxnesku rúnaröðina.

Miðaldarúnaröðin

[breyta | breyta frumkóða]
Miðaldarúnir

Almenn notkun latneska stafrófsins á Norðurlöndum hófst með kristnitökunni, frá um það bil 950 til 1050, en rúnir voru notaðar samhliða um langan aldur. Viðaukar voru gerðir við yngri rúnaröðina svo að í stað 16 tákna voru í upphafi 13. aldar orðin jafn mörg tákn í norræna rúnaletrinu eins og í latneska stafrófinu. Er þessi rúnaröð nefnd miðaldarúnir eða stungnar rúnir. Stafrófsröð rúnanna var líka breytt og fylgdi nú því latneska. Rúmlega 2700 rúnaristur frá um það bil 1100 til 1500 hafa fundist, ríflega helmingur frá Noregi og þar af um 600 frá Bergen. Stór hluti af ristunum eru tengdar kirkjum, í byggingunum sjálfum, á ýmsum helgidómum og á leiðum. Mikið af ristunum hefur fundist við uppgrefti á miðaldabæjum. Er þar einkum um að ræða einföld skilaboð rist á tréfjalir eða bein, eignarmörk verslunarmanna, persónuleg skilaboð og ástarkvæði svo eitthvað sé nefnt. Um 10% allra miðaldarúnarista eru textar á latínu, til dæmis Ave Maria. Norrænir menn höfðu með sér rúnakunnáttu þar sem þeir námu ný lönd í Rússlandi, á Bretlandseyjum (Danalög, Skotlandi, Dublin, Mön), Færeyjum, Orkneyjum, Íslandi og Grænlandi. Einkum var það á Íslandi og Grænlandi sem rúnanotkun hélst lengi. Í kjölfar Svarta dauða á Norðurlöndum um 1350 stórminnkaði rúnanotkun og einungis fáeinar ristur er að finna frá 15. öld og eru þær einkum frá Gotlandi. Rúnir voru þó notaðar áfram á einstaka svæðum, má þar nefna Dala-hérað í Svíþjóð þar sem sérstök útgáfa rúna var notuð til skreytinga allt fram um aldamótin 1900.

Engilfrísnesk rúnaröð

[breyta | breyta frumkóða]
Engilfrísísk rúnaröð.

Um aldamótin 500 þróaðist sérstök rúnaröð hjá Frísum og Engilsöxum, voru í henni upphaflega 26 tákn og síðar viðaukið í 31. Er rúnaröðin ýmist nefnd engilfrísnesk, engilsaxnesk eða Fuþorc. Fyrstu sex táknin í þessari rúnaröð eru fuþorc. Fundist hafa um 20 rúnaristur af frísneskum uppruna og 90 engilsaxneskar. Þessi rúnaröð var notuð frá 6. og fram á 10. öld. Risturnar eru einkum á vopnum, skartgripum, kirkjugripum, steinum og sérlega á peningum. Um Fuþorc rúnirnar er einnig fjallað í nokkrum miðaldahandritum, runica manuscripta, sem annars eru rituð með latnesku letri. Handritaheimildir um fuþorc-rúnaröðina er einnig að finna í rúnakvæðum sem eru svipuð og samsvarandi norræn kvæði.

Rúnir á Íslandi

[breyta | breyta frumkóða]

Einungis hafa tæplega hundrað rúnaristur fundist á Íslandi og eru þær elstu frá 10. eða 11. öld og þær yngstu frá síðari hluta 19. aldar. Um 50 af þessum ristum eru á rúnalegsteinum flestar sennilega frá 15. og 16. öld. Þegar á líður 17. öldina er notkun á rúnum almennt hætt en þær voru í nokkrum mæli notaðar til skrauts í útskurði allt til loka 19. aldar.

Einungis ein rúnarista hefur fundist á Íslandi frá söguöld. Er það spýtubrot sem fannst í Viðey 1993 og er að öllum líkindum frá 10. eða 11. öld. Er spýtan rist með táknum úr yngri rúnaröðinni. Það eina sem hefur tekist að ráða með nokkurri vissu er lokaorðið ast, það er ást og hefur textinn sennilega fjallað um það.[5]

Hins vegar eru fjölmörg dæmi um rúnir og rúnanotkun í Íslendingasögunum, til dæmis í Egils sögu Skallagrímssonar og Sturlungasögu. Varla er hægt að draga aðra ályktun en að rúnir hafi verið álíka mikið notaðar á Íslandi á söguöld og annars staðar á Norðurlöndum.

Tvær af merkustu rúnaristum á Íslandi eru frá 12. öld og um 1200 og sýna þær að rúnir voru notaðar á hversdagshluti og kirkjuskraut eins og annars staðar á Norðurlöndum. Er annað tréreka sem fannst í mógröf í Skorradal 1933 og hitt kirkjuhurðin frá Valþjófsstað. Á rekuna er rist „boattiatmik ' inkialt=r ' kærþi“ það er „Páll lét mik, Ingjaldr gerði“ (Páll lét mig (gera) Ingjaldur gerði (mig)).[6] Rekan er í einu stykki og gerð úr furu, gæti verið norsk að uppruna. Á kirkjuhurðinni frá Valþjófsstað má sjá myndskurð sem sýnir atriði úr þekktri miðaldasögu um franskan riddara og ljón hans sem var honum svo fylgispakt að það lagðist á gröf hans og veslaðist upp af sorg. Á efri kringlunni er ljónið á gröf riddarans og rúnaletur þar sem stendur: „... rikia kYnYng × her grapin × er ua dreka þænna“, það er „.. ríkja konung hér grafinn er vá dreka þenna.“

Miðaldarúnaröðin hefur verið notuð í nánast öllum þeim rúnaristum sem fundist hafa á Íslandi. Í henni voru 26 tákn og voru mörg afbrigði af einstaka rúnum notuð á Íslandi. Eitt rúnatákn hefur einungis fundist á rúnaristum á Íslandi og á Grænlandi og annað hefur einungis fundist á Íslandi. Rúnir hafa víða fundist á Íslandi, til dæmis í Bjarnarhelli við Hítarvatn á Mýrum.[7]

Rúnir á Grænlandi

[breyta | breyta frumkóða]
Ljósmynd af Kingittorsuaq rúnasteininum

Um 80 rúnaristur hafa fundist á Grænlandi, af þeim hafa 45 fundist í Eystribyggð og hinar í Vestribyggð með einni undantekningu. Á eyjunni Kingittorsuaq norðvestur af Upernavik á því svæði sem norrænir menn á Grænlandi nefndu Norðursetu hefur einn rúnasteinn fundist.[8]

Elsta rúnaristan er rúnakeflið frá Narsaq sem álitið er frá byrjun 11. aldar og fannst við Narsaq í Kujalleq-sveitarfélaginu. Eru rúnir á þremur hliðum keflisins, á einni hlið er öll 16 tákna yngri Fuþark-röðin ristuð. Tvær af rúnunum, B- og R-rúnin, hafa sérstakt grænlenskt form. Á annarri hlið er textinn + o : sa ÷ sa ÷ sa ÷ is ÷ osa ÷ sat + bibrau ÷ haitir ÷ mar ÷ su ÷ is ÷ sitr ÷ o ÷ blan-- ... sem þýðir Á sæ, , , es Ása sát. bibrau heitir mær sú es sitr á Bláni / Blánum (?) ... Á þriðju hliðinni eru dulrúnir sem ekki hefur tekist að þýða.[9]

Næstelsta ristan er frá upphafi 13. aldar, legsteinn frá Brattahlíð sem á er rist: laiþi ink=ibiarkar, það er: Leiði Ingibjargar.

Flestar aðrar rúnaristur eru sennilega frá 14. og 15. öld. Meðal merkilegri funda eru ýmis áhöld með rúnaristum sem fundust við uppgröft á Bænum undir sandinum í Vesturbyggð.

Einnig má nefna rúnakefli sem fannst í kistu í kirkjugarðinum á Herjólfsnesi. Á keflið er rist: + þæsi : kona : uar : lagþ ÷ firi : borþ : i : grønalaz : haf(e) : ær : guþu(e)h : het sem þýðir: Þessi kona var lagð fyrir borð í Grœnalands hafi, er Guðveig hét. Hefur Guðveig á þennan hátt komist í vígða jörð.

Af rúnaristunum má marka að mál norrænna manna á Grænlandi hafi verið íhaldsamt og sú tunga sem landnámsmenn höfðu með sér frá Íslandi og Noregi hafi tekið fremur litlum breytingum. Einnig má sjá að Grænlendingar héldu fast við þau rúnaform sem tíðkuðust á Norðurlöndum um árið 1000 þó svo að þeir hafi skapað ný form fyrir ð-, b-, p- og r-rúnirnar.[10][11]

Um árið 1300 er ekki lengur hægt að tala um eitt norrænt tungumál í Noregi og á landnámssvæðum Norðmanna. Greinilegt er að tunga Grænlendinga og Íslendinga hefur aðskilist en einnig færeyska, hjaltlenska, orkneyska, suðureyska og fleiri mismunandi mállýskur í Noregi.[12]

Í Grænlandsannál þeim sem Björn Jónsson á Skarðsá skráði um 1636 er sagt frá Líka-Loðni sem á að hafa verið uppi um miðja 11. öld. Á sumrum fór Líka-Loðinn norður fyrir byggðir og sótti lík sæfarenda og veiðimanna sem höfðu látist fjarri mannabyggðum. Fann hann oft líkin í hellisskútum og fann þar ósjaldan rúnaristur sem sögðu frá afdrifum hinna látnu.[13]

Í Sturlungasögu er meðal annars sagt frá Ingimundi presti Þorgeirssyni og förum hans en skip það sem hann ferðaðist á fórst við austurströnd Grænlands og lík hans fannst þar í helli. Hjá honum í hellinum var vaxspjald þar sem mátti lesa með rúnaletri um afdrif hans.[14]

Fjölkynngi

[breyta | breyta frumkóða]

Engin efi er á því að rúnir hafi verið tengdar dulmagni og yfirnáttúrlegum öflum frá upphafi. í Hávamálum er sagt frá því að Óðinn sjálfur hafi fyrstur fengið rúnirnar. Hann hékk undir rótum Yggdrasils í níu nætur, stunginn síðusári, þar til rúnirnar birtust honum. Hann tók þær upp og féll síðan niður úr trénu.

Veit ek, at ek hekk
vindga meiði á
nætr allar níu,
geiri undaðr
ok gefinn Óðni,
sjalfr sjalfum mér,
á þeim meiði,
er manngi veit
hvers af rótum renn.
Við hleifi mik sældu
né við hornigi;
nýsta ek niðr,
nam ek upp rúnar,
æpandi nam,
fell ek aftr þaðan.[15]

Fleiri dæmi eru til um að rúnir hafi komið af himnum ofan eða frá æðri máttarvöldum.

Það er þó athyglisvert að mjög fá dæmi er að finna þar sem æsir eru nefndir í þeim rúnaristum sem fundist hafa. Það er hins vegar ekkert sem bendir til að rúnir og rúnanotkun hafi í sjálfu sér verið tengt ásum og fornum sið enda hafði kirkjan ekkert við rúnanotkun að athuga fyrstu aldirnar eftir kristnitöku á Norðurlöndum. Sem dæmi um það má nefna að stór hluti af rúnaristum eru tengdar kirkjunni, á kirkjugripum og ekki síst á legsteinum.

Þó svo að rúnir hafi aðallega verið notaðar til veraldlegra samskipta þá hafa þær jafnframt frá upphafi verið notaðar til að hafa áhrif á forlögin og yfirnáttúrulega krafta og ekki síst til að rýna inn í framtíðina. Hin fjölmörgu rúnakefli og aðrir hlutir sem fundist hafa þar sem rúnaröðin er rist á tré eða bein benda til þess að því hafi verið trúað að táknin sjálf búi yfir krafti. Oft voru einungis fyrstu stafir rúnastafrófsins, það er FUÞARK, ristir á viðkomandi hlut og hefur það þótt nægja[16].

Um árið 98 lýsti rómverski sagnfræðingurinn Tacitus aðferðum Germana: „Þeir [Germanar] sníða grein af aldintré og hluta í smábúta, er þeir aðgreina með mismunandi merkjum; strá svo bútunum án greinarmunar og af handahófi á hvítt klæði“.[17]

Í íslenskum miðaldaritum er á allmörgum stöðum skrifað um blótspán og að „að fella blótspán“ sem sennilega hefur verið athöfn lík þeirri sem Tacitius lýsti. Einnig er talað um í Völuspá að „kjósa hlautvið“[18]. Engar lýsingar eru hins vegar hverskonar merki eða tákn voru rist á kvistina.

Kvistrúnir

Þegar Yngri rúnaröðin var notuð við galdra eða spádóma voru rúnirnar flokkaðar í þrjár ættir, Freysætt (f u þ ą r k), Hagalsætt sem einnig var nefnd Heimdallsætt (h n i a s) og Týsætt (t b m l y). Þessi ættarflokkun var einnig notuð þegar átti að erfiða fyrir með lestur og þýðingu á rúnaristuninni með svo nefndum dulrúnum eða leynirúnum. Byggði það á því að ættirnar voru tölusettar (í öfugri röð):

  1. f u þ a r k (Freysætt);
  2. h n i a s (Hagalsætt);
  3. t b m l y (Týsætt).

Hver rún hafði þá tvær tölur, ættartöluna og raðtöluna. Ýmsar gerðir tákna voru notuð til að skrifa dulrúnirnar, til dæmis kvistrúnir en þær voru þannig gerðar að settir voru kvistir sitt hvoru megin við lóðrétt strik til hægri fyrir ættartöluna og vinstra megin fyrir raðtöluna.

Sérstök gerð af rúnum voru svo nefndar bandrúnir og eru það rúnatákn sem samanstanda af tveimur eða fleiri rúnum og voru notaðar frá því fyrir 800 e. Kr. á legsteinum og minnisvörðum. Á Íslandi voru þær notaðar til merkinga á búfénaði, rekaviði og lausamunum allt fram á seinni hluta 19. aldar. Sérstakir galdrastafir þróuðust úr bandrúnum samtímis því sem rúnanotkun til venjulegra skrifta lagðist af.

Neðanmálsgreinar

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Rune. 2004. Bls 122.
  2. Íslenska rúnakvæðið er til í þremur handritum, öll á Arnamagnæanske Institut í Kaupmannahöfn. Það elsta er AM 687, frá því um það bil ár 1500, þar eru rúnirnar letraðar en ekki nöfnin. AM 461, frá 16. öld, nöfn rúnanna en ekki þær sjálfar. AM 413, afrit af handriti frá 16. öld í Runologia Jóns Ólafssonar frá Grunnuvík (1732-52)
  3. Norska rúnakvæðið var fyrst prentað og þá með rúnatáknunum í Danica Literatura Antiquissima sem saman var tekið af Olaus Wormius og gefið út 1636. Það var afritað af handriti á Háskólabókasafni Kaupmannahafnar sem hvarf í brunanum 1728.
  4. Engilsaxneska rúnakvæðið varðveittist í handriti sem nefnt var Cottonian MS.Otho B X en það hvarf í bruna 1731. Það hafði áður verið prentað í riti George Hickes, Linguarum Veterum Septentrionalium Thesaurus, 1705.
  5. Þórgunnur Snædal. „Hvað merkir þessi stafaruna sem rituð er með rúnum á trjábút: RB FIR KUI KLK IBBII?“. Vísindavefurinn 9.1.2007. http://visindavefur.is/?id=6457. (Skoðað 13.5.2010).
  6. Þórgunnur Snædal, Rúnaristur á Íslandi, Árbók Hins íslenzka fornleifafélags, 96 árgangur, 2000-2001, blaðsíða 40.
  7. ISLANDSKE RUNER
  8. Ingstad. 1960.
  9. Moltke. 1959.
  10. J. E. Knirk, 2002
  11. Rune. 2004. Bls 44-55
  12. Bandle. 2002.
  13. j þeßum nordur hafs botna ïs, hafa flest skip forgeingid alltijd fordum, sem margt seigir af ï Tosta þætti, þviat Lijka-Lodin. tök þar af auknefni sitt, ad hann kannadi opt ä Sumrum nordur öby • gdir, og flutti lijk manna til kirkiu er hann fann ï hellum og skütum, þar sem þeir hofdü af ïsum edur skipbrotum komid, Enn hiä þeim läu jafnann ristnar Rú´ner um alla atburdi þeirra ó´fara og kvalninga. (úr handriti AM 115 8o, prentað hjá Magerøy 1993, bls. 30)
  14. Skip þeira kom í óbygg[ð]ir á Grænlandi, ok týndust menn allir. En þess varð svá víst, at fjórtán vetrum síðar fannst skip þeira, ok þá fundust sjau menn í hellisskúta einum. Þar var Ingimundr prestr. Hann var heill ok ófúinn ok svá klæði hans, en sex manna bein váru þar hjá honum. Vax var ok þar hjá honum ok rúnar þær, er sögðu atburð um líflát þeira. (Jón Jóhannesson, Magnús Finnbogason og Kristján Eldjárn 1946 bls. 138)
  15. http://www.heimskringla.no/wiki/H%C3%A1vam%C3%A1l Hávamál, texti á heimskringla.no
  16. McKinnell. 2004. Bls. 33-34
  17. Tacitus. 2001. Bls. 66.
  18. http://www.heimskringla.no/wiki/V%C3%B6lusp%C3%A1 Völuspá á Heimskringlu.no
  • Arild Hauges Runer Om víkinga, rúnir og þjóðtrú á Norðurlöndum
  • Bandle, Oskar (ritstjóri), The Nordic Languages : An International Handbook of the History of the North Germanic Languages : Volume 2. (Berlin: Walter de Gruyter, 2005). ISBN 3-11-017149-X.
  • Heimskringla.no Norrænir textar og kvæði
  • Ingstad, Helge, Landet under leidarstjernen : en ferd til Grønlands norrøne bygder (Oslo: Gyldendal, 1960).
  • Jón Jóhannesson, Magnús Finnbogason og Kristján Eldjárn (ritstjórar), Sturlunga saga. 2 hefti. (Reykjavík: Sturlunguútgáfanm, 1946).
  • Knirk, J. E., „Runes“, í The Nordic Languages: An International Handbook of the History of the North Germanic Languages, O. Bandle (ritstj.), vol. 1 (Berlin: Walter de Gruyter, 2002), 634–48.
  • Stoklund, M. og E. Svärdström, „Runes and Runic Inscriptions“, í Medieval Scandinavia: An Encyclopedia, P. Pulsiano (ritstj.) (1993), 545–55.
  • Matthías Viðar Sæmundsson (1992). Galdrar á Íslandi. Reykjavík: Almenna bókafélagið. ISBN 9979-4-0068-4
  • Magerøy, Hallvard. Soga om austmenn: Nordmenn som siglde til Island og Grønland i mellomalderen. Det Norske Videnskaps-Akademi, no. 19. (Oslo: Det Norske Samlaget, 1993).
  • McKinnell, John og Simek, Rudolf. Runes, Magic and Religion: A Sourcebook. (Wien: Fassbaender, 2004). ISBN 3-900538-81-6
  • Moltke, Erik, Runerne i Danmark og deres oprindelse (København: Forum Forlag, 1976). ISBN 87-553-0426-5
  • Rune, Palm, Vikingarnas språk (Nordstedts, 2004). ISBN 91-1-301086-7
  • Tacitus, Cornelius. Germania. Páll Sveinsson (þýð.) (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 2001). ISBN 997966102X
  • Þórgunnur Snædal. „Hvað merkir þessi stafaruna sem rituð er með rúnum á trjábút: RB FIR KUI KLK IBBII?“. Vísindavefurinn 9.1.2007. http://visindavefur.is/?id=6457. (Skoðað 13.5.2010).
  • Þórgunnur Snædal (2000). „Íslenskar rúnir í norrænu ljósi“. Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1998.
  • Þórgunnur Snædal (2003). „Rúnaristur á Íslandi“. Árbók hins íslenzka fornleifafélags 2000-2001.