Fara í innihald

Herjólfsnes

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Herjólfsnes, einn af þekktustu kirkjustöðum og bóndabæjum Grænlendinga hinna fornu, stóð þar sem nú heitir Ikigaat skammt frá Hvarfi (Kap Farvel) á Suður-Grænlandi. Norrænir menn bjuggu þar frá því um árið 1000 og langt fram á 15. öld. Fornleifarannsóknir og C-14 aldursgreiningar sýna einnig að inúítar hafa búið á þessu svæði frá byrjun 15. aldar og allt fram til 1909. Þá lagðist byggðin af um tíma. Þar var að nýju hafin sauðfjárrækt 1959 en byggðin fór á ný í eyði 1972 og býr þar nú enginn. Þetta er eina svæðið á Grænlandi þar sem öruggt er að inúítar og norrænir menn voru nágrannar.

Herjólfsnes er lengst úti á skaga sem gengur beint út í Atlantshafið um 55 km norðaustur af Hvarfi. Rústir norrænu byggðarinnar liggja á háum bakka rétt ofan við fjöruna og eina varið fyrir stormum af hafi er það sem myndast af nokkrum smáeyjum og skerjum. Andstætt meginbyggðinni í Eystribyggð einkennist landslagið í kringum Hvarf og Herjólfsnes af háum og snarbröttum fjöllum. Kringum bæjarstæðið er takmarkað undirlendi og fjallgarðurinn að baki nær 1200 metra hæð. Sjórinn étur sig stöðugt inn í landið framan við bæjarstæðið. Á aðeins um 80 árum, 1840 til 1921, braut sjórinn sig inn um 12 metra í átt að kirkjurústunum.

Ritaðar heimildir

[breyta | breyta frumkóða]

Herjólfsnes á Grænlandi kemur fyrir á mörgum stöðum í elstu ritum Íslendinga.

Í Sturlubók Landnámu er Herjólfur Bárðarson, frændi Ingólfs landnámamanns, sagður nema Herjólfsfjörð og hafa búið á Herjólfsnesi þegar Eiríkur rauði byggði landið. Herjólfur kom frá Noregi og gerðist fyrst landnámsmaður á Íslandi áður en hann hélt til Grænlands.

Í Grænlendinga sögu er sagt frá því að Herjólfur og kona hans Þorgerður, hafi, áður en þau fluttust til Grænlands, eignast efnilegan son sem nefndur var Bjarni. Bjarna fýsti utan þegar á unga aldri eins og þar segir og dvaldi í Noregi þegar foreldrar hans fluttu til Grænlands. Þegar hann kom til Íslands og frétti að þau væru flutt ákvað hann að fylgja þeim eftir og sigldi vestur á bóginn. Hann villtist þó í hafi og kom að landi sem var „ófjöllótt og skógi vaxið“. Bjarna leist þó ekki á það og tókst að lokum að finna Grænland og settist að á Herjólfsnesi hjá foreldrum sínum.

Í Eiríks sögu rauða er annar ábúandi Herjólfsness tilnefndur. Þar segir að Þorbjörn Vífilsson hafi tekið sig upp með þremur tugum manna og sigldi í átt til Grænlands og hugðist setjast þar að. Sóttist ferðin illa "og fengu þeir vos mikið og vesöld á marga vegu" en komust loks í land á Herjólfsnesi. Samkvæmt Eiríks sögu rauða bjó þar þá maður Þorkell að nafni.

Ívar Bárðarson byrjar lýsingu sýna á Eystribyggð á Herjólfsnesi. Hann nefnir hins vegar hvorki kirkju né bæ á Herjólfsnesi en í listanum yfir grænlenskar kirkjur í Flateyjarbók er kirkjan í Herjólfsfirði sögð austast í Eystribyggð. Í sama handriti og geymir frásögn Ívars er lýsing á siglingaleiðum frá Noregi og Íslandi til Grænlands og er þar Sandhöfn á Herjólfsnesi nefnd sem höfn Norðmanna og annarra kaupmanna. Þegar Evrópumenn hófu að leita norrænna byggða á 18. öld var gengið út frá því sem vísu að Herjólfsnes hefði verið á svæðinu við Hvarf. Það var ekki fyrr en legsteinn fannst í inúíta-húsi í Ikigaat 1829, sem athyglin beindist að þeim stað sem nú er almennt álitinn hafa verið Herjólfsnes. Enn er deilt um hvar Sandhöfn hafi verið. Hafa líkur verið leiddar að því að hún hafi verið í vík þeirri sem nefnd er Makkarneq skammt vestan við Ikigaat. Þar hafa fundist rústir af nokkrum bæjum og einnig þrjú hlaðin steinhús. Þrátt fyrir nokkra leiðangra fornleifafræðinga hefur þó ekkert fundist þar sem bendir til að þar hafi verið verslunarstaður og stórhöfn.

Herjólfsnes er einn af þeim bæjum Grænlendinga hinna fornu sem hefur verið hvað mest rannsakaður. Það sem fyrst beindi athygli að þessum stað sem hinum forna bæ var fundur legsteins í bæjarstæði inúíta á staðnum. Það voru trúboðar herrnhúttera frá Fredriksdal sem fundu legstein,114 cm langan og um 48 cm breiðan. Í hann var höggvinn kross og áletrunin: HER HUILER: HRO KOLGRIMS:S (Hér hvílir Hróar Kolgrímsson) með latnesku letri. Skömmu seinna fannst kirkjugarðurinn sem eyðist mjög af sjávargangi. Það var þó ekki fyrr en 1921 sem danskir fornleifafræðingar gerðu gagngera rannsókn á kirkjugarðinum en í millitíðinni höfðu ýmsir misfærir verið að róta í legstöðunum. Samtímis rannsóknunum á kirkjugarðinum gerðu fornleifafræðingarnir úttekt á rústum á svæðinu.

Hinir látnu höfðu verið grafnir í timburkistum sem greinilega höfðu margar hverjar verið endurnýttar en þeir voru einnig búnir ýmsum klæðum. Þau voru einstaklega vel varðveitt og voru 23 alklæðnaðir karla og kvenna auk þriggja barna fluttir á Þjóðminjasafnið í Kaupmannahöfn. Þar að auki 16 hettur, fjórir hattar og nokkrir sokkar. C-14 aldursgreiningar sýna að yngstu grafirnar eru frá fyrri hluta 15. aldar. Öll þessi klæði voru unnin á Grænlandi en snið þeirra sýnir að Grænlendingar fylgdust vel með tískubreytingum í Evrópu. Auk þessara plagga var fjöldi beina fluttur til Danmerkur. Samtíma rannsóknir þóttu sýna að heilsufari norrænna manna hafi mjög farið aftur undir lok dvalar þeirra á Grænlandi. Seinni tíma rannsóknir sýna hins vegar að enginn fótur er fyrir því, beinin fóru einfaldlega svona illa í flutningi frá Grænlandi til Danmerkur og gáfu þess vegna rangar niðurstöður. Ítarlegar rannsóknir og uppgröftur fóru fram á árunum 2001 - 2002 og gáfu talsvert aðra mynd en eldri rannsóknir.

Kirkjan var með stærri kirkjum á Grænlandi, að innanmáli 14,5 metra löng og 6,5 metra breið. Tvær grafir hafa fundist í kirkjunni sjálfri og hefur önnur þeirra vakið undrun meðal fornleifafræðinga. Undir höfðalagi hins látna fannst lítill kistill gerður úr hvalbeini og með botn úr furu, allar líkur eru á að kistillinn hafi verið fylltur af mat. Að senda skrínukost með hinum látna er annars ekki kristinn siður. Þessi fundur og fundur rostunga- og náhvalahöfuðkúpna í kirkjugarðinum á Görðum benda til að Grænlendingar hafi verið farnir að móta sína eigin útfararsiði.

Auk bæjarhúsa og skemmu hefur fannst stórt hús sem að öllum líkindum hefur verið veislusalur og er hann um 60 m² stór og þar með einn af þeim stærri sem fundist hafa á Grænlandi. Ekkert fjós hefur fundist svo öruggt sé og er það mjög óvenjulegt á grænlenskum bæjum því oft voru mjög margar kýr á stórbýlunum.

Sennilega hefur verið harðbýlt á Herjólfsnesi, íslenskir búfræðingar hafa reiknað út að jörðin gæti nú borið um 50 kindur en kannski eitthvað fleiri á veðursælasta tíma norrænnar byggðar. Sagnfræðingar giska þess vegna á að aðalhlutverk Herjólfsness hafi verið að taka á móti sæförum og vera síðasti áfangastaður áður en lagt var upp í siglingu til Íslands eða meginlands Evrópu. Einnig hafa Herjólfsnes og Sandhöfn legið vel við sem útstöð fyrir veiðiferðir norður eftir austurströndinni.