Fara í innihald

Kingittorsuaq steinninn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Kinggittorsuaq steinninn er rúnasteinn sem fannst árið 1823 á eyjunni Kingittorsuaq norðvestur af Upernavik (nákvæm staðsetning er 72°51′N 55°29′V). Rúnasteinninn lá í vörðu og er lítill leirsteinn um 11,2 cm á lengd.

Rúnaskriftina má umrita sem:

el=likr * sikuaþs : so=n:r * ok * baan=ne : torta=r son :
ok enriþi * os son : laukardak*in : fyrir * gakndag
hloþu * ua=rda te * ok rydu : ??????
Ljósmynd af Kingittorsuaq rúnasteininum

Sem mundi þýða með latneskum bókstöfum:

Erlingr Sighvats sonr ok Bjarni Þórðar sonr ok Eindriði Odds sonr laugardagin fyrir gagndag hlóðu varða þe[ssa] ok ... ....

Síðan fylgja nokkrar rúnir sem ekki er hægt að þýða og gætu verið töfrarúnir.

Á nútímaíslensku mundi það verða:

Erlingur Sighvatsson og Bjarni Þórðarson og Indriði Oddsson hlóðu vörðu þessa laugardaginn fyrir gangdag

Ekki er auðvelt að tímasetja þennan rúnastein en samkvæmt rúnasérfræðingum hefur hann sennilega verið gerður í lok 13. aldar.

Gangdagur var í kaþólskum sið upphaflega haldinn heilagur 25. apríl. Hið latneska heiti dagsins var og er: Rogate (Biðjið). En frá 9. öld var hann bundinn við fimmta sunnudag eftir páska. Nafn sunnudagsins Rogate tengist hinum gamla sið að ganga bænagöngu um akrana eða umhverfis þá og biðja fyrir góðri uppskeru. Gangan hófst sunnudaginn og hélt áfram næstu þrjá daga. Í þýðingum var tekið mið af göngunni en ekki bæninni og er því kallaðir gangdagar í íslenskum textum, en dies rogationes ("dagar fyrirspurna" eða "bænadagur") á latínu. Þegar gangdagar enda kemur uppstigningardagur.

Annað hvort hafa þeir Erlingur, Bjarni og Indriði verið snemma á ferð í Norðursetu eða þá að þeir hafa haft þar vetursetu. Ef þeir hafa komið frá Eystribyggð hafa þeir ferðast um 1600 km, eða um það bil jafn langt og siglingaleiðin frá Reykjavík til Stavangurs í Noregi og landleiðin frá Kaupmannahöfn til Napólí á Ítalíu.