Póseidóníos
Vestræn heimspeki Fornaldarheimspeki | |
---|---|
Nafn: | Póseidóníos |
Fæddur: | um 135 f.Kr. |
Látinn: | 51 f.Kr. |
Skóli/hefð: | Stóuspeki |
Helstu viðfangsefni: | Siðfræði, rökfræði, hugspeki, landafræði, veðurfræði, stjörnufræði, mannfræði, sagnfræði, grasafræði |
Áhrifavaldar: | Krýsippos, Panætíos, Platon |
Hafði áhrif á: | Cicero |
Póseidóníos (forngríska: Ποσειδώνιος) frá Ródos (ο Ρόδιος) eða frá Apameu" (ο Απαμεύς) (um 135 - 51 f.Kr.) var grískur heimspekingur, stóuspekingur, stjórnmálamaður, stjörnufræðingur, landafræðingur, sagnfræðingur og kennari. Hann var talinn lærðasti maður síns tíma. Ekkert verka hans er varðveitt í heild sinni.
Ævi
[breyta | breyta frumkóða]Póseidóníos, sem fékk viðurnefnið „íþróttamaðurinn“, fæddist grískum foreldrum í rómversku borginni Apameu í norðurhluta Sýrlands, við ána Orontes. Hann lést að öllum líkindum í Róm eða á Ródos.
Póseidóníos lauk æðri menntun sinni í Aþenu, þar sem hann var nemandi Panætíosar, helsta heimspekings stóíska skólans.
Um árið 95 f.Kr. settist hann að á Ródos, þar sem mikil gróska var í vísindalegum rannsóknum.
Stjórnmál
[breyta | breyta frumkóða]Á Ródos tók Póseidóníos þátt í stjórnmálum og gegndi hann ýmsum mikilvægum embættum þar. Hann varð m.a. „prýtanis“ (forseti kosinn til sex mánaða í senn) Ródos. Hann var í sendinefnd, sem fór til Rómar árið 87 - 86 f.Kr..
Líkt og margir grískir menntamenn taldi Póseidóníos að Rómaveldi gæti komið á jafnvægi í milliríkjasamskiptum. Tengsl hans við rómverska yfirstétt voru honum ekki einungis mikilvæg sem stjórnmálamanni, heldur komu þau sér einnig vel fyrir hann sem vísindamann. Þau gerðu honum m.a. kleift að ferðast í vestur yfir á yfirráðasvæði Rómverja sem hefði annars verið ómögulegt grískum ferðamanni.
Ferðalög
[breyta | breyta frumkóða]Þegar Póseidóníos hafði komið sér fyrir á Ródos fór hann í vísindaleiðangra um Rómaveldi og jafnvel út fyrir yfirráðasvæði Rómar a.m.k. einu sinni en ef til vill oftar. Hann ferðaðist um Grikkland, Spán, Afríku, Ítalíu, Sikiley, Dalmatíu, Gallíu, Lígúríu, Norður-Afríku og um austanvert Adríahaf.
Í Gallíu rannsakaði Póseidóníos Kelta. Hann skrifaði um upplifun sína af því að búa með þeim: um menn sem fengu greitt fyrir að láta skera sig á háls almenningi til skemmtunar og höfuðkúpur sem voru negldar á dyr. Hann veitti því athygli að Keltar héldu í heiðri drúída, sem Póseidóníos taldi vera heimspekinga, og ályktaði að jafnvel meðal barbara „létu stolt og ástríða undan fyrir viskunni og að Ares dáist að Menntagyðjunum“. Póseidóníos ritaði landafræðilega lýsingu á löndum Kelta, sem hefur ekki varðveist en talið er að hafi verið ein þeirra heimilda sem Tacitus studdist við er hann ritaði Germaníu.
Skóli
[breyta | breyta frumkóða]Póseidóníos öðlaðist virðingu og kennivald sem fræðimaður vegna ritverka sinna og fyrirlestra og hann varð frægur maður bæði í Grikklandi og í Rómaveldi. Skóli varð til í kringum hann á Ródos. Dóttursonur hans, Jason, fylgdi honum um hvert fótmál og hélt skóla Póseidóníosar gangandi á Ródos. Lítið er vitað um skipulag skólans en ljóst er að til hans streymdu nemendur jafnt grískir sem rómverskir.
Varðveitt rit
[breyta | breyta frumkóða]Póseidóníos var þekktur úti um hinn grísk-rómverska heim sem fjölfræðingur vegna þess að hann var lærður í nær öllum greinum vísinda síns tíma, ekki ósvipað Aristótelesi og Eratosþenesi. Hann reyndi að setja fram heildstætt kerfi mannlegrar þekkingar, sem átti að útskýra og leiðbeina um mannlega hegðun.
Póseidóníos skrifaði um náttúruspeki (þ.m.t. veðurfræði og landafræði), stjörnufræði, stjörnuspeki og spádóma, jarðskjálftafræði, jarðfræði og steinefnafræði, vatnafræði, grasafræði, siðfræði, rökfræði, stærðfræði, sagnfræði, mannfræði og hervísindi. Rannsóknir hans voru umfangsmiklar.
Engin rita hans eru varðveitt í heild sinni. Aftur á móti hafa fundist brot úr ritum hans og auk þeirra eru þekktir titlar á bókum hans og helstu viðfangsefni þeirra.
Heimspeki
[breyta | breyta frumkóða]Póseidóníos leit svo á að heimspekin væri æðst vísindanna og allar aðrar greinar vísinda væru undir hana settar, hún ein gæti útskýrt heiminn. Öll verk hans, allt frá náttúruvísindum til sagnfræðilegra verka, voru í eðli sínu heimspekileg.
Hann féllst á hina hefðbundnu stóísku þrískiptingu heimspekinnar í náttúruspeki (þ.m.t. eðlisfræði, frumspeki og guðfræði), rökfræði (þ.m.t. þekkingarfræði) og siðfræði. Að hætti stóumanna taldi hann að þessir þrír flokkar væru óaðskiljanlegir og tengdir hver öðrum, sem einskonar náttúruleg og lífræn heild. Hann líkti þeim við lífveru, þar sem náttúruspekin var holdið, rökfræðin var stoðkerfið, sem heldur lífverunni saman, og siðfræðin – mikilvægasti hlutinn – var sálin. Hann taldi að alheimurinn væri eins tengdur, líkt og hnn væri sjálfur lífvera, með „kosmískri hluttekningu“.
Þótt hann væri staðfastur stóumaður var Póseidóníos, eins og Panætíos og aðrir stóumenn hans tíma, undir áhrifum frá ýmsum öðrum heimspekistefnum. Hann fylgdi ekki aðeins eldri stóumönnum að málum, heldur einnig Platoni og Aristótelesi. Talið er að ef til vill hafi Póseidóníos samið skýringarrit við samræðuna Tímajos eftir Platon en það er óvíst.
Hann var fyrsti stóuspekingurinn sem hvarf frá þeirri skoðun að ástríðurnar væru dómar byggðir ávillum og hélt í staðinn fram kenningu Platons um að ástríðurnar tilheyrðu mannlegu eðli. Póseidóníos kenndi að mannssálin hefði auk skynseminnar skap (reiði, valdaþrá, o.s.frv.) og löngun (þrá eftir kynlífi og mat). Siðfræðin fjallaði að hans mati um hvernig ætti að fást við ástríðurnar og gera skynsemina að stýrandi afli sálarinnar.
Póseidóníos hélt fram stóísku kenningunni um alheimsskynsemina, logos, sem varð á endanum hluti kristinnar kenningar (sbr. upphaf Jóhannesarguðspjalls: „Í upphafi var orðið (logos) og orðið var hjá guði og orðið var guð“). Póseidóníos hélt einnig fram stóísku kenningunni um endalok alheimsins í eldi.
Náttúruspeki
[breyta | breyta frumkóða]Í náttúruspeki hélt Póseidóníos fram stóísku kenningunni um „kosmíska hluttekningu“, lífræn innri tengsl alls sem gerist í heiminum, milli himins og jarðar, sem væru hluti af vitrænni hönnun, sem sameinaði menn og alla hluti aðra í heiminum, jafnvel þá sem væru aðskildir í tíma og rúmi. Panætíos, kennari hans, hafði dregið í efa spádómsgáfu en Póseidóníos notaði kenninguna um kosmíska hluttekningu til að styðja trú sína á spádóma - hvort sem er með hjálp stjörnuspekinnar eða í gegnum draumspá - sem eins konar vísindalega forspá.
Stjörnufræði
[breyta | breyta frumkóða]Nokkur brot úr ritum Póseidóníosar um stjörnufræði eru varðveitt í ritgerðeftir Kleómedes, Um hringhreyfingu himintunglanna en fyrsti kafli annarrar bókar virðist hafa verið meira eða minna tekinn upp úr riti eftir Póseidóníos.
Póseidóníos setti fram þá kenningu að sólin gæfi frá sér lífsnauðsynlegan kraft, sem gegnsýrði heiminn.
Hann gerði tilraun til þess að mæla fjarlægð og stærð sólarinnar. Um árið 90 f.Kr. komst Póseidóníos að þeirri niðurstöðu að stjarnfræðieiningin væri a0/rE = 9893, sem er alltof lítið. Niðurstöður mælinga hans á stærð sólarinnar voru hins vegar mun nákvæmari en niðurstöður annarra grískra stjörnufræðinga, m.a. Aristarkosar frá Samos, og gáfu til kynna að hún væri mun stærri en þeir höfðu ætlað.
Póseidóníos reiknaði einnig út stærð og fjarlægð Tunglsins.
Póseidóníos smíðaði sólkerfishermi, ef til vill ekki ósvipaðan Antikyþera klukku. Samkvæmt Cíceró sýndi sólkerfishermir Póseidóníosar daglega hreyfingu sólar, tungls og fimm annarra reikistjarna.
Stærðfræði
[breyta | breyta frumkóða]Auk rita sinna um rúmfræði er Póseidóníosi eignaður heiðurinn af því að hafa lagt fram stærðfræðilegar skilgreiningar og fyrir að hafa fjallað um tækniheiti á borð við „setningu“ og „þraut“.
Veðurfræði
[breyta | breyta frumkóða]Í ritum sínum um veðurfræði studdist Póseidóníos við Aristóteles. Hann setti fram kenningar um orsakir skýjamyndunar, þoku, vinds, rigningar, frosts, haglélja, eldinga og regnboga.
Landafræði, þjóðháttafræði og jarðfræði
[breyta | breyta frumkóða]Póseidóníos hafði orðið frægur utan heimspekinnar a.m.k. á áttunda áratug 1. aldar f.Kr. í kjölfar útgáfu á verkinu Um hafið og nálæg svæði. Þetta rit var ekki einungis almenn kynning á landafræði samkvæmt vísindalegri þekkingu þess tíma, heldur jók það einnig á vinsælar kenninga hans um innra tengslanet heimsins, með því að sýna hvernig ólík öfl verkuðu hvert á annað og hvernig innri tengsl heimsins vörðuðu einnig mannlegt líf, jafnt í stjórnmálum sem einkalífi. Í ritinu fjallaði Póseidóníos meðal annars um kenningu sína um áhrif veðurfars á skapgerð manna, sem fól í sér „landafræði kynþáttanna“. Þessi kenning var ekki einvörðungu vísindaleg, heldur hafði hún einnig pólitíska hlið -- rómverskir lesendur voru upplýstir um að veðurfræðileg áhrif staðsetningar Ítalíu væri nauðsynlegt skilyrði örlaga þeirra að ríkja yfir heiminum. Sem stóumaður gerði Póseidóníos hins vegar ekki greinarmun á siðmenntuðum Rómverjum sem herrum heimsins og „frumstæðara“ fólki.
Póseidóníos mældi ummál jarðar út frá stöðu stjörnunnar Canopus. Kleómedes greinir frá því að Póseidóníos hafi stuðst við hæð Canopus á himni til að áætla muninn á legu Ródosar og Alexandríu. Vegna villu í athugunum hans komst hann að þeirri niðurstöðu að ummál jarðar væri 240.000 stadíur eða um þriðjungi minni raunverulegt ummál jarðar.[1] Geymt 29 mars 2012 í Wayback Machine.
Líkt og Pýþeas taldi hann tunglið ráða sjávarföllum. Póseidóníos hafði hins vegar á röngu að standa um orsökina. Hann hélt tunglið vera blöndu af lofti og eldi og ályktaði að varmi frá tunglinu væri orsök sjávarfallanna, vegna þess að hitinn væri nægur til að valda útþenslu vatns en ekki nægur til að valda uppgufun.
Hann skrifaði niður athugasemdir um jarðskjálfta og eldfjöll, þ.á m. greinargerð um eldgos á æólísku eyjunum norðan Sikileyjar.
Sagnfræði og hernaðarvísindi
[breyta | breyta frumkóða]Í sagnfræðiritum sínum tók Póseidóníos upp þráðinn þar sem Pólýbíos hafði hætt. Hann mun hafa ritað um sögu tímabilsins frá 146 - 88 f.Kr. í 52 bindum. Þar heldur hann áfram greinargerðinni, sem Pólýbíos hóf, um ris og útþenslu Rómaveldis, sem hann virðist hafa stutt. Póseidóníos tók sér ekki til fyrirmyndar hlutlausari stíl Pólýbíosar. Hann leit svo á að atburðir, sem gerðust af mannavöldum, ættu sér sálfræðilegar skýringar; hann hafði skilning á mannlegum ástríðum og mannlegri heimsku en afsakaði þær ekki í sagnfræðilegum erkum sínum og notaði frásagnarlist sína til þess að hafa áhrif á viðhorf lesenda.
Póseidóníos taldi „söguna“ ná frá jörðu til himins; mannkyn var ekki einangrað, hver þjóð með eigin stjórnmálasögu, heldur var mannkynið allt hluti af alheiminum, kosmos. Sagnfræðileg verk hans snerust því ekki um stjórnmálasögu þjóða eða einstaklinga í einangrun, heldur fjallaði hann um öll öfl og alla þætti mannlegrar hegðunar, sem tengjast umhverfi þeirra (landafræðilega þætti, veðurfar, náttúruauðlindir, næringu). Til dæmis tók Póseidóníos til greina veðurfar í Arabíu, áhrif sólarinnar, sjávarföllin og veðurfar til að útskýra þjóðareinkenni fólks þar.
Rómverski sagnaritarinn Arríanus kvartaði yfir því að rit Póseidóníosar um hernað, Hernaðarlistin, væri samið „fyrir sérfræðinga“, sem gefur til kynna að Póseidóníos hafi ef til vill sjálfur haft reynslu af hernaði eða hafi ef til vill nýtt sér þá þekkingu sem hann hafði frá Pompeiusi, kunningja sínum.
Orðspor og áhrif
[breyta | breyta frumkóða]Póseidóníos varð í lifanda lífi víðfrægur fyrir rit sín um nær öll helstu svið heimspekinnar um allan hinn grísk-rómverska heim og fornir höfundar vitnuðu oft í verk hans þ.á m. Cíceró, Lívíus, Plútarkos, Strabó (sem kallaði Póseidóníos „lærðasta mann meðal heimspekinga fyrr og síðar“), Kleómedes, Seneca yngri, Díódóros Sikúlos (sem studdist við verk Póseidóníosar sem heimild í ritinu Bibliotheca historia (Sögulegt bókasafn) auk margra annarra. Þótt skrúðlegur og mlskufræðilegur ritstíll hans hafi fallið úr tísku skömmu eftir andlát hans var Póseidóníos lofaður hástert í lifanda lífi fyrir stíl sinn.
Póseidóníos virðist hafa átt góð samskipti við yfirstéttir Rómar sem sendiherra frá Ródos. Hann átti vingott við marga stjórnmálamenn í fremstu röð seint á lýðveldistíma Rómar, þ.á m. Cíceró og Pompeius og báðir heimsóttu hann til Ródos. Cíceró sótti fyrirlestra hjá honum sem ungur maður (77 f.Kr.) og þeir skrifuðust síðar á. Í ritinu Um endimörk góðs og ills (De Finibus Bonorum et Malorum) fylgir Cíceró náið eftir endursögn Póseidóníosar á siðfræði Panætíosar. Póseidóníos kynntist Pompeiusi þegar Pompeius var sendiherra Rómar á Ródos og Pompeius virðist hafa heimsótt Póseidóníos tvisvar, fyrst árið 66 f.Kr., þegar hann átti í átökum við sjóræningja, og svo aftur árið 62 f.Kr., þegar hann var í hernaði í austri og bað þá Póseidóníos um að rita ævisögu sína. Til að sýna Póseidóníosi virðingu hélt Pompeius niðri vendi sínum (fasces) frammi fyrir dyrum Póseidóníosar. Velleius, Cotta og Lucilius aðrir Rómverjar sem sóttu Póseidóníos heim.
Ptolemajos hreifst af fágun vísindalegra aðferða Póseidóníosar. Hann kaus að halda fram niðurstöðum Póseidóníosar fremur en eldri og réttari niðurstöðum Eratosþenesar, sem leiddi m.a. til þess að næstu 1500 árin var niðurstaða Póseidóníosar um ummál jarðar talin vera rétt.
Póseidóníos renndi stoðum undir stóuspekina með vísindum síns tíma. Hann gerði næstmest, á eftir kennara sínum Panætíosi, til þess að breiða stóuspeki út um hinn rómverska heim, bæði í ræðu og riti. Öld síðar sagði Seneca að Póseidóníos hefði verið sá sem mest hefði haft fram að færa til heimspekinnar.
Áhrif hans á heimspekina vöruðu til fram á miðaldir, líkt og sjá má af færslum í Suda, hinu stóra alfræðiriti frá miðöldum.
Eitt sinn töldu fræðimenn sig greina áhrif Póseidóníosar í skrifum nær allra höfunda, hvort sem þaðátti við rök að styjast eður ei. Í dag virðist Póseidóníos vera viðurkenndur sem afar fjölhæfur heimspekingur og vísindamaður, ekki að öllu leyti frumlegur hugsuður en hann hafði ákveðna breidd, sem í samræmi við stóísku kenninguna sem hann hélt fram, tengdi alla hluti og orsakir þeirra og alla þekkingu í eina heild.
Póseidóníos gýgurinn á tunglinu er nefndur eftir honum.
Heimild
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Posidonius“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 8. apríl 2006.
Frekari fróðleikur
[breyta | breyta frumkóða]- Algra, K., Barnes, J., Mansfeld, J. og Schofield, M. (ritstj.), The Cambridge History of Hellenistic Philosophy (Cambridge: Cambridge University Press, 2005). ISBN 0-521-61670-0
- Inwood, Brad og Gerson, Lloyd P. (ritstj.), Hellenistic Philosophy: Introductory Readings (Indianapolis: Hackett, 2. útg. 1998). ISBN 0-87220-378-6
- Inwwod, Brad, The Cambridge Companion to the Stoics (Cambridge: Cambridge University Press, 2003). ISBN 0-521-77985-5
- Long, A.A., Hellenistic Philosophy: Stoics, Epicureans, Sceptics (Los Angeles: University of California Press, 1986). ISBN 0-520-05808-9
- Long, A.A., Stoic Studies (Los Angeles: University of California Press, 2001). ISBN 0-520-22974-6
- Long, A.A. og Sedley, David (ritstj.), The Hellenistic Philosophers 2 bindi (Cambridge: Cambridge University Press, 1987). ISBN 0-521-27556-3