Fara í innihald

Hugleiðingar (Markús Árelíus)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Hugleiðingar (forngríska: Τὰ εἰς ἑαυτόν, Ta eis heauton (orðrétt Skrif til sjálfs mín) en víðast þekkt undir latneska titlinum Meditationes) er rit eftir rómverska keisarann og heimspekinginn Markús Árelíus. Í ritinu er að finna ýmsar hugleiðingar Markúsar um stóíska heimspeki. Ritið var samið á grísku.

Markús Árelíus samdi Hugleiðingarnar í tólf bókum. Að öllum líkindum var stór hluti verksins saminn í Sirmium (í núverandi Serbíu) þar sem keisarinn varði miklum tíma í gerð hernaðaráætlanna frá 170 til 180. Óvíst er að Markús hafi ætlað sér að gefa ritið út.

Viðtökur og áhrif[breyta | breyta frumkóða]

Markús Árelíus hefur stundum verið lofaður fyrir að skrifa nákvæmlega það sem hann meinar. Gilbert Murray hefur líkt honum við Rousseau og Ágústínus frá Hippó. Enda þótt Murray gagnrýni Markús fyrir „stirðan og fábrotinn stíl“ telur hann að Hugleiðingarnar séu „eins tilfinningaþrungnar ... og flestar nútímabækur um trú en undir stjórn agaðri penna“. Hann segir að „fólk [skilji] ekki Markús, ekki vegna þess að hann tjái sig illa heldur af því að flestum reynist erfitt að anda í slíkum hæðum andans eða í það minnsta anda eðlilega“.[1]

D.A. Rees lýsir hugleiðingunum sem „óendanlegum innblæstri“ en telur þær ekki vera frumlegt rit um heimspeki.[2] Bertrand Russell fannst Hugleiðingarnar mótsagnakenndar og bera vott um „þreytta elli“ höfundar. Hann tók Markús sem dæmi um stóískan heimspeking almennt og komst að þeirri niðurstöðu að stóísk siðfræði hefði sín „súru ber“. „Við getum ekki verið hamingjusöm en við getum verið góð; við skulum þess vegna láta sem það skipti ekki máli hvort við erum hamingjusöm svo lengi sem við erum góð“.[3] Russell og Rees telja sig báðir sjá áhrif Markúsar í ritum þýska heimspekingsins Immanuels Kant.[4][5]

Þýðing Gregorys Hays á Hugleiðingunum fyrir The Modern Library komst á metsölulista og var þar í tvær vikur árið 2002.[6]

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Gilbert Murray, Five Stages of Greek Religion 3ja útg. (2002): 168-9.
  2. D.A. Rees, „Introduction“ í A.S.L. Farquhrson, Meditations (1992): xvii.
  3. Bertrand Russell, History of Western Philosophy (1946): 248-56
  4. Bertrand Russell, History of Western Philosophy (1946): 254-5
  5. D.A. Rees, „Introduction“ í A.S.L. Farquhrson, Meditations (1992): xvii.
  6. Metsölulisti The Washington Post 9. júní 2002.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

  • Meditations á Project Gutenberg (ensk þýðing á ritinu)