Fara í innihald

Lucius Annaeus Seneca

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Seneca yngri)
Vestræn heimspeki
Fornaldarheimspeki
Lucius Annaeus Seneca
Nafn: Lucius Annaeus Seneca
Fæddur: 4 f.Kr.
Látinn: 65
Skóli/hefð: Stóuspeki
Helstu ritverk: Bréf um siðfræði til Luciliusar; Um reiðina, Um hugarró
Helstu viðfangsefni: Siðfræði
Áhrifavaldar: Zenon frá Kítíon, Krýsippos

Lucius Annaeus Seneca (stundum nefndur Seneca yngri eða bara Seneca) (um 4 f.Kr.65 e.Kr.) var rómverskur heimspekingur, stjórnmálamaður og rithöfundur á skeiði síðklassískrar latínu.

Seneca fæddist í Córdoba á Spáni. Hann var annar sonur Helviu og Marcusar (Luciusar) Annaeusar Senecu (Senecu eldri), sem var auðugur mælskufræðingur. Eldri bróðir Senecu, Gallio, varð landstjóri í Grikklandi (þar sem hann hitti Pál postula um árið 52). Seneca var frændi skáldsins Lucanusar, sem var sonur yngri bróður Senecu, Annaeusar Mela.

Sagan hermir að Seneca hafi verið heilsuveill í æsku og hann hafi verið sendur til Rómar í nám. Hann hlaut þjálfun í mælskufræði og kynntist stóuspeki hjá Attalosi og Sotioni. Vegna veikinda sinna dvaldi Seneca í Egyptalandi árið 25-31 og hlaut meðferð þar.

Þegar hann sneri aftur hóf hann feril sem lögmaður og náði nokkrum árangri. Um árið 37 var hann næstum því drepinn vegna deilu við keisarann Caligula, sem hlífði honum einungis vegna þess að hann taldi að hinn veiklulegi Seneca yrði ekki langlífur hvort sem er. Árið 41 sannfærsði Messalina, eiginkona Claudiusar keisara, mann sinn um að senda Senecu í útlegð til Korsíku vegna framhjáhalds við Juliu Livillu. Í útlegðinni fékkst hann við heimspeki, náttúrufræði og skriftir.

Árið 49 lét fjórða eiginkona Claudiusar, Agrippina yngri, kalla Senecu aftur heim til Rómar til þess að kenna syni hennar, Luciusi Domitiusi, sem seinna varð Neró keisari. Þegar Claudius lést árið 54 tryggði Agrippina að Neró yrði hylltur sem keisari í stað sonar Claudiusar, Britannicusar.

Fyrstu fimm árin, quinquennium Neronis, stjórnaði Neró vel og var undir áhrifum frá Senecu og Sextusar Afraniusar Burrusar. En áður en langt um leið höfðu Seneca og Burrus glatað áhrifum sínum á Neró og stjórn hans varð gerræðislegri. Þegar Burrus lést árið 62 settist Seneca í helgan stein og varði tíma sínum æ meira í fræðimennsku og skriftir.

Árið 65 var Seneca sakaður um að eiga aðild að samsæri um að ráða Neró af dögum, pisoníska samsærinu. Engin réttarhöld voru haldin en Neró fyrirskipaði Senecu að svipta sig lífi. Sagnaritarinn Tacitus gerir grein fyrir sjálfsmorði Senecu. Þegar Seneca var látinn ætlaði eiginkona hans, Pompeia Paulina, að svipta sig lífi einnig en Neró dæmdi hana til lífs og neyddi hana til þess að lifa.

Meðal ritverka sem Senecu eru eignuð eru satíra, ritgerð um veðurfræði, fjöldi heimspekilegra ritgerða og bóka, 124 bréf (bókmenntaform ekki sendibréf) um siðfræðileg efni og níu harmleikir. Einn af harmleikjunum sem honum eru eignaðir, Octavia, er greinilega ekki réttilega eignaður honum. Honum bregður þó fyrir í leikritinu. Deilt er um það hvort hann hafi verið höfundur annars harmleikanna, Hercules. Í heimspeki var Seneca stóumaður. Hann lagði áherslu á hagnýtingu spekinnar svo að hún gagnaðist lesandanum í lífinu. Hann taldi einkum og sér í lagi mikilvægt að maður horfðist í augu við eigin dauðleika. Mörg bréfanna fjalla um hvernig maður skyldi nálgast dauðann.

Harmleikir Senecu

[breyta | breyta frumkóða]

Ómögulegt er að segja hvort harmleikirnir voru einhvern tímann uppfærðir eða ekki: engar vísbendingar benda til þess né heldur mælir nokkuð gegn því. þýski fræðimaðurinn Leo komst að þeirri niðurstöðu að harmleikir Senecu væru lestrarleikrit, þ.e. leikrit einkum ætluð til lestur. Leikritin hafa þó verið sett á svið í nútímanum.

Erfitt er að ákvarða hvenær harmleikirnir voru samdir enda er hvergi vísað til þeirra í öðrum rituðum heimildum frá fornöld. Lögð hefur verið til afstæð tímaröð leikritanna á bragfræðilegum grundvelli en fræðimenn eru enn ekki á einu máli um það. Óhugsandi er að þeir hafi allir verið ritaðir sama árið. Harmleikir Senecu eru ekki byggðir beint á grískum harmleikjum og þótt áhrifa Evripídesar gæti sumstaðar eru megin áhrifin eigi að síður frá Óvidíusi.

Leikrit Senecu voru mikið lesin í evrópskum háskólum á miðöldum og höfðu því mikil áhrif á leikritun á endurreisnartímanum, einkum á enskar bókmenntir.

Ekki er fullvíst um öll ártöl

Önnur ritverk

[breyta | breyta frumkóða]

Seneca húmanisti

[breyta | breyta frumkóða]

Ýmsir höfundar á miðöldum töldu að Senecu hefði verið snúið til kristinnar trúar af Páli postula og sumir húmanistar litu á baðið þar sem hann svipti sig lífi sem eins konar dulda skírn.

Dante Alighieri hafði Senecu eigi að síður í helvíti í Gleðileiknum guðdómlega.

  • „Hvað er til af efni um og eftir heimspekinginn Senecu sem var kennari og ráðgjafi Nerós Rómakeisara?“. Vísindavefurinn.
  • „Hvað þýðir spakmæli Seneca: Cui prodest scelus, is fecit?“. Vísindavefurinn.