Á tímum elleftu konungsættarinnar var höfuðborg ríkisins í Þebu, en þegar tólfta konungsættin tók við flutti hún höfuðborgina til El-Lisht í Neðra-Egyptalandi, sem að vissu leyti var afturhvarf til Memfis sem er þar rétt norðan við. Höfuðguðinn á þessum tíma var hinn herskái fálki Montjú sem tilbeðinn var í Armant og Þebu, fremur en Amon.
Helstu konunganöfn á þessu tímabili voru Senúsret og Amenemhat. Á þessum tíma reisti Senúsret 1. af tólftu konungsættinni borgina Karnak. Talsverð velmegun ríkti og pýramídar voru áfram notaðir sem grafhýsi konunga. Á þessum tíma sendu Egyptar marga könnunarleiðangra og sendimenn til annarra ríkja í Mið-Austurlöndum.