Óstöðugleikinn varð til þess að konungar Núbíu gátu aukið vald sitt til norðurs og Píje af tuttugustu og fimmtu konungsættinni tókst að sameina landið undir sinni stjórn. Erfingjar hans Taharka og Tanútamon áttu í átökum við Assýringa og tuttugasta og sjötta konungsættin var mynduð af leppkonungum þeirra. Veldi Egyptalands hafði þá hnignað mikið og Egyptar áttu sér ekki viðreisnar von gagnvart öflugum nýjum heimsveldum Persa og síðar Grikkja og Rómverja.