Emma af Normandí
Emma af Normandí (um 985 – 6. mars 1052) var drottning Englands á 11. öld, seinni kona Aðalráðs ráðlausa og síðar kona Knúts mikla, móðir tveggja Englandskonunga og stjúpmóðir tveggja annarra. Hún var líka afasystir Vilhjálms bastarðs Englandskonungs.
Drottning tveggja konunga
[breyta | breyta frumkóða]Emma var dóttir Ríkharðs óttalausa, hertoga af Normandí, og seinni konu hans, Gunnóru. Aðalráður ráðlausi Englandskonungur bað hennar til að tryggja sig gegn árásum frá Normandí og giftust þau árið 1002 og áttu saman tvo syni og eina dóttur. Börnin, Játvarður góði, Alfreð og Goda, voru send til Normandí þegar Knútur mikli gerði innrás í England 1013 og ólust þar upp. Aðalráður dó árið 1016. Sonur hans og stjúpsonur Emmu, Játmundur járnsíða, tók við ríkjum en dó í nóvemberlok sama ár og þá varð Knútur konungur Englands.
Knútur hafði lengi verið giftur eða búið með Alfífu frá Northampton og átti með henni tvo syni, Svein Alfífuson og Harald hérafót, en ef til vill var hjónaband þeirra ekki gilt að lögum, að minnsta kosti giftist hann Emmu í júlí, sennilega einnig til að tryggja gott samband við Normandí. Þegar Hörða-Knútur sonur þeirra fæddist hét hann því að hann skyldi erfa Danaveldi. Þau áttu líka dótturina Gunnhildi, sem giftist Hinrik 3. keisara.
Útlegð í Brügge
[breyta | breyta frumkóða]Knútur dó 1035. Hörða-Knútur var þá í Danmörku og komst ekki strax til Englands til að tryggja stöðu sína þar svo að Haraldur hérafótur hálfbróðir hans náði þar völdum. Á meðal helstu andstæðinga hans voru Emma og synir hennar og Aðalráðs, sem höfðu snúið heim frá Normandí. Haraldur lét taka Alfreð og blinda hann og dó hann skömmu síðar en Játvarður komst undan til Normandi og sjálf hraktist Emma í útlegð til Flæmingjalands og settist að í Brügge.
Þangað kom Hörða-Knútur sonur hennar þegar hann lagði loks af stað í herför til Englands til að ná því úr höndum Haraldar en þá barst þangað sú fregn snemma árs 1040 að Haraldur hefði dáið óvænt. Var Hörða-Knútur þá tekinn til konungs og Játvarður gat snúið aftur heim. Knútur lýsti því yfir að ef hann eignaðist enga syni skyldi Játvarður verða konungur Englands og gekk það eftir, þegar Hörða-Knútur dó 1042. Emma studdi hann þó ekki, hún vildi fá Magnús góða fyrir konung, og lét Játvarður taka hana höndum og hafði hana í haldi um skeið. Raunar virðast litlir kærleikar hafa verið með þeim mæðginunum.
Emma dó 1052 og hefur þá verið hátt á sjötugsaldri.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Emma of Normandy“ á dönsku útgáfu Wikipedia. Sótt 6.ágúst 2010.