Heimsmeistarakeppni félagsliða í knattspyrnu
Heimsmeistarakeppni félagsliða í knattspyrnu er alþjóðleg knattspyrnukeppni sem skipulögð er af Fédération Internationale de Football Association eða FIFA. Keppnin var fyrst haldin árið 2000 og því næst árlega frá 2005 til 2023. Þáttökuliðin hlupu frá 6 og upp í 12 frá öllum álfusamböndum, en lið frá Evrópu og Suður-Ameríku voru alla tíð sigursælust. Á HM 2025 verður þátttökuliðum fjölgað í 32 og keppnin eftirleiðis haldin á fjögurra ára fresti.
Real Madrid er sigursælasta liðið í sögu keppninnar með 5 titla. Ríkjandi meistarar (2023) eru Manchester City.
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Hugmyndin um alþjóðlega keppni félagsliða til að fá úr því skorið hvaða land státaði af besta liðinu er ævagömul. Þegar árið 1887 var kappleikur ensku bikarmeistaranna og skosku bikarmeistaranna kynntur sem heimsmeistarakeppni og árin 1909 og 1911 var keppt um Sir Thomas Lipton bikarinn á Ítalíu með þátttöku ítalskra, enskra, þýskra og svissneskra liða.[1]
Á sjötta áratugnum stóðu knattspyrnuforkólfar í Venesúela fyrir litlu heimsmeistarakeppninni þar sem evrópsk og suður-amerísk félög leiddu saman hesta sína.[2] Sú keppni varð að mörgu leyti fyrirmyndin að Intercontinental Cup árlegri keppni Evrópumeistaranna og Suður-Ameríkumeistaranna sem haldin var frá 1960 til 2004 og hlutu sigurvegararnir heimsmeistaranafnbót. Til ársins 1979 var keppt heima og heiman í úrslitaeinvíginu en frá 1980 var einn úrslitaleikur látinn nægja, sem fram fór í Japan, yfirleitt í desembermánuði.
Heimsmeistarakeppni stofnsett
[breyta | breyta frumkóða]Þegar á áttunda áratugnum fóru þær raddir að heyrast fyrir alvöru að óeðlilegt væri að krýna heimsmeistara í keppni þar sem einungis væru lið frá tveimur álfum. Ekki komst þó skriður á málið fyrr en löngu síðar. Að sögn Sepp Blatter forseta FIFA var það Silvio Berlusconi forseti AC Milan sem setti fram hugmyndina á fundi í New York árið 1993, en um þær mundir voru álfumeistarakeppnir félagsliða orðnar nokkuð traustar í sessi í öllum álfusamböndum.[3]
Ákveðið var á fundi í júní 1999 að fela Brasilíu að halda fyrstu heimsmeistarakeppnina síðar sama ár. Að lokum varð þó úr að fresta mótinu fram yfir áramót og var það haldið dagana 5. til 14. janúar 2000. Átta lið frá sex álfusamböndum öttu kappi. Brasilíska félagið Corinthians fór með sigur af hólmi eftir sigur á löndum sínum í Vasco da Gama í vítaspyrnukeppni eftir markalausan úrslitaleik.[4]
Ekki tókst að byggja á þessari byrjun. Fyrirhugað var að halda næstu heimsmeistarakeppni á Spáni árið 2001 en horfið var frá því að halda hana vegna fjárhagsvandræða. Ekki tókst að finna gestgjafaþjóð til að skipuleggja mótið árið 2002 og féll keppnin einnig niður árin 2003 og 2004. Fyrir árið 2005 náðust samningar milli FIFA, UEFA, CONMEBOL og Toyota, sem verið hafði aðalstyrktaraðili Intercontinental Cup, um að sameina keppninar tvær.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ West Auckland, Juventus And The First ‘World Cup’ The Hardtackle, 14. maí 2013.
- ↑ El primer torneo internacional de clubes José Quesada á Fútbol Retro, 25. sept. 2023.
- ↑ [1] Blatter: "The Club World Championship holds promise for the future" Heimasíða FIFA, 6. des. 1999.
- ↑ [2] Heimasíða FIFA, leikskýrsla.