Fara í innihald

Hússtjórnarskóli Reykjavíkur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hústjórnarskólinn í Reykjavík
Stofnaður 7. febrúar 1942
Skólastjóri Marta María Arnarsdóttir
Staðsetning Sólvallagata 12, 101 Reykjavík
Heimasíða www.husstjornarskoli.is

Hússtjórnarskólinn í Reykjavík, áður Húsmæðraskólinn í Reykjavík, er hússtjórnarskóli staðsettur í glæsilegu húsi við Sólvallagötu 12 í Vesturbæ Reykjavíkur sem var byggt árið 1921 af Jónatan Þorsteinssyni. Bandalag kvenna í Reykjavík keypti húsnæðið undir skólann sem hóf starfsemi þar 7. febrúar 1942. Skólinn hefur starfað óslitið síðan ýmist sem heilsársskóli eða í annarri mynd. Árið 1975 breyttist Húsmæðraskólinn í Reykjavík í Hússtjórnarskólann í Reykjavík og var þá gerður að ríkisskóla. Námið var stytt í eina önn en einnig var farið að bjóða upp á dag- og kvöldnámskeið. Árið 1998 var skólinn svo gerður að sjálfseignarstofnun sem rekin er með framlagi frá ríkissjóði. Skólastjóri frá árinu 2022 er Marta María Arnarsdóttir en hún tók við af Margréti Sigfúsdóttur.

Hlutverk og markmið náms við Hússtjórnarskólann í Reykjavík er að mennta nemendur í hússtjórnargreinum sem mun nýtast þeim í daglegu lífi. Skólinn er einnar annar heilstætt nám sem veitir nemendum sérhæfða kennslu í hússtjórnargreinum. Í skólanum eru kennd helstu undirstöðu atriði í hekli, prjóni, fatasaumi, útsaumi, vefnaði, matreiðslu, vörufræði, næringarfræði, þvotti og ræstingu og lífsleikni. Námsmat byggir einkum á verkefnum nemenda sem lögð eru fyrir prófdómara. Önnin skiptist í tvö holl þar sem nemendum er skipt í tvo hópa eftir því hvort þeir hefja námið í matreiðslu eða fatasaumi. Í lok hvers holls er síðan haldið svokallað foreldraboð þar sem nemendur í matreiðslu undirbúa og bjóða fjölskyldu og vinum í stórfenglega veislu þar sem handavinna nemenda er einnig lögð til sýnis.

Í lok hverrar annar heldur skólinn opið hús þar sem gestir og gangandi geta að skoða afrakstur nemenda og bragðað á dýrindis kökum og bakkelsi sem nemendur hafa matreitt.

Félagslíf

[breyta | breyta frumkóða]

Í upphafi hverrar annar kjósa nemendur tvo fulltrúa í stjórn nemendafélagsins. Þessir tveir fulltrúar halda utan um ýmsa viðburði utan skóla svo sem leikhúsferðir, prjónakvöld o.fl.

Vinnu- og námsferðir

[breyta | breyta frumkóða]

Á hverri önn er farin heilsdagsferð um Suðurland. Þar eru staðir eins og Þingvellir, Skálholt og Sólheimar meðal annars heimsóttir og nemendum kynnt saga þessarra þekktu staða.
Nemendur á haustönn fara í heildags berjaferð þar sem týnd eru bláber, krækiber og hrútaber sem eru nýtt til sultu- og saftgerðar síðar á önninni.
Skólinn býður einnig upp á bæjarferð um miðbæ Reykjavíkur þar sem nemendum er kynntur gamli bærinn og saga húsa, listaverka og merkra staða í miðbænum.
Farið er með nemendur í Ístex ullarverksmiðjuna á Álafossi þar sem þeim er sýnt ferlið við vinnslu íslensku ullarinnar.