Glaumbær (bær)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Torfbærinn í Glaumbæ.

Glaumbær er bær og kirkjustaður á miðju Langholti, vestan Héraðsvatna í Skagafirði, og tilheyrði áður Seyluhreppi.[1] Þar er nú Byggðasafn Skagfirðinga.[2]

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Byggð hefur verið í Glaumbæ frá því að sögur hófust.[3] Landkönnuðurinn Þorfinnur karlsefni og kona hans, Guðríður Þorbjarnardóttir, bjuggu á Reynistað eftir að þau komu frá Vínlandi og keyptu Glaumbæjarlönd. Á 11. öld bjó þar sonur þeirra, Snorri Þorfinnsson sem var sagður fæddur á Vínlandi. Í Grænlendingasögu segir að hann hafi látið reisa fyrstu kirkjuna í Glaumbæ á meðan Guðríður móðir hans gekk suður. Glaumbæjarkirkja var helguð Jóhannesi skírara á kaþólskum tíma. Sagan segir að Guðríður hafi verið einsetukona í Glaumbæ eftir að hún kom úr suðurgöngunni.[4]

Margir þekktir höfðingjar bjuggu í Glaumbæ á kaþólskum tíma. Þeirra á meðal var Hrafn Oddsson hirðstjóri, sonur hans Jón korpur og sonarsonur hans Glaumbæjar-Hrafn (Rafn) Jónsson. Hann bauð 360 manns í brúðkaupsveislu dóttur sinnar í Glaumbæ 1360.[5] Soffía dóttir Lofts ríka Guttormssonar bjó í Glaumbæ og sonur hennar Þorleifur Árnason. Sonur hans var Teitur ríki Þorleifsson (d. 1537), sem átti í miklum deilum við Gottskálk Nikulásson Hólabiskup og fleiri höfðingja á fyrri hluta 16. aldar og missti mestallan auð sinn og völd í hendur þeirra.[6]

Fornleifarannsóknir í Glaumbæ hafa leitt í ljós leifar af fornum skála í túninu.[7]

Prestar og kirkja[breyta | breyta frumkóða]

Samkvæmt máldögum kirkjunnar frá kaþólskum sið voru þá tveir prestar í Glaumbæ, heimilisprestur og sóknarprestur. Nokkru fyrir siðaskipti lagði Jón Arason jörðina undir Hólastól og gerði hana að prestssetri og hefur prestur verið í Glaumbæ síðan. Glaumbær þótti löngum besta brauð í Skagafirði og sátu flestir prestar þar lengi. Einna þekktastur er Gottskálk Jónsson (1524 - 1590), prestur í Glaumbæ frá 1554,[8] sem var mikill fræðimaður og skrifaði meðal annars Gottskálksannál og Sópdyngju, sem er eitt af elstu og merkustu pappírshandritum Íslendinga.[9] Annar þekktur prestur í Glaumbæ var Grímúlfur Illugason (1697 - 1784), sem var þar frá 1727 til dauðadags. Hann var talinn göldróttur og gengu ýmsar þjóðsögur af honum.[10]

Núverandi kirkja er byggð 1926, eftir að timburkirkjan sem þar var áður brotnaði í ofsaveðri. Á veggjum hennar eru nú spjöld úr prédikunarstóli sem talinn er hafa verið smíðaður 1685. Hann var seldur á uppboði 1930 og voru spjöldin notuð í farg á hey í nokkur ár, áður en þeim var bjargað.[11]

Í kirkjugarðinum í Glaumbæ er leiði Miklabæjar-Solveigar, en bein hennar voru jarðsett þar 1937.[12]

Byggðasafnið[breyta | breyta frumkóða]

Byggðasafn Skagfirðinga sem stofnað var 29. maí 1948,[13] fékk afnot af torfbænum í Glaumbæ og opnaði sýningu í honum 15. júní 1952.[14] Á sýningunni er fjöldi muna sem flestir eru tengdir hemilishaldi og verklagi fyrri tíðar. Torfbærinn er samstæða þrettán húsa. Sex snúa burstum fram á hlaðið. Bærinn er sérstæður meðal íslenskra torfbæja að því leyti að mjög lítið grjót er notað í hleðslurnar, enda er það varla að finna í Glaumbæjarlandi.[15]

Tvö gömul timburhús hafa verið flutt á safnlóðina í Glaumbæ. Áshús er frá Ási í Hegranesi, byggt 1884-1886 til að hýsa kvennaskóla fyrir Skagfirðinga. Aldrei varð af því og var það notað sem íbúðarhús til 1977. Í húsinu er nú kaffistofa, sýning og geymsla.[16] Gilsstofa var upphaflega reist á Espihóli í Eyjafirði 1849. Hún var tekin niður 1861 og flutt til Akureyrar og þaðan með skipi til Kolkuóss, reist aftur á Hjaltastöðum í Blönduhlíð, flutt í Reynistað 1872, að Gili í Borgarsveit 1884, til Sauðárkróks 1891 og stóð þar til 1985 þegar hún var flutt að Kringlumýri í Blönduhlíð. Þar stóð hún þar til hún var flutt að Glaumbæ 1996 og endursmíðuð þar sem næst í upprunalegri mynd en lítið var eftir af upprunalegum viðum eftir alla flutningana. Þar er nú safnbúð og skrifstofa byggðasafnsins og aðstaða fyrir starfsfólk.[17][18]

Myndasafn[breyta | breyta frumkóða]


Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Yfirlit yfir sýslur og hreppa“. Árnastofnun. Sótt 28. apríl 2024.
  2. Feykir. „Byggðasafn Skagfirðinga 75 ára“. Feykir.is. Sótt 28. apríl 2024.
  3. „Glaumbær Farm & Museum“. Atlas Obscura (enska). Sótt 28. apríl 2024.
  4. „The First Farmer“. Byggðasafn Skagfirðinga. Sótt 28. apríl 2024.
  5. Sigríður Sigurðardóttir (2012). [978-9935-9043-6-2 Stories from Glaumbær]. ISBN 978-9935-9043-6-2. {{cite book}}: Lagfæra þarf |url= gildið (hjálp)
  6. „Ábúendur í Glaumbæ“. Byggðasafn Skagfirðinga. Sótt 28. apríl 2024.
  7. „Hvað er jarðsjá og hvernig er hún notuð?“. Vísindavefurinn. Sótt 28. apríl 2024.
  8. Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 28. apríl 2024.
  9. Sigurdson, Erika (23. júní 2016). The Church in Fourteenth-Century Iceland. BRILL. ISBN 978-90-04-30156-6.
  10. „Ábúendur í Glaumbæ“. Byggðasafn Skagfirðinga. Sótt 28. apríl 2024.
  11. „Ísland í hnotskurn | Glaumbæjarkirkja“. https://www.greaticeland.com/Page.aspx?ID=581. Sótt 28. apríl 2024.
  12. Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 28. apríl 2024.
  13. „Glaumbær“. Þjóðminjasafn Íslands (enska). Sótt 28. apríl 2024.
  14. „Ábúendur í Glaumbæ“. Byggðasafn Skagfirðinga. Sótt 28. apríl 2024.
  15. „Nýjar og gamlar sýningar í Glaumbæ“. www.bbl.is. Sótt 28. apríl 2024.
  16. Bjorn (9. febrúar 2019). „GLAUMBAER SKAGAFJORDUR FOLK MUSEUM“. NAT (bandarísk enska). Sótt 28. apríl 2024.
  17. „19th Century Timber Buildings“. Byggðasafn Skagfirðinga. Sótt 28. apríl 2024.
  18. „Ábúendur í Glaumbæ“. Byggðasafn Skagfirðinga. Sótt 28. apríl 2024.