Teitur Þorleifsson
Teitur Þorleifsson ríki (d. 1537) var skagfirskur höfðingi á 16. öld, sýslumaður í Húnaþingi, lögmaður norðan og vestan og bjó í Glaumbæ í Skagafirði og síðar í Hvammi í Dölum.
Teitur var sonur Þorleifs Árnasonar bónda í Glaumbæ, sem var dóttursonur Lofts ríka Guttormssonar og bróðursonur Björns Þorleifssonar hirðstjóra. Kona Þorleifs og móðir Teits var Kristín, dóttir Teits ríka Gunnlaugssonar í Bjarnanesi.
Teitur Þorleifsson var stórríkur og valdamikill en lenti í deilum við Jón biskup Arason og voru þær eiginlega framhald af deilum Jóns Sigmundssonar, frænda Teits, við Gottskálk biskup Nikulásson, en þeir voru þá báðir látnir. Þegar Jón Arason var kjörinn biskup tók hann við ýmsum óloknum málum Gottskálks, meðal annars deilu um eignir Jóns Sigmundssonar, og reyndi að ná eignum af Einari syni hans en hann leitaði liðsinnis hjá Teiti í Glaumbæ.
Þinga átti um málið á Sveinsstöðum í Húnaþingi og kom þar til átaka á milli manna þeirra biskups og Teits, sem lauk með því að Árni Bessason, sem var einn biskupsmanna, féll en Grímur Jónsson lögmaður á Stóru-Ökrum, sem var í för með biskupi, skaut ör í handlegg Teits lögmanns og hélt Teitur því fram að Jón Arason hefði haldið sér föstum. Fleiri særðust á Sveinsstaðafundi úr báðum liðum.
Á næsta alþingi sýknaði lögrétta Teit af allri sök í Sveinsstaðareið og hann var þá kjörinn lögmaður norðan lands og vestan. En þrem árum síðar kom Jón Arason heim með biskupsvígslu og nokkru síðar fékk hann Hrafn Brandsson kjörinn lögmann í stað Teits og gifti honum barnunga dóttur sína, Þórunni. Var svo kveðinn upp dómur á Seylu í Skagafirði, þar sem föður Árna Bessasonar voru dæmdar háar bætur fyrir soninn en Teitur var sviptur öllum eigum sínum og skyldi helmingur þeirra ganga til konungs en hitt til erfingja Teits. Hrafn tók svo allar eignirnar undir sig, líka þær sem erfingjar Teits höfðu átt að fá. Hann hélt þó eftir Bjarnaneseignum, sem hann hafði fengið eftir afa sinn, og seldi Ögmundi Skálholtsbiskupi. Teitur hraktist við svo búið frá Glaumbæ, settist að í Hvammi í Dölum og bjó þar síðan en gaf guði og kirkjunni Hvamm 1531.
Kona Teits var Inga Jónsdóttir (d. 1537) frá Múla á Skálmarnesi. Þau voru barnlaus.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- „Jón Arason. Eimreiðin, 2. tbl. 1911“.
- „Breiðablik, 2. tb. 1911-1912“.
- Safn til sögu Íslands. 2. bindi, Kaupmannahöfn 1886.
Fyrirrennari: Grímur Jónsson |
|
Eftirmaður: Hrafn Brandsson (yngri) |