Glaumbær (bær)
Glaumbær er bær og kirkjustaður á miðju Langholti, vestan Héraðsvatna í Skagafirði, og tilheyrði áður Seyluhreppi.[1] Þar er nú Byggðasafn Skagfirðinga.[2]
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Byggð hefur verið í Glaumbæ frá því að sögur hófust.[3] Landkönnuðurinn Þorfinnur karlsefni og kona hans, Guðríður Þorbjarnardóttir, bjuggu á Reynistað eftir að þau komu frá Vínlandi og keyptu Glaumbæjarlönd. Á 11. öld bjó þar sonur þeirra, Snorri Þorfinnsson sem var sagður fæddur á Vínlandi. Í Grænlendingasögu segir að hann hafi látið reisa fyrstu kirkjuna í Glaumbæ á meðan Guðríður móðir hans gekk suður. Glaumbæjarkirkja var helguð Jóhannesi skírara á kaþólskum tíma. Sagan segir að Guðríður hafi verið einsetukona í Glaumbæ eftir að hún kom úr suðurgöngunni.[4]
Margir þekktir höfðingjar bjuggu í Glaumbæ á kaþólskum tíma. Þeirra á meðal var Hrafn Oddsson hirðstjóri, sonur hans Jón korpur og sonarsonur hans Glaumbæjar-Hrafn (Rafn) Jónsson. Hann bauð 360 manns í brúðkaupsveislu dóttur sinnar í Glaumbæ 1360.[5] Soffía dóttir Lofts ríka Guttormssonar bjó í Glaumbæ og sonur hennar Þorleifur Árnason. Sonur hans var Teitur ríki Þorleifsson (d. 1537), sem átti í miklum deilum við Gottskálk Nikulásson Hólabiskup og fleiri höfðingja á fyrri hluta 16. aldar og missti mestallan auð sinn og völd í hendur þeirra.[6]
Fornleifarannsóknir í Glaumbæ hafa leitt í ljós leifar af fornum skála í túninu.[7]
Prestar og kirkja
[breyta | breyta frumkóða]Samkvæmt máldögum kirkjunnar frá kaþólskum sið voru þá tveir prestar í Glaumbæ, heimilisprestur og sóknarprestur. Nokkru fyrir siðaskipti lagði Jón Arason jörðina undir Hólastól og gerði hana að prestssetri og hefur prestur verið í Glaumbæ síðan. Glaumbær þótti löngum besta brauð í Skagafirði og sátu flestir prestar þar lengi. Einna þekktastur er Gottskálk Jónsson (1524 - 1590), prestur í Glaumbæ frá 1554,[8] sem var mikill fræðimaður og skrifaði meðal annars Gottskálksannál og Sópdyngju, sem er eitt af elstu og merkustu pappírshandritum Íslendinga.[9] Annar þekktur prestur í Glaumbæ var Grímúlfur Illugason (1697 - 1784), sem var þar frá 1727 til dauðadags. Hann var talinn göldróttur og gengu ýmsar þjóðsögur af honum.[10]
Núverandi kirkja er byggð 1926, eftir að timburkirkjan sem þar var áður brotnaði í ofsaveðri. Á veggjum hennar eru nú spjöld úr prédikunarstóli sem talinn er hafa verið smíðaður 1685. Hann var seldur á uppboði 1930 og voru spjöldin notuð í farg á hey í nokkur ár, áður en þeim var bjargað.[11]
Í kirkjugarðinum í Glaumbæ er leiði Miklabæjar-Solveigar, en bein hennar voru jarðsett þar 1937.[12]
Byggðasafnið
[breyta | breyta frumkóða]Byggðasafn Skagfirðinga sem stofnað var 29. maí 1948,[13] fékk afnot af torfbænum í Glaumbæ og opnaði sýningu í honum 15. júní 1952.[14] Á sýningunni er fjöldi muna sem flestir eru tengdir hemilishaldi og verklagi fyrri tíðar. Torfbærinn er samstæða þrettán húsa. Sex snúa burstum fram á hlaðið. Bærinn er sérstæður meðal íslenskra torfbæja að því leyti að mjög lítið grjót er notað í hleðslurnar, enda er það varla að finna í Glaumbæjarlandi.[15]
Tvö gömul timburhús hafa verið flutt á safnlóðina í Glaumbæ. Áshús er frá Ási í Hegranesi, byggt 1884-1886 til að hýsa kvennaskóla fyrir Skagfirðinga. Aldrei varð af því og var það notað sem íbúðarhús til 1977. Í húsinu er nú kaffistofa, sýning og geymsla.[16] Gilsstofa var upphaflega reist á Espihóli í Eyjafirði 1849. Hún var tekin niður 1861 og flutt til Akureyrar og þaðan með skipi til Kolkuóss, reist aftur á Hjaltastöðum í Blönduhlíð, flutt í Reynistað 1872, að Gili í Borgarsveit 1884, til Sauðárkróks 1891 og stóð þar til 1985 þegar hún var flutt að Kringlumýri í Blönduhlíð. Þar stóð hún þar til hún var flutt að Glaumbæ 1996 og endursmíðuð þar sem næst í upprunalegri mynd en lítið var eftir af upprunalegum viðum eftir alla flutningana. Þar er nú safnbúð og skrifstofa byggðasafnsins og aðstaða fyrir starfsfólk.[17][18]
Myndasafn
[breyta | breyta frumkóða]Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Yfirlit yfir sýslur og hreppa“. Árnastofnun. Sótt 28. apríl 2024.
- ↑ Feykir. „Byggðasafn Skagfirðinga 75 ára“. Feykir.is. Sótt 28. apríl 2024.
- ↑ „Glaumbær Farm & Museum“. Atlas Obscura (enska). Sótt 28. apríl 2024.
- ↑ „The First Farmer“. Byggðasafn Skagfirðinga. Sótt 28. apríl 2024.
- ↑ Sigríður Sigurðardóttir (2012). [978-9935-9043-6-2 Stories from Glaumbær]. ISBN 978-9935-9043-6-2.
{{cite book}}
: Lagfæra þarf|url=
gildið (hjálp) - ↑ „Ábúendur í Glaumbæ“. Byggðasafn Skagfirðinga. Sótt 28. apríl 2024.
- ↑ „Hvað er jarðsjá og hvernig er hún notuð?“. Vísindavefurinn. Sótt 28. apríl 2024.
- ↑ Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 28. apríl 2024.
- ↑ Sigurdson, Erika (23. júní 2016). The Church in Fourteenth-Century Iceland. BRILL. ISBN 978-90-04-30156-6.
- ↑ „Ábúendur í Glaumbæ“. Byggðasafn Skagfirðinga. Sótt 28. apríl 2024.
- ↑ „Ísland í hnotskurn | Glaumbæjarkirkja“. https://www.greaticeland.com/Page.aspx?ID=581. Sótt 28. apríl 2024.
- ↑ Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 28. apríl 2024.
- ↑ „Glaumbær“. Þjóðminjasafn Íslands (enska). Sótt 28. apríl 2024.
- ↑ „Ábúendur í Glaumbæ“. Byggðasafn Skagfirðinga. Sótt 28. apríl 2024.
- ↑ „Nýjar og gamlar sýningar í Glaumbæ“. www.bbl.is. Sótt 28. apríl 2024.
- ↑ Bjorn (9. febrúar 2019). „GLAUMBAER SKAGAFJORDUR FOLK MUSEUM“. NAT (bandarísk enska). Sótt 28. apríl 2024.
- ↑ „19th Century Timber Buildings“. Byggðasafn Skagfirðinga. Sótt 28. apríl 2024.
- ↑ „Ábúendur í Glaumbæ“. Byggðasafn Skagfirðinga. Sótt 28. apríl 2024.
- Byggðasafn Skagfirðinga Geymt 17 maí 2011 í Wayback Machine