Gottskálk Jónsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Gottskálk Jónsson (um 15241590) var prestur, sýslumaður og sagnaritari í Glaumbæ í Skagafirði. Hann skrifaði meðal annars Gottskálksannál og Sópdyngju eða Syrpu Gottskálks í Glaumbæ, samsafn af alls konar fróðleik og afskriftum af gömlum bréfum og skjölum af ýmsu tagi.

Gottskálk var sonur Jóns Einarssonar, sýslumanns á Geitaskarði, og Kristínar Gottskálksdóttur konu hans og því dóttursonur Gottskálks Nikulássonar biskups. Hann er sagður hafa verið bráðþroska og efnilegur og þegar hann var aðeins sjö ára gaf Jón Arason biskup honum jörð. Hann var nefdur í dóm tvítugur að aldri og varð skömmu síðar lögréttumaður. Árið 1546 var hann settur sýslumaður Skagfirðinga. Hann var bóndi í Vík í Sæmundarhlíð en um 1550 var hann orðin prestur. Hann þjónaði Melstað í Miðfirði eftir aftöku séra Björns Jónssonar 1551 en árið 1554 var hann kominn í Glaumbæ og var þar prestur til æviloka og lengst af prófastur.

Séra Gottskálk var einn virtasti klerkur norðanlands um sína daga, fjölfróður og fróðleiksfús. Syrpa hans er varðveitt í British Museum. Þar er meðal annars að finna elsta íslenska texta um skáktafl sem þekktur er og mun hann þýddur af Gottskálk. Þar er taflmönnunum lýst svo:

„Kallast einn af þeim rex. Það þýðist yfirvalds konungur síns undirgefins fólks. Ánnar kallast regina, það er drottning; þriðji miles, það er sem einn riddari vaskur; fjórði alfinus, það þýðir einn biskup á vora tungu; fimmti rokus, það svo gott sem rösklegur hrókur; pedinus, það er sem ein peðsnydda hafandi minnst yfirlát af öllum þessum mönnum. En þessi leiksháttur er svo felldur að hver grípur af öðrum og stríðir upp á annan og drepast burt af borðinu þar til leikurinn er endaður.“

Kona Gottskálks var Herdís Sæmundsdóttir.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „„Gömul sögn." Árbók hins íslenska fornleifafélags, 48. árg.,1941-1942“.
  • „„Móralskar hugvekjur." Lesbók Morgunblaðsins, 10. nóvember 1988“.