Fara í innihald

Höfðaströnd

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stuðlabergsklettar á Höfðaströnd, við Hofsós.
Bærin Hof á Höfðaströnd

Höfðaströnd er byggðarlag á ströndinni kringum Hofsós við austanverðan Skagafjörð. Syðsti bær byggðarlagsins er Gröf en ystur er Höfði. Sveitin er kennd við Þórðarhöfða, sem setur mikinn svip á landslagið.[1] Innan við hann er Höfðavatn, stærsta vatn í Skagafirði, en það er þó raunar fremur sjávarlón.[2]

Frá Höfðaströnd var löngum töluverð útgerð, ekki aðeins frá Hofsósi, heldur einnig frá Bæjarklettum í landi Bæjar á Höfðaströnd, og risu þar þurrabúðir þar sem íbúar lifðu á fiski og fuglaveiðum við Drangey, auk nokkurra grasnytja. Aðalverslun héraðsins var í Hofsósi á Höfðaströnd frá því um 1600, þegar hafnaraðstæður við Kolkuós versnuðu til muna, og fram undir lok 19. aldar, þegar Sauðárkrókur tók við sem helsti verslunarstaður Skagafjarðar. Einnig var verslun í Grafarósi á Höfðaströnd frá því um 1840 til 1915.[3]

Höfðaströnd var áður hluti af Hofshreppi en tilheyrir Sveitarfélaginu Skagafirði eftir sameiningu hreppa í héraðinu.[4] Tveir kirkjustaðir eru á Höfðaströnd, Hof og Gröf, en þar er gamalt bænhús frá síðari hluta 18. aldar sem var endurvígt 1953.[5][6] Töluverð uppbygging hefur verið á Höfðaströnd á síðustu árum og er Listasetrið Bær dæmi um hana.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Nafnið.is“. nafnid.arnastofnun.is (enska). Sótt 9. mars 2025.
  2. „Höfði Höfðaströnd - NAT ferðavísir“. 7 júlí 2020. Sótt 9. mars 2025.
  3. Bryndís Zoëga (2013). „Strandminjar við austanverðan Skagafjörð, 2. áfangi“ (PDF). Byggðasafn Skagafirðinga. bls. 2, 8, 30.
  4. Skagafjörður. „Fróðleikur um Skagafjörð“. Skagafjörður. Sótt 9. mars 2025.
  5. Vilborg Magnúsdóttir (Janúar 2017). „Hringlaga kirkjugarðar á Íslandi: Frumathugun á stærðardreifingu“ (PDF). bls. 12–13.
  6. Norðurlands, Markaðsstofa. „Bænahúsið á Gröf“. Upplifðu Norðurland. Sótt 9. mars 2025.