Elstu konungsættirnar eru fyrstu konungarnir sem ríktu yfir sameinuðu Egyptalandi. Tímabilið nær yfir fyrstu tvær konungsættirnar sem ríktu um það bil frá 31. öld f.Kr. til 27. aldar f.Kr. þar til Gamla ríkið hófst. Tímabilið einkennist af styrkingu og þróun miðstjórnarvalds.
Samkvæmt sagnaritaranum Maneþon var fyrsti konungurinn Menes, en elsti konungur fyrstu komungsættarinnar sem heimildir greina frá er Hor-Aha. Einnig er til steinspjald sem ber nafn Narmers (síðasta fornkonungsins fyrir sameiningu landanna) sem virðist segja frá því þegar hann sameinar löndin tvö, og því vilja sumir gera hann að fyrsta konungi fyrstu konungsættarinnar.