Breska Austur-Indíafélagið
Breska Austur-Indíafélagið var verslunarfélag stofnað 31. desember árið 1600 vegna verslunar við Austur-Indíur en varð síðan einna fyrirferðarmest á Indlandsskaga. Félagið var elst þeirra Austur-Indíafélaga sem evrópsku konungsríkin stofnuðu á 17. og 18. öld.
Félagið var hlutafélag og fékk konungsbréf við stofnun. Hluthafar voru auðugir breskir kaupmenn og aðalsmenn. Breska ríkið átti ekki hlutabréf og átti því aðeins óbeina aðild að stjórn félagsins. Helstu verslunarvörur félagsins voru baðmull, silki, indigó-litunarefni, salt, saltpétur, te og ópíum. Um miðja 18. öld varð félagið einkarekið nýlenduveldi á Indlandi þar sem það stjórnaði stórum svæðum með einkaher. Yfirráðum félagsins lauk eftir indversku uppreisnina 1857 þegar breska ríkisstjórnin gaf út lög um stjórnun Indlands 1858 og þjóðnýtti einkaher félagsins. Árið 1874 var félagið leyst upp.
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Uppruni
[breyta | breyta frumkóða]Sigur Englendinga á spænska flotanum ósigrandi árið 1588 gaf þeim kjörið tækifæri að koma sér inn í austurindversku kryddverslunina sem Spánn og Portúgal höfðu fram að því haft einokun á. Í kjölfarið var Breska Austur-Indíafélagið stofnað.[1]
Breska Austur-Indíafélagið var stofnað þann 31. desember árið 1600 þegar Elísabet 1. Englandsdrottning gaf félaginu konungsbréf stílað á „Stjórnanda og félag verslunarmanna London sem stunda viðskipti við Austur-Indíur“ (Governor and Company of Merchants of London Trading into the East Indies). Markmið félagsins var að keppa við verslunarfélög annarra landa sem voru þegar að stunda viðskipti við Austur-Indíur. Meðal þeirra voru Holland, Frakkland, Danmörk, Skotland, Spánn, Austurríki og Svíþjóð.[2][3]
Útbreiðsla
[breyta | breyta frumkóða]Við upphaf starfsemi félagsins mætti það einna helst andstöðu frá Hollenska Austur-Indíafélaginu og brutust út nokkur stríð milli þeirra vegna harðrar samkeppni. Breska Austur-Indíafélagið náði hins vegar miklum umráðum í gegnum hernaðarsigra og einhliða samninga við landsmenn Austur-Indía. Félagið náði góðum samningum við leiðtoga Mógúlaveldisins sem tryggðu þeim góða stöðu á Indlandi þar sem félagið náði fótfestu og gat reist kaupstaði og vöruhús. Viðskipti félagsins teygðu sig langt út fyrir Indland og má til dæmis nefna verslun þess í Persaflóa, Kína og Japan ásamt öðrum nýlendum og eyjum á svæðinu.[1][2]
Endalok
[breyta | breyta frumkóða]Þegar Breska Austur-Indíafélagið náði hápunkti sínu var það stærsta verslunarfélag heims og hafði einokun á verslun í Austur-Indíum, ásamt því að hafa til umráða um 260.000 manna her. Það var á þeim tíma tvöfalt meiri mannafli en var í breska hernum. Undir lok félagsins fóru skuldir að safnast upp ásamt því að félagið var hægt og rólega að missa heljartak sitt á verslun við Austur-Indíur, að hluta til vegna indversku uppreisnarinnar 1857. Þegar fór að líða að lokum Breska Austur-Indíafélagsins færðist starfssemi þess frá verslun yfir í uppbyggingu stjórnsýslu. Að lokum rann einnig pólitískt vald félagsins þeim úr greipum bæði vegna hverfandi umráða á Indlandi og andstöðu við einokunarina heima fyrir, þar sem Adam Smith var talsmaður frjálsra markaða. Breska Austur-Indíafélagið var að lokum leyst upp þann 1. júní árið 1874.[2]
Áhrif Breska Austur-Indíafélagsins
[breyta | breyta frumkóða]Breska Austur-Indíafélagið hafði gríðarleg áhrif á þróun efnahags, samfélag og neysluhegðun; og er lýst sem forvera nútímafyrirtækja með notkun hlutafjár til fjáröflunar og fjölþjóðaviðskipti. Félagið brúaði bilið milli kaupauðgisstefnunnar sem byggðist á einokunarverslun, og fyrirtækja iðnaðaraldarinnar sem voru einungis ábyrg gagnvart hluthöfum sínum.[4]
Fram að árinu 1612 voru ferðir félagsins fjármagnaðar sérstaklega. Seinna var stofnað til reikninga sem eru forveri nútímahlutafjár þar sem félagið í heild sinni var fjármagnað með hlutafé í stað stakra ferða.[1]
Hagfræðileg álitamál
[breyta | breyta frumkóða]Thomas Mun (1571–1641) var auðugur kaupmaður og var um skeið stjórnandi Breska Austur-Indíafélagsins. Mun var einn af fyrstu merkantílistunum og taldi að eignarhald þjóðar á gulli og öðrum góðmálmum væri mælikvarði á auð þjóðarinnar. Gerard de Malynes (1585-1627) átti í ritdeilu við Mun þar sem hann gagnrýndi félagið og einokun þess. Í gagngrýninni fólst m.a. að starfsemi þess færi á móti kenningum Muns. Viðskiptahættir félagsins drægju úr auð krúnunnar þar sem kaup á vörum Austur-Indía stuðlaði að útstreymi gulls og annarra góðmálma sem á endanum hefðu valdið efnahagskreppu sem gekk yfir England á árunum 1618-1622. Mun svaraði þeirri gagnrýni með því að endursala á keyptum vörum frá Austur-Indíu borgaði ekki einungis upp upprunalega útstreymið heldur stuðlaði að auknu innstreymi gulls og annarra góðmálma til krúnunnar.[5][6][7]
Austur-Indíafélagsskólinn
[breyta | breyta frumkóða]Háskóli Austur-Indíafélagsins var stofnaður í febrúar árið 1806 og fór starfsemi skólans fyrst um sinn fram í Hertford-kastala áður en hún var færð í nýrri byggingar, en er nú í Haileybury. Charles Grant var formaður háskóla Austur-Indíafélagsins og mikilvægur hluti af uppbyggingu skólans.[8]
Árið 1784 voru reglur félagsins að nemendur þyrftu að vera á bilinu 15-18 ára gamlir, en 1793 var það hækkað í 22 ára. Einungis þeir sem höfðu verið í hernum í að minnsta kosti eitt ár máttu sækja nám við skólann fram að 25 ára aldri. Kennsla skólans var ætluð til undirbúa starfsmenn Austur-Indíafélagsins fyrir vinnu á Indlandi. Áður en haldið var til Indlands þurfti að ljúka námi við skólann.[8]
Áhersla var lögð á það að bjóða upp á menntun sem ekki var aðgengileg í öðrum menntastofnunum á þessum tíma. Námskrá skólans átti að hafa í huga sérhæfðar kröfur indverskrar stjórnsýslu.[8]
Í skólanum voru kennd almenn lög, lög í Englandi, stjórnmál, fjármál, sala og sögu. Þarna var boðið upp á sérhæft námsefni fyrir kröfur stjórnsýslu Indlands, sem ekki var hægt að nálgast annars staðar á jafn þægilegan máta. Á námsskránni var einnig talað um kennslu tungumála, landfræði og almennan lestur.[8]
Þau sem sátu við ráð skólans töldu það ekki góða hugmynd að kennararnir gæfu út ítarlega greiningu á því námsefni sem kennt var í hverju fagi. Þetta gaf kennurunum ákveðið frelsi um hvað var farið yfir í fyrirlestrum og gaf þeim möguleika að endurbæta fyrirlestra sína með árunum.[8]
Kennarar
[breyta | breyta frumkóða]Þann 10. júlí 1805 svaraði Thomas Robert Malthus bréfi frá Grant þar sem hann samþykkti stöðu sem prófessor í skólanum til að kenna almenna sögu, stjórnmál, verslun og fjármál. Hann bjó og kenndi við skólann þar til hann lést árið 1834. Richard Jones tók við stöðu hans í skólanum og kenndi einnig þar til hann lést árið 1855.[8]
Almenn námskrá frá tímum þeirra er ekki til vegna þess að það þurfti ekki að vera með skýra greiningu á því sem var kennt í fögunum. Út frá glósum sem Malthus og Jones gerðu er hins vegar hægt að fá hugmynd um það sem fram fór í tímum ásamt röðinni sem námsefnið var kennt í.[8]
Vitað er að mikið var lagt upp úr því að kenna meginreglur í hagfræði og lögfræði sem voru samþykktar á heimsvísu. Dæmi um þetta er t.d. hægt að finna í prófi sem Malthus lagði fyrir árið 1808 sem ber heitið „Saga og stjórnmálahagfræði“ en þar var spurt um hluti eins og skatt, vexti, peninga og vinnuafl. Út frá þeim glósum sem hafa fundist eftir Malthus og Jones er hægt að sjá hversu mikil áhrif Adam Smith og bókin hans Auðlegð Þjóðanna hafði á námsefnið sem þeir kenndu.[8]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 1,2 „East India Company | Definition, History, & Facts | Britannica Money“. www.britannica.com (enska). 10. september 2023. Sótt 6. október 2023.
- ↑ 2,0 2,1 2,2 „How the East India Company Became the World's Most Powerful Monopoly“. HISTORY (enska). 29. júní 2023. Sótt 6. október 2023.
- ↑ „East India Company - Encyclopedia“. theodora.com (enska). Sótt 6. október 2023.
- ↑ Robins, Nick (2012). The Corporation That Changed the World: How the East India Company Shaped the Modern Multinational (enska). Pluto Press. ISBN 978-1-84964-691-8.
- ↑ „Thomas Mun | Merchant, Trade, Finance | Britannica“. www.britannica.com (enska). Sótt 3. nóvember 2023.
- ↑ Greenspan, Ezra; Rose, Jonathan (1. ágúst 2000). Book History (enska). Penn State Press. ISBN 978-0-271-02050-1.
- ↑ Medema, Steven G; Samuels, Warren J., ritstjórar (24. febrúar 2004). „The History of Economic Thought: A Reader“. doi:10.4324/9780203380291.
- ↑ 8,0 8,1 8,2 8,3 8,4 8,5 8,6 8,7 Tribe, Keith (1995-09). „Professors Malthus and Jones: Political economy at the East India College 1806–1858“. The European Journal of the History of Economic Thought (enska). 2 (2): 327–354. doi:10.1080/09672569508538573. ISSN 0967-2567.