Gerard de Malynes

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Gerard de Malynes. (1585–1627/1641) var enskur embættis- og stjórnmálamaður, og hagfræðingur. Malynes er talinn með mikilvægustu fulltrúum kaupauðgisstefnunnar. Hann er þekktastur fyrir ádeilu sína á einokunarfyrirtæki, sérstaklega Breska Austur-Indíafélagið, og ritdeilu við Thomas Mun og Edward Misselden um orsakir efnahagskreppu sem gekk yfir England á árunum 1618-1622 og hlut gullflæðis og gengis enska pundsins sem orsakavalda kreppunnar.

Malynes fæddist í Antwerpen í Belgíu, en flutti ungur að árum ásamt fjölskyldu sinni til Englands þar sem faðir hans hafði sterk tengsl. Margt er á huldu um ævi Malynes, þar á meðal bæði fæðingarár hans og dánarár. Þannig greinir heimildir á um hvort hann hafi látist árið 1627 eða 1641. Yfirleitt er miðað við síðara ártalið. Hann átti giftusaman feril sem embættismaður, bæði sem ráðgjafi krúnu og þings í málefnum sem snertu peninga- og utanríkisviðskipti í tíð Elisabetar I og Jakobs I. Malynes reyndi einnig fyrir sér í viðskiptum, en tapaði stórfé á misheppnuðu viðskiptaævintýri, sem endaði með því að Malynes dvaldi þrjú ár í skuldafangelsi. Talið er að þessi reynsla hafi haft áhrif á viðhorf hans til einokunarfyrirtækja og okurlánara.[1]

Framlög til hagfræði[breyta | breyta frumkóða]

Malynes er oft nefndur sem dæmi um góðmálmaáherslu (enska: bullionist) fyrstu fulltrúa kaupauðgisstefnunnar. Hann taldi að auðlegð þjóða væri mæld, eða byggðist á gulleign þeirra, og að milliríkjaviðskipti gætu verið uppspretta auðs, ef þau leiddu til innflæðis, frekar en útflæðis gulls. Þar sem kaupmenn væru knúnir áfram af eigin hagsmunum, frekar en hagsmunum heildarinnar (þ.e. krúnunnar) þyrfti að setja lög til að hafa hemil á þeim.

Malynes taldi ennfremur að spákaupmennska og óheiðarleg samsæri erlendra peningamanna og kaupmanna græfu undan gengi enska pundsins. Spákaupmennsku taldi hann form okurs og því siðferðilega ranga. Rót efnahagsvandræða Englands væri að finna í alþjóðlegum peningamörkuðum og samsæris hollenskra og gyðinglegra fjármálamanna gegn enska pundinu, og tap á gulli úr landi sem rýrði auð Englands. Auður ríkja var mældur í gullforða, að mati hagfræðinga sem tilheyrðu kaupauðgisstefnunni.

Malynes taldi að framboð og eftirspurn útflutningsvöru væri óverðtegin og óháð breytingum á peningamagni í umferð og verðlagi. Minni innflutningstekjur réðust því alfarið af lágu gengi pundsins utan Englands, sem leiddi til þess að enskir kaupmenn fengu minna greitt fyrir útflutningsvörur en greiddu meira fyrir innflutningsvörur. Af þessu orsakaðist útflæði gulls, sem orsakaði verðhjöðnun og kreppu í Englandi. Þar sem myntin væri gefin út af krúnunni, ætti krúnan (ríkið) að geta ákvarðar gengi myntarinnar. Malynes talaði fyrir ströngum höftum á gjaldeyrismörkuðum og ströngu eftirliti með stórum verslunarfyrirtækjum.

Malynes skrifaði sex rit um efnahagsleg málefni. Hann er þekktastur fyrir "Ritgerð um krankleika auðlegðar Englands," A Treatise of the Canker of Englands Common Wealth (1601) þar sem hann setti fram hugmyndir sínar um erlenda peningamarkaði sem uppsprettu þeirra "sjúkdóma" sem hrjáðu enskt efnahagslíf, og The Center of the Circle of Commerce (1623) sem var svar við skrifum Edward Misselden sem hafnaði hugmyndum Malynes.[2][3]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Gerard de Malynes“. www.hetwebsite.net. Sótt 16. september 2022.
  2. Magnusson, Lars G., „Mercantilism“, A Companion to the History of Economic Thought, Blackwell Publishing Ltd, bls. 46–60, doi:10.1002/9780470999059.ch4
  3. Phillips, William H. (1976-10). „Gerrard De Malynes and the Inverse Cause-Effect Relationship of the Exchange Rate and the Balance of Payments“. The American Economist. 20 (2): 47–50. doi:10.1177/056943457602000208. ISSN 0569-4345.