Fara í innihald

Bríet Bjarnhéðinsdóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Bríet á yngri árum
Bríet eitthvað um þrítugt

Bríet Bjarnhéðinsdóttir (27. september 1856 á Haukagili í Vatnsdal í Austur-Húnavatnssýslu16. mars 1940 í Reykjavík) var íslensk baráttukona fyrir réttindum kvenna, útgefandi og ritstjóri. Hún var kosin bæjarfulltrúi í bæjarstjórnarkosningunum í Reykjavík 1908 (sjá Kvennaframboð í Reykjavík 1908-1916). Hún bauð sig fram til Alþingis, fyrst kvenna. Hefði ekki verið fyrir ný lög um útstrikanir hefði Bríet orðið fyrsta konan til að taka sæti á Alþingi. Hún var gift Valdimari Ásmundssyni ritstjóra Fjallkonunnar. Á Kvenréttindadeginum, þann 19. júní 2011 var minning hennar formlega heiðruð af Reykjavíkurborg.[1]

Bríet ólst að mestu leyti upp á Böðvarshólum í Vesturhópi í Vestur-Húnavatnssýslu. Þegar hún var 24 ára gömul, árið 1880, fór Bríet í Kvennaskólann á Laugalandi í Eyjafirði. Þaðan tók hún burtfararpróf um vorið með eldri deildinni við skólann og var hæst á því prófi. Stúlkum var ekki gefinn kostur á frekari menntun á þeim tíma, og Bríet sneri sér að barna- og unglingakennslu í Þingeyjarsýslu.

Strax sextán ára gömul ritaði hún grein um stöðu kvenna, en sýndi engum fyrr en 13 árum seinna, er hún birtist endurbætt undir heitinu „Nokkur orð um menntun og rjettindi kvenna“ í tímaritinu Fjallkonan í tveimur hlutum [1], 5. júní og 22. júní 1885 undir dulnefninu Æsa.

Haustið 1887 flutti hún til Reykjavíkur og kenndi í heimahúsum, konur sóttu enn hvorki né kenndu í skóla. Þann 30. desember hélt hún opinberan fyrirlestur í Góðtemplarahúsinu um hagsmuni og réttindi kvenna, fyrirlesturinn kom stuttu síðar út á prenti. Um ári seinna, haustið 1888, giftist hún Valdimari Ásmundssyni, ritstjóra Fjallkonunnar. Saman eignuðust þau tvö börn, Laufeyju og Héðin (1892), en hann átti eftir að verða mikilsvirtur stjórnmálaleiðtogi og athafnamaður. Valdimar maður hennar lést skyndilega árið 1902.

Árið 1894 var Bríet ein af stofnendum Hins íslenska kvenfélags. Árið 1895 hóf Bríet útgáfu á Kvennablaðinu[2], hún var jafnframt ritstjóri þess til 1926. Bríet átti hugmyndina að stofnun Blaðamannafélagsins og eiginmaður hennar var meðal stofnfélaga 1897. Milli 1898 og 1903 gaf hún út Barnablaðið.

Bríet var á ferðalagi um Danmörku, Noreg og Svíþjóð árið 1904 og komst þá í kynni við kvenréttindafrömuði. Í gegnum þá frétti Carrie Chapman Catt, sem stofnað hafði Alþjóðakosningaréttarsamtökin (e. The International Woman Suffrage Alliance (IWSA)) í Washington árið 1902 af Bríeti og hófu þær að skiptast á bréfum. Fyrsta þing Alþjóðakosningaréttarsamtakanna var haldið í Berlín 1904 og var Catt kjörin formaður samtakanna. Catt bauð Bríeti að koma á þing samtakanna í Kaupmannahöfn árið 1906, jafnvel þó að engin kvenréttindasamtök væru enn starfrækt á Íslandi. Bríet þáði boðið og flutti á þinginu erindi um réttindi og stöðu kvenna á Íslandi.[2] 1907 var Bríet upphafsmaður að stofnun Kvenréttindafélags Íslands og var formaður frá 1907 til 1911 og aftur milli 1912 og 1927.

Fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í Reykjavík sameinuðust Hið íslenska kvenfélag, Kvenréttindafélag Íslands, Thorvaldsensfélagið, Hvítabandið og Kvenfélagið Hringurinn um að bjóða fram Kvennalista. Bríet var á framboðslistanum og hlaut kosningu ásamt þremur öðrum frambjóðendum hans. Hún sat í bæjarstjórn milli 1908 og 1912 og aftur milli 1914 og 1920.

Árið 1912 kom til landsins gufuvaltari sem var forsenda þess að hægt var að malbika götur Reykjavíkur og þótti það mikil framför. Bríet hafði mælt fyrir kaupunum ásamt Knud Zimsen borgarstjóra. Í endurminningum Knuds segir svo: „Eftir að þetta þarfa tæki var komið, þótti sumum bæjarfulltrúunum maklegt, að það bæri nöfn okkar Bríetar og nefndu það "Bríet Knútsdóttir", en að öllum jafni var föðurnafninu þó sleppt.“[3] Bríet var lengi í notkun og var alþekkt meðal Reykvíkinga. Valtarinn er nú í Árbæjarsafni en var fluttur í Ráðhús Reykjavíkur 24. janúar 2008 vegna sýningar í tilefni af því að öld var þá liðin frá því að konur tóku fyrst sæti í borgarstjórn Reykjavíkur.[4]

1914 var Bríet einn af stofnendum Verkakvennafélagsins Framsóknar. Hún var í 4. sæti landslista heimstjórnarmanna fyrir alþingiskosningar 1916 en vegna útstrikana fór hún niður í 5. sætið. Í þessum kosningum fékk Heimastjórnarflokkur þrjá menn af landslista, efstur á listanum var Hannes Hafstein en hann sótti ekki þingfundi eftir 1918 og kom þá 4. maður á lista heimastjórnarmanna inn í staðinn fyrir hann. Hefði ekki verið fyrir ný lög um útstrikanir hefði Bríet orðið fyrsta konan til að taka sæti á Alþingi.

Hún hlaut riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu árið 1928. Hún var fyrsta nafngreinda konan á frímerki á Íslandi, árið 1978.

Bríetartún, áður Skúlagata

[breyta | breyta frumkóða]

Í nóvember 2010 tilkynnti Skipulagsráð Reykjavíkurborgar að nafni Skúlagötu í Reykjavík skyldi breytt í Bríetartún til að heiðra minningu Bríetar Bjarnhéðinsdóttur. Um leið var samþykkt að breyta nafni þriggja annarra gatna í Túnahverfi til heiðurs öðrum baráttukonum fyrir kvenréttindum. Nafni Höfðatúns í Katrínartún (til heiðurs Katrínu Magnússon, nafni Sætúns í Guðrúnartún (til heiðurs Guðrúnu Björnsdóttur) og nafni Skúlatúns í Þórunnartún (til heiðurs Þórunni Jónassen). Þessar fjórar konur voru þær fyrstu sem náðu kjöri til bæjarstjórnar Reykjavíkur.[5]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Baráttukvenna fyrir kvenfrelsi minnst á kvenréttindadaginn
  2. „Kvennasögusafn Íslands - Alþjóðabaráttan fyrir kosningarétti“. Afrit af upprunalegu geymt þann 12. nóvember 2011. Sótt 8. júní 2011.
  3. Úr bæ í borg. Endurminningar Knuds Ziemsen. Helgafell, Reykjavík 1952.
  4. Kvennaslóðir.is.[óvirkur tengill] Sótt 8. október 2010.
  5. Kvenskörungarnir fá nöfnin sín á göturnar þrátt fyrir hörð mótmæli íbúa og fyrirtækja Geymt 26 nóvember 2010 í Wayback Machine Frétt Pressunnar af ákvörðun Skipulagsráðs, sótt 23. nóvember 2010.

Blaða- og tímaritsgreinar