Kvennasögusafn Íslands

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Kvennasögusafn Íslands er íslenskt safn sem safnar upplýsingum um sögu kvenna á Íslandi og réttindabaráttu kvenna. Safnið miðlar þekkingu um kvennasögu og rannsóknir og aðstoðar þau sem til þess leita við öflun heimilda.

Safnið var stofnað 1. janúar 1975. Það hefur aðsetur í Þjóðarbókhlöðunni og hefur verið sérstök eining innan Landsbókasafn Íslands-Háskólabókasafns síðan 1996. Helstu forsprakkar að stofnun safnsins voru Anna Sigurðardóttir og bókasafnsfræðingarnir Else Mia Einarsdóttir og Svanlaug Baldursdóttir. Anna hafði lengi safnað gögnum um sögu kvenna og varð hún fyrsta forstöðukona safnsins og var safnið til húsa á heimili hennar við Hjarðarhaga í Reykjavík fyrstu árin.

Markmið Kvennasögusafns Íslands eru númer eitt að safna og varðveit hvers konar prentað mál um konur að fornu og nýju, bækur og handrit eftir konur, óprentuð handrit og önnur skjöl eins og fundargerðir, starfsskýrslur, skjöl, og erlend rit sem hafa gildi fyrir sögu kvenna. Einnig að sjá til þess að skráð sé allt sem safnið eignast til að mynda heimildir um sögu kvenna sem er að finna annars staðar. Til að greiða fyrir áhuga fólks um sögu íslenskra kvenna og veita aðstoð við að afla heimilda og miðla þekkingu um sögu kvenna. Síðast en ekki síst, þá hvetur safnið fólk til að halda til haga hvers konar heimildum sem kunna að hafa þýðingu fyrir sögu kvenna og að eiga samvinnu við kvennasögusöfn í öðrum löndum.

Í stjórn safnsins eru Rakel Adolphsdóttir forstöðukona safnsins og þriggja manna stjórnarnefnd skipa:

  • Bragi Þorgrímur Ólafsson, fulltrúi Landsbókasafns Íslands-Háskólabókasafns
  • Vilborg Eiríksdóttir, fulltrúi Kvennafélagssambands Íslands
  • Ragnheiður Kristjánsdóttir, fulltrúi RIKK-Rannsóknarstofnun í jafnréttisfræðum

Fyrrum forstöðukonur safnsins voru Anna Sigurðardóttir (1975-1996), Erla Hulda Halldórsdóttir (1996-2001) og Auður Styrkársdóttir (2001-1016)

Tengill[breyta | breyta frumkóða]