Héðinn Valdimarsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Héðinn Valdimarsson (26. maí 189212. september 1948) var íslenskur stjórnmálamaður og verkalýðsforingi.

Héðinn var sonur Valdimars Ásmundssonar, ritstjóra, og Bríetar Bjarnhéðinsdóttur, kvenréttindafrömuðar og bæjarfulltrúa. Systir hans var Laufey Valdimarsdóttir.

Héðinn gekk í Menntaskólann í Reykjavík og lauk svo hagfræðinámi við Kaupmannahafnarháskóla 1917. Eftir að Héðinn sneri heim vann hann hjá Landsverslun í níu ár. Héðinn stofnaði og rak Tóbaksverslun Íslands hf. (1926-29) og Olíuverzlun Íslands hf. (1927). Hann var þingmaður fyrir Alþýðuflokkinn en átti síðar þátt í stofnun Sameiningarflokks alþýðu - Sósíalistaflokksins 1938 ásamt Kommúnistaflokknum. Héðinn sat á Alþingi frá 1926-1942.[1]

Héðinn var formaður Verkamannafélagsins Dagsbrúnar í fjögur skipti eða í samtals 13 ár á árabilinu 1922-1941 og formaður Byggingafélags verkamanna (nafni félagsins var síðar breytt í Byggingafélag alþýðu en heitir nú Húsfélag alþýðu) um árabil og var einn helsti hvatamaður að byggingu verkamannabústaða í Reykjavík. Hann lagði fram frumvarp til laga um verkamannabústaði árið 1933.[2] Byggingafélag alþýðu lét gera styttu af Héðni og var hún reist á Hringbraut í Reykjavík í nánd við verkamannabústaðina. Sigurjón Ólafsson myndhöggvari var höfundur styttunnar og var hún sett upp í október árið 1955.[3]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Alþingi, Æviágrip - Héðinn Valdimarsson
  2. Skjaladagur.is, „Byggingafélag verkamanna í Reykjavík“ (skoðað 2. febrúar 2020)
  3. Listasafn Reykjavíkur, „Safneign - Héðinn Valdimarsson“ (skoðað 2. febrúar 2020)