Fara í innihald

Vesturhóp

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Vesturhóp er sveit í Vestur-Húnavatnssýslu og liggur út að Húnaflóa austan við Vatnsnes. Sunnan við Vesturhóp er Víðidalur en austan við sveitina er Hóp, fimmta stærsta stöðuvatn landsins. Annað stórt stöðuvatn, Vesturhópsvatn, er í miðri sveit og norðar er enn eitt allstórt vatn, Sigríðarstaðavatn. Þess hefur verið getið til að það hafi áður einnig heitið Hóp eða Vesturhóp og sveitin hafi fengið nafn af því.

Vesturhóp er grösugur, grunnur og víður dalur sem liggur austan við Vatnsnesfjöll en næst sjónum eru allmiklir sandar, Sigríðarstaðasandur, austur að Bjargaós, sem er útfall Hópsins. Austan til í sveitinni eru langir hálsar og ásar með klettabeltum. Sá nyrsti endar í Nesbjörgum út við Bjargaós.

Þekktasti bærinn í Vesturhópi er Breiðabólstaður, sem er vestan við sunnanvert Vesturhópsvatn, kirkjustaður og áður prestssetur þar sem oft sátu miklir merkisklerkar. Þar hófst ritöld á Íslandi með skrásetningu laga veturinn 1117-1118 og um 420 árum síðar var þar fyrsta prentsmiðja landsins.

Austan við Vesturhópsvatn er blágrýtisstapi sem kallast Borgarvirki, 177 metra hár og er þaðan víðsýnt og gott að grípa til varna. Þar eru rústir af fornu virki en enginn veit hver hlóð það eða hvers vegna þótt þjóðsögur hermi að Víga-Barði Guðmundsson, sem frá segir í Heiðarvíga sögu og bjó í Ásbjarnarnesi við Hópið, hafi látið reisa það. Virkisveggirnir voru endurhlaðnir 1949-1950.

Vesturhóp og Vesturhópsvatn.
Vesturhóp og Vesturhópsvatn.

Norðan við Borgarvirki, á milli Hóps og Vesturhópsvatns, er bærinn Stóra-Borg. Þar er fornkappinn Finnbogi rammi sagður hafa búið um tíma, áður en hann hrökklaðist norður í Trékyllisvík.

Við norðurenda Vesturhópsvatns er bærinn Vatnsendi, sem skáldkonan Rósa Guðmundsdóttir er oft kennd við, og bjó hún þar um tíma með Ólafi manni sínum og Natani Ketilssyni ástmanni sínum.

  • „Hringferð um Vatnsnes og Vesturhóp. Þjóðviljinn, 28. júlí 1974“.
  • „Í Vesturhópi. Lesbók Morgunblaðsins, 14. ágúst 1949“.