Fara í innihald

Aaron Burr

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Aaron Burr jr.)
Aaron Burr

Aaron Burr jr. (6. febrúar 1756 í Newark í New Jersey14. september 1836 á Staten Island) var þriðji varaforseti Bandaríkjanna, (18011805) undir Thomas Jefferson og var fyrsti varaforsetinn sem ekki varð forseti Bandaríkjanna. Hann barðist í frelsisstríðinu og gegndi mikilvægu pólitísku hlutverki í árdaga Bandaríkjanna.

Stjórnmálaferill

[breyta | breyta frumkóða]

Aaron Burr var lögfræðingur að mennt og fylgdi flokki demókratískra repúblikana í New York að málum. Hann sat á fylkisþingi New York 1784 –1785 og 17981799, var dómsmálaráðherra fylkisins 1789 – 1791 og öldungardeildarþingmaður á Bandaríkjaþingi 17911797. Burr var í framboði til forsetaembættisins árið 1800 og urðu hann og Thomas Jefferson jafnir, með 73 kjörmenn hvor. Það kom því til kasta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings að kjósa á milli Burr og Jefferson. Á þessum tíma giltu aðrar reglur en nú um kosningu forseta og varaforseta, þannig að sá sem varð í fyrsta sæti varð forseti en sá sem lenti í öðru sæti varð varaforseti. Þetta þýddi að í þessum tveimur æðstu embættum gátu setið menn sem ekki tilheyrðu sama flokki (þessu var breytt með stjórnarskrárbreytingu 1804). Eftir 36 atkvæðagreiðslur í þinginu var Jefferson loks kosinn forseti en Burr varaforseti.

Aaron Burr beið lægri hlut í kosningum til fylkisstjóra New York 1804. Í þeim kosningum var Burr gagnrýndur hart af Alexander Hamilton en þeir höfðu lengi eldað grátt silfur saman í stjórnmálum. Eitt sinn voru þeir báðir, Burr og Hamilton, gestir í veislu og móðgaðist Burr við Hamilton og skoraði hann á hólm í einvígi. Einvígið fór fram 11. júlí 1804 og særði Burr Hamilton til ólífis. Burr var ákærður fyrir morð, bæði í New York og New Jersey, en ákærurnar voru seinna látnar niður falla. Einvígið sætti hins vegar það mikilli gagnrýni, að það eyðilagði frekari frama Burrs í stjórnmálum. Eftir nokkurra ára sjálfskipaða útlegð erlendis flutti Burr aftur til New York og stundaði lögfræðistörf en lifði að öðru leyti kyrrlátu lífi til dauðadags án frekari þátttöku í stjórnmálum.