Íslenskar myndasögur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Íslenskar myndasögur eru myndasögur gefnar út á Íslandi fyrir íslenskan lesendahóp. Íslenskar myndasögur voru lengst framan af lítið áberandi í íslensku menningarlífi og hafa að mestu verið bundnar við skopmyndir og stuttar myndasögur sem hafa birst í dagblöðum og tímaritum. Örfáar íslenskar myndasögubækur hafa verið gefnar út og flestar eru safn þeirra skopmynda sem áður hafa birst í dagblöðum og tímaritum.

Þekktir íslenskir myndasöguhöfundar eru Gísli J. Ástþórsson (Sigga Vigga), Kjartan Arnórsson (Pétur og vélmennið og Kafteinn Ísland) og Hugleikur Dagsson (Eineygði kötturinn Kisi). Af íslenskum myndasögutímaritum má nefna Gisp 1990-1999 og NeoBlek sem hefur komið út frá 2005.

Saga íslenskra myndasagna[breyta | breyta frumkóða]

Myndasöguformið barst seint til Íslands, hvort sem horft er til innlendra verka eða þýðinga á erlendum verkum. Fram á síðustu ár hafa innlendar myndasögur verið jaðarfyrirbæri í íslenskri útgáfu og enn þykir tíðindum sæta þegar ný myndasöguverk koma út. Saga íslenskra myndasagna er brotakennd og stundum líða áratugir milli verka einstakra frumkvöðla.

Í Evrópu þróaðist myndasagan sem sjálfstæð listgrein í sérstökum aukablöðum fyrir börn sem stóru dagblöðin gáfu út á millistríðsárunum. Sá tími markar hins vegar upphaf skopmyndagerðar á Íslandi, áratugum síðar en í nágrannalöndunum. Þýddar myndasögur tóku fyrst að birtast í íslenskum dagblöðum á stríðsárunum og eiginlegar myndasögur eftir íslenska höfunda sáust ekki fyrr en í kringum 1960.

Skopmyndir í tímaritum (1920-1940)[breyta | breyta frumkóða]

Fyrsta íslenska myndasagan hefur verið talin vera klippiverkið Tre yndige smaapiger eftir Mugg (Guðmund Thorsteinsson) frá 1921[heimild vantar]. Skopmyndir þar sem skopast var að þjóð og þekktum einstaklingum í þjóðfélaginu fóru að líta dagsins ljós á Íslandi á 19. öld; þekktar eru skopmyndir frá Íslandi eftir Jörund hundadagakonung og eins voru slíkar myndir gefnar út á póstkortum síðar á 19. öldinni og í byrjun þeirrar 20.. Fyrstur til að helga sig skopmyndagerð af alvöru var Tryggvi Magnússon en myndir eftir hann birtust á 3. áratugnum í Stúdentablaðinu og síðar í Speglinum. Kattafarganið sem Tryggvi Magnússon teiknaði í tímaritið Spegilinn 1930 er gott dæmi um þróun íslenskra myndasagna og skopmynda í upphafi. Ef hægt er að tala um hefð íslenskra myndasagna, þá helst að hún hefur þróast út frá íslenskum skopmyndum.

Myndasyrpur og ádeilumyndir í dagblöðum (1940-1970)[breyta | breyta frumkóða]

Fyrstu „myndasögurnar“ sem birtust á íslensku voru myndskreyttar sögur sem birtust á hálfsíðu aftast í Æskunni frá 1930 þar sem textinn var fyrir neðan myndirnar. Þar birtust á 4. áratugnum myndskreyttar útgáfur af 1001 nótt, Skyttunum þremur og draumsagan Galdrakarlinn góði. 1946 birtist svo Bjössi bolla (Smörbukk eftir Jens R. Nilssen) í fyrsta skipti og í kjölfarið fylgdu fleiri norrænar myndasögur. Myndasyrpa með myndasögum um Tarzan eftir Hal Foster hóf göngu sína í Vísi um 1932.

Bandarísk hasarblöð bárust til Íslands í seinni heimstyrjöld og á sama tíma hófu íslensku dagblöðin að birta myndasögur á borð við Örn eldingu (Rex Baxter) eftir Edmond Good (Alþýðublaðið 1942), X 9 (Secret Agent X-9) eftir Robert Storm (Morgunblaðið 1943) Valla víðförla (Pinky Rankin) eftir Dick Briefer (Þjóðviljinn 1945), Kjarnorkumanninn (Superman) eftir Jerry Siegel og Joe Shuster (Vísir 1945) og Kátir voru karlar (Katzenjammer Kids) eftir Rudolph Dirks (Tíminn 1945). Þessar sögur birtust sem einnar línu myndasyrpur þar sem enski textinn var látinn halda sér í talblöðrum og römmum en þýðingin birt sem texti fyrir neðan hvern myndaramma. Margir söfnuðu þessum sögum í úrklippubækur. Með tímanum fjölgaði syrpunum í blöðunum svo að þær fylltu jafnvel heila síðu og undir lok 8. áratugarins sáust í fyrsta sinn sérstök litprentuð aukablöð með myndasögum.

Árið 1959 birtist í Morgunblaðinu myndasagan Njálsbrenna og hefnd Kára þar sem Halldór Pétursson gerði myndasögu við styttan texta hluta Njáls sögu. Fyrstu íslensku myndasögurnar sem birtust reglulega í dagblöðum voru Sigga Vigga eftir Gísla J. Ástþórsson og Láki og lífið eftir Ragnar Lár. Þetta voru stuttar skrýtlur eða háðsádeila í einni mynd eða 2-3 mynda syrpu sem birtust reglulega í dagblöðunum á 6. og 7. áratugnum. Elsta dæmið um hugsanablöðru í íslenskri myndasögu er hugsanlega Láki og lífið í Þjóðviljanum 31. janúar 1960 og fyrsta dæmið um talblöðru í sömu myndasögu 3. febrúar sama ár. Fyrsta íslenska framhaldssagan á formi myndasyrpu var líklega Ævintýri Ása-Þórs eftir Harald Guðbergsson sem birtist reglulega í Lesbók Morgunblaðsins frá 9. ágúst 1964. Ævintýri Ása-Þórs var ekki með talblöðrum heldur texta fyrir neðan myndirnar fyrst og síðan inni á myndum. Í vikublaðinu Nýjum Stormi birtust árið 1965 til 1966 framhaldsmyndasögur merktar Jóni Axel Egils eftir hinni vinsælu norsku skáldsögu Bör Börsson.

Myndasögubækur og myndasögublöð (1970-2000)[breyta | breyta frumkóða]

Evrópskar bókaraðir eins og Ævintýri Tinna, Ástríkur gallvaski og Lukku Láki komu út í íslenskum þýðingum upp úr 1970 hjá bókaforlaginu Fjölva og nokkrum árum síðar hóf Iðunn útgáfu myndasagna frá belgíska forlaginu Dupuis um Sval og Val og Viggó viðutan.

Kringum árið 1980 fóru fyrstu íslensku myndasögurnar í bókarformi að líta dagsins ljós. Fyrsta íslenska myndasögubókin telst vera Pétur og vélmennið: Vísindaráðstefnan sem Kjartan Arnórsson gaf út árið 1979. Hann var þá aðeins fjórtán ára gamall. Haraldur Guðbergsson gaf út tvær myndasögur árið 1980, Baldursdraumur og Þrymskviða. Sama ár var fyrsta íslenska teiknimyndin sýnd, Þrymskviða eftir Sigurð Örn Brynjólfsson.

Myndasögublöð á borð við Tarzan og Andrés Önd tóku að birtast í íslenskum þýðingum, Tarzan árið 1979 og Andrés Önd 1983, en íslenskar útgáfur af bandarískum hasarblöðum eins og Kóngulóarmaðurinn og Batman og Robin sáust fyrst seint á 9. áratugnum. Goðsögn, sérverslun með myndasögur, hlutverkaspil og fleira, opnaði við Rauðarárstíg 1993 og arftaki hennar, Nexus, var stofnuð 1996.

Fyrsta tímaritið sem var helgað íslenskum myndasögum var tímaritið Bandormur sem kom út óreglulega frá 1982. Tímaritið GISP! hóf göngu sína 1990 og fóru hópurinn í kringum tímaritið seinna að tengja útgáfuna við sýningar á íslenskum myndasögum, oftast ásamt erlendum þýddum myndasögum.

Íslenskar myndasögur í dagblöðum og tímaritum[breyta | breyta frumkóða]

1959 birtust myndskreytingar Halldórs Péturssonar við hluta Njáls sögu undir heitinu Njálsbrenna og hefnd Kára í Morgunblaðinu.[1]

Árið 1959 hóf Sigga Vigga og tilveran eftir Gísla J. Ástþórsson göngu sína í Alþýðublaðinu.[2] Upphaflega voru þetta stakar myndir með texta undir með ádeilu á íslenskt þjóðfélag frá sjónarhóli fiskverkakonu, en fljótlega þróaðist það út í 2-3 mynda myndasöguborða sem þó voru oftast án talblaðra. Sigga Vigga birtist í blaðinu til 1965. Hluti þessara sagna auk fjölda nýrra birtist endurteiknaður í vasabókarbroti 1978 til 1980.

Láki og lífið voru ádeilumyndir eftir Ragnar Lár sem birtust í Þjóðviljanum árið 1960.[3] 1965 gaf höfundur þær sjálfur út á bók.

1961 var Birgir Bragason fenginn til að teikna endi á söguna Markús (Mark Trail eftir Ed Dodd) í Morgunblaðið. Hann teiknaði raunar tvenn möguleg sögulok í blaðið[4].

Framhaldssagan Ævintýri Ása-Þórs eftir Harald Guðbergsson birtist í Lesbók Morgunblaðsins 1964[5] ogSæmundur fróði eftir sama höfund birtist í tímaritinu Fálkanum 1965[6]. 1966 birtist svo Gylfaginning í Lesbókinni.[7]

Árið 1966 birtist framhaldssagan Stebbi stælgæ eftir Birgi Bragason í Tímanum.[8] Í sögunni er fylgst með rokkaranum Stebba þar sem hann flakkar um tímann frá fornöld til miðalda, en endaði fremur snubbótt með aftöku aðalsöguhetjunnar, þar sem Birgir var þá orðinn leiður á verkefninu.

Stígur Steinþórsson birti myndasöguna Luba í Þjóðviljanum 1975, en hann var þá 15 ára[9]. Þetta var vísindaskáldsaga undir áhrifum frá bandarískum neðanjarðarmyndasögum. 1978 birtist eftir hann sagan Guðaborgir í tíu hlutum í blaðinu[10].

Frá 1974 til 1979 sá Vilborg Dagbjartsdóttir um Kompuna, vikulega síðu með aðsendu efni frá börnum og unglingum í Þjóðviljanum[11]. Þar birtist töluvert af myndasögum, meðal annars fyrstu verk Kjartans Arnórssonar[12]. 1976 til 1979 var Morgunblaðið með barna- og fjölskyldusíðu[13] þar sem líka birtust reglulega myndasögur eftir Bjarna Hinriksson, Þór Hauksson, Friðrik G. Sturluson og fleiri.

Árin 1977 og 1978 birtist myndasagan Bísi og Krimmi eftir SÖB (Sigurð Örn Brynjólfsson) í Dagblaðinu[14].

Árið 1982 birtist reglulega í Þjóðviljanum myndasagan Öldungar á flakki eftir Emil H. Valgeirsson og Hallgrím Óla Hólmsteinsson[15]. Sama ár hóf Svínharður smásál eftir Kjartan Arnórsson göngu sína í Þjóðviljanum og gekk til 1985[16]. Ein persóna úr sögunum, Kafteinn Ísland, varð síðar efni í myndasögubók sem kom út 1990.

Síðla árs 1984 birtist sagan Ferðin til Vínlands eftir Kristján J. Guðnason í Þjóðviljanum, henni var ætlað að rekja sögu landafunda norrænna manna á Grænlandi en birtingu lauk snögglega eftir níu blöð.

Árið 1994 gekk myndasagan Silfurskottumaðurinn eftir Sjón og Steingrím Eyfjörð í vikublaðinu Eintaki. Þetta var hálfsíða með súrrealískum sögum[17].

Búi Kristjánsson gerði tvær myndasögur byggðar á Íslendingasögum fyrir Lesbók Morgunblaðsins á 10. áratug 20. aldar. Laxdæla birtist sem heilsíðuframhaldssaga 1993-1994[18] og Egils saga sem Búi gerði í samstarfi við Jón Karl Helgason, birtist í föstudagsblaði Morgunblaðsins 1996-1997[19]. Laxdæla kom síðar út á bók.

Frá 1998 til 2000 gekk hálfsíðumyndasagan Grim eftir Hallgrím Helgason í vikuriti DV, Fókus[20]. Árið 2004 sneri persónan aftur sem myndaborði í Fréttablaðinu[21]. Hluti af sögunum kom út í bókinni Best of Grim árið 2004.

Amma Fífí voru myndasögur (bæði ein mynd og myndasyrpa) eftir Halldór Baldursson og Þorstein Guðmundsson sem birtist í Fókus 2002-2003.

Árin 2004 og 2005 birtust í Fréttablaðinu myndasyrpan Pú og Pa eftir SÖB með persónum sem Sigurður hafði þróað fyrir jóladagatal Ríkissjónvarpsins 1994.

Frá 2008 hafa birst myndasögur eftir Lóu Hjálmtýsdóttur undir heitinu Lóaboratoríum í Reykjavík Grapevine.

Frá 2017 hefur Elín Elísabet teiknað sjálfsævisögulegar myndasögur í Reykjavík Grapevine.

Íslenskar myndasögubækur[breyta | breyta frumkóða]

Íslensk bókaforlög hafa verið treg að gefa út myndasögubækur eftir íslenska höfunda og því hafa þeir neyðst til að gefa út bækurnar sjálfir og dreifa. Bækurnar eru því gefnar út í mjög takmörkuðu magni og eru ekki áberandi í bókabúðum eða fjölmiðlum fyrir vikið. Seinni árin hefur þetta þó batnað og íslensk forlög hafa verið opnari fyrir íslenskum myndasögum.

Fyrsta skráða myndasagan sem var gefin út í bók var lítill bæklingur sem nefndist Láki og lífið eftir Ragnar Lár og kom út 1965. Í bæklingnum voru skopmyndir sem höfðu birst í Þjóðviljanum árið 1960 af Láka og sýn hans á íslenskt þjóðlíf. Sigga Vigga eftir Gísla J. Ástþórsson hóf göngu sína í Alþýðublaðinu 1959 og var fastur liður út allan 7. áratuginn en kom fyrst út á bók 1978 endurteiknuð. Upphaflega var Sigga Vigga stakar skopmyndir en hún þróaðist út í að verða myndaborði með 2-3 myndum sem mynduðu eina heild.

Fyrsta íslenska myndasögubókin (þar sem ein saga fyllir heila bók) var Pétur og vélmennið: Vísindaráðstefnan sem Kjartan Arnórsson gaf út árið 1979, en hann var þá aðeins 14 ára. Hann fylgdi bókinni eftir tveimur árum síðar með Pétur og vélmennið: frosinn fjarsjóður. Það sama ár kom út bók eftir Emil H. Valgeirsson og Hallgrím Óla Hólmsteinsson sem bar nafnið Flauga-spaug: ýmsar tilraunir til eldflaugaskota.

Árið 1980 komu út tvær myndasögubækur eftir Harald Guðbergsson, Baldursdraumur og Þrymskviða.

Árið 1985 gaf Björgvin Ólafsson út bókina Ævintýri burstasölumanns: splunkuný, ekta, alvöru myndasaga og árið 1990 eignuðust Íslendingar sína fyrstu ofurhetju Kaftein Ísland í bók Kjartans Arnórssonar, Kafteinn Ísland: hvernig Fúsi Ánason verður hetja dagsins!.

1989 kom út bókin 1937 eftir Þorra Hringsson og Sjón; saga um uppgang nasismans í ligne claire-stíl.

Dæmi um sjálfsútgáfu er bók Kristjáns Jóns Guðnasonar Óhugnalega plánetan sem að hann gaf út árið 1992. Fimmtán árum síðar, árið 2007, gaf hann svo út aðra bók sína Edensgarðurinn.

Búi Kristjánsson hefur sótt efni sitt til Íslendingasagnanna og árin 1993-4 gaf hann út tvö bindi byggð á Laxdælu sem höfðu áður birst sem heilsíður í Lesbók Morgunblaðsins. 1996-1997 birtist framhaldssaga eftir hann og Jón Karl Helgason byggð á Egils sögu vikulega í blaðinu.

Kápa Blóðregns (2004)

Ingólfur Örn Björgvinsson og Embla Ýr Bárudóttir gáfu út fjórar myndasögur byggðar á Njáls sögu 2003-2007; Blóðregn (2003), Brennan (2004), Vetrarvíg (2005) og Hetjan (2007).

Bjarni Hinriksson, sem átti sögur í myndasögutímaritinu Gisp!, gaf út fyrstu bók sína Stafrænar fjaðrir árið 2003 og fylgdi því eftir með bókinni Krassandi samvera, sem var samin ásamt Dönu Jónsson, árið 2005.

Jean Antoine Posocco öðru nafni Jan Pozok og Sigrún Edda Björnsdóttir unnu saman að myndasögubók um íslensku jólasveinana, Rakkarapakk, sem kom út árið 2005. Hann fylgdi því eftir eins sins liðs með bókina Úrg Ala Buks Unum árið 2006. Árið 2007 gáfu Jan Pozok og Sveinn Sveinsson bókina Skuggi Rökva út.

Hugleikur Dagsson gaf út sína fyrstu myndasögubók með skopteikningum árið 2005 Forðist okkur og hefur fylgt því eftir með bókunum Bjargið okkur (2005), Fermið okkur (2006), Fylgið okkur (2006), Ókei bæ (2007), Kaupið okkur (2007) og Jarðið okkur (2008). Fyrsta myndasögubókin í fimm bóka röð um eineygða köttinn Kisa, Eineygði kötturinn Kisi og hnakkarnir kom út árið 2006. Garðarshólmi kom fyrst út í Símaskránni 2008 og 2009 en var endurútgefin í bók árið 2010.

Íslensk myndasögutímarit[breyta | breyta frumkóða]

Spegillinn var fyrsta skopmyndatímaritið og birtust þar við og við stuttar myndasyrpur eftir Tryggva Magnússon, Bjarna Jónsson og Halldór Pétursson, einkum þó eftir að Ási í Bæ tók við ritstjórn 1968 og Ragnar Lár og Haraldur Guðbergsson hófu að teikna fyrir tímaritið.

Fyrsta eiginlega myndasögutímaritið sem gefið var út á Íslandi hét Bandormur og kom út árið 1982. Blaðið var neðanjarðarblað og því eru til mjög fá eintök á bókasöfnum. Þeir sem stóðu fyrir útgáfu blaðsins voru Ómar Stefánsson, Óskar Thorarensen og Vilmundur Hansen.

Tímaritið GISP! (Guðdómleg Innri Spenna og Pína) var gefið út af öðrum hóp og fóru þeir seinna að tengja útgáfuna við sýningar á íslenskum myndasögum, oftast ásamt myndasöguhöfundum frá öðrum löndum. Fyrsta eintak GISP kom út árið 1990. Þeir sem stóðu að útgáfu blaðsins voru Bjarni Hinriksson, Halldór Baldursson, Jóhann Torfason og Þorri Hringsson, en fleiri birtu þar myndasögur, þar á meðal Gunnar Hjálmarsson, Freydís Kristjánsdóttir, Bragi Halldórsson og Þórarinn B. Leifsson. Alls komu út sjö blöð óreglulega til 1999. 1992 kom út bók með íslenskum og erlendum myndasögum í tengslum við myndasögusýningu á Kjarvalsstöðum sama ár, og árið 2005 kom út (Gisp!): nían í tengslum við myndasögumessu í Listasafni Reykjavíkur.

Hasarblaðið Blek kom fyrst út árið 1996. Frá 2005 hefur það komið út undir heitinu NeoBlek. Jean Posocco er ritstjóri blaðsins.

Myndasögublaðið Skríbó var gefið út árið 1996.

Myndasögublaðið Zeta var gefið út af NordicComics árin 2000-2002 og var helsti drifkrafturinn Búi Kristjánsson. Innihald blaðsins var að mestu franskar teiknimyndasögur ásamt einstaka íslenskri myndasögu. NordicComics fékkst líka við útgáfu íslenskra þýðinga af frönskum myndasögum.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]