Fara í innihald

Bókaútgáfan Iðunn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Iðunn (bókaforlag))

Bókaútgáfan Iðunn er íslenskt bókaforlag sem var stofnað 1945 af Valdimar Jóhannssyni, og starfaði sjálfstætt allt til ársins 2000 en er nú hluti af Forlaginu.

Iðunn gaf út mikinn fjölda bóka, bæði undir heiti Iðunnar og undirforlaganna Hlaðbúðar, Skálholts og Draupnisútgáfunnar. Það hafði framan af aðsetur á Skeggjagötu en fluttist 1976 á Bræðraborgarstíg 16. Útgáfubækur forlagsins voru af öllu tagi, frá fræðiritum til þýddra reyfara, og á meðal þeirra höfunda sem forlagið gaf út voru Alistair MacLean, en spennusögur hans voru mest seldu bækur landsins ár eftir ár á 7. og 8. áratug 20. aldar, og Enid Blyton, sem var í svipaðri stöðu hvað barnabækur varðaði. Þekktasta útgáfuverk Iðunnar er þó vafalítið bókaflokkurinn Aldirnar, en fyrsta bókin í þeim flokki, Öldin okkar 1901-1930, kom út árið 1950 og sú nýjasta, Öldin okkar 1996-2000, kom út árið 2010, réttum 60 árum síðar.

Útgáfan var einnig umsvifamikil á sviði teikmimyndasagna um tíma og gaf út marga flokka þeirra, svo sem Sval og Val, Viggó viðutan og Strumpana.

Árið 2000 sameinaðist Iðunn útgáfufyrirtækinu Fróða og varð bókaútgáfudeild þess. 2003 seldi Fróði forlagið til Eddu miðlunar og 2007 gekk Iðunn svo, ásamt öðrum forlögum, til Forlagsins, en forstjóri þess, Jóhann Páll Valdimarsson, er sonur Valdimars stofnanda Iðunnar. Enn koma út nokkrar bækur á ári undir nafni Iðunnar.