Íslensku jólasveinarnir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Íslensku jólasveinarnir eru jólavættir af tröllakyni og voru upphaflega hafðir til að hræða börn dagana fyrir jól. Foreldrar þeirra eru Grýla og Leppalúði og er Jólakötturinn húsdýrið þeirra. Upprunalega voru þeir ekkert í líkingu við alþjóðlega jólasveininn eins og hann birtist í dag, síðskeggjaður, klæddur rauðum fötum og gefandi krökkum gjafir. En á 20. öldinni runnu þeir smámsaman saman við hann með tímanum og í dag eru þeir ekki sömu tröllin eins og þeim er upphaflega lýst.

Hugmyndir um útlit jólasveinanna hefur verið breytilegt í gegnum aldirnar. Í fyrstu eru þeir taldir tröllum líkir. Þeim var líst að þeir væru klofnir upp í háls, með klær fyrir fingrum, kringlótta fætur og engar tær. Þeir voru sagðir illir að eðlisfari og líkastir púkum og lifa mest á blótsyrðum manna og óvönduðum munnsöfnuði. Þeir voru sagðir rógsamir og rángjarnir, einkum á börn. Síðar í nokkurnvegin mannsmynd en stórir, ljótir og luralegir.

Smámsaman tóku þeir þó á sig nokkuð eðlilega mannsmynd og má telja líklegt að myndir Tryggva Magnússonar við jólsveinakvæði Jóhannesar úr Kötlum endurspegli nokkuð hugmyndir manna um þá á þessu síðasta skeiði. Upp úr aldamótum 1900 taka þeir hinsvegar smám saman að fá æ meiri svip af fyrirmynd hins alþjóðlega jólasveins, heilögum Nikulási, bæði hvað snertir útlit, klæðaburð og innræti. Þeir verða vinir barnanna, færa þeim gjafir, syngja fyrir þau og segja sögur sem þeir hefðu aldrei gert hér áður fyrr. Mun kaupmannastéttin beint eða óbeint hafa stuðlað mjög að þessu með því að nota þá í jólaauglýsingum að erlendri fyrirmynd. Þessi þróun hófst fyrst í bæjum, en miklu síðar í sveitum.

Uppruni íslensku jólasveinanna[breyta | breyta frumkóða]

Orðið jólasveinn hefur ekki fundist í íslenskum textum eldri en frá 17. öld, í Grýlukvæði sem eignað er síra Stefáni Ólafssyni í Vallanesi og er eftirfarandi:

Börnin eiga þau bæði saman
brjósthörð og þrá.
Af þeim eru jólasveinar
börn þekkja þá.
Af þeim eru jólasveinar
jötnar á hæð.
Öll er þessi illskuþjóðin
ungbörnum skæð.

Heimildir frá 18. öld benda til þess að þeir hafi verið notaðir til að hræða börn til hlýðni, líkt og óvætturin Grýla. Í Tilskipun um húsagann á Íslandi frá 1746 segir að nú skuli „sá heimskulegi vani, sem hér og þar skal hafa verið brúkanlegur í landinu, að hræða börn með jólasveinum eða vofum aldeilis vera afskaffaður“. Það er ekki fyrr en líða tekur á 19. öld sem jólasveinarnir taka eilítið að mildast. Þá taka menn að efast um, að þeir séu börn Grýlu, og þeir eru ekki lengur taldir mannætur, en þó bæði hrekkjóttur og þjófóttir eins og sum nöfn þeirra benda til. Eimdi sumstaðar eftir af þeim skilningi langt fram á 20. öld.

Elstu heimildir minnast ekkert á, hversu margir jólasveinarnir voru. Þó er í Grýlukvæði frá síðara hluta 18. aldar þetta erindi:

Löngum leiðir beinar
labba jólasveinar
þessa þjóðir hreinar
þrettán saman meinar
oft sér inni leyna
illir mjög við smábörnin

(Sbr. Jón Samsonarson 1979:164).

Þetta er því eldri heimild en Þjóðsögur Jóns Árnasonar frá 1862 um töluna 13, en bæði þar og í síðari heimildum er annars mjög misjafnt, hversu margir þeir virðast taldir oftast þó 9 eða 13. Hversu margir jólasveinarnir voru taldir var einnig misjafnt eftir landshlutum.

Nöfn íslensku jólasveinanna[breyta | breyta frumkóða]

Í fyrstu útgáfu af Þjóðsögum Jóns Árnasonar koma nöfn jólasveinana fyrst fyrir á prenti. Jón hafði kringum 1860 fengið þrjár nafnarunur með heitum á jólasveinum. Ekki er alveg ljóst í hvaða röð hann fær þær, en hér eru þær nefndar eftir aldri heimildarmanna hans. Hinn elsti þeirra er síra Páll Jónsson, fæddur 1812 og alinn upp fram yfir tvítugt vestur í Dölum, en hafði verið prestur norður í Eyjafirði í næstum 20 ár, á Myrká og Völlum í Svarfaðardal, þegar hann sendi Jóni þessi 13 nöfn:

Stekkjarstaur, Giljagaur, Stúfur, Þvörusleikir, Pottasleikir, Askasleikir, Hurðaskellir, Skyrgámur, Bjúgnakrækir, Gluggagægir, Gáttaþefur, Ketkrókur, Kertasníkir.

Jón Árnason gat sem kunnugt er ekki birt nema um það bil helming þess efnis, sem honum hafði borist, í fyrstu útgáfu þjóðsagnanna, og af nöfnum jólasveina valdi hann til þess romsu frá síra Páli Jónssyni, sem af þeim sökum hafa síðan yfirleitt verið talin hin einu réttu jólasveinanöfn.

Tvö þessara nafna, Giljagaur og Stekkjarstaur, koma fyrir í fyrrnefndu Grýlukvæði frá 18. öld, en þar eru þeir ekki kallaðir jólasveinar. Giljagaur er þar sagður vera bróðir Grýlu, og Stekkjarstaur er einungis sagður vera einn af Grýlu hyski og grimmur við unga sveina.

Næstur að aldri er síra Jón Norðmann á Barði í Fljótum, f. 1820 og alinn upp í Skagafirði vestan Vatna. Hann segir að jólasveinar séu 9 talsins, en tilgreinir samt ekki nema 8 nöfn. Þrjú þeirra koma fyrir í þulu síra Páls:

Pottasleikir, Gluggagægir og Gáttaþefur, en auk þeirra hefur hann þessi nöfn: Pönnuskuggi, Guttormur, Bandaleysir, Lampaskuggi, Klettaskora. Þessi nöfn sáust ekki á prenti fyrr en í riti Jóns Norðmanns, Allrahanda árið 1946.

Þriðju nafnarununa fékk Jón Árnason frá Guðmundi Gísla Sigurðssyni, sem var fæddur 1835 og ólst upp á Stað í Steingrímsfirði, og varð síðar aðstoðarprestur föður síns þar. Þulan var í tveim gerðum eftir tveim heimildamönnum Guðmundar Gísla. Í annarri voru nöfnin 13, en í hinni 14. Þær eru mjög áþekkar, þótt nokkur afbrigði séu nema þrjú seinustu nöfnin. Upptalningin er svona, með tilbrigðunum:

Tífill eða Tífall, Tútur, Baggi, Lútur eða Hnútur, Rauður, Redda, Steingrímur, Sledda, Bjálminn eða Bjálfinn sjálfur, Bjálmans eða Bjálfans barnið, Lækjaræsir, Litli-Pungur, Örvadrumbur. Hin runan hefur í stað þriggja síðustu nafnanna þessi nöfn: Bitahængir, Froðusleikir, Syrjusleikir. Loks er fjórtánda nafnið, hinn alkunni Gluggagægir. Þessi nöfn sáust samt ekki á prenti fyrr en í hinni nýju útgáfu Þjóðsagna Jóns Árnasonar árið 1958 (III:284-285).

Orðið jólasveinn gerir ótvírætt ráð fyrir að þessir náungar séu karlkyns. Samt koma fyrir nöfn sem virðast eiga við kvenkyns verur. Í gamalli þulu úr Steingrímsfirði eru bæði Redda og Sledda, og í þjóðarsál Ríkisútvarpsins í desember árið 1990 uppgötvuðust tvær vestfirskar jólakellingar, Flotsokka úr Dýrafirði og Flotnös úr Önundarfirði. Báðar stálu floti fyrir jólin, önnur í sokk, sem einhver hafði ekki lokið við að prjóna, en hin í nösina á sér.

Algengast er í þjóðsögum að telja þá sveina annaðhvort 9 eða 13. En alltaf komu þeir hver á eftir öðrum, einn á dag og sá síðasti á aðfangadag. Síðan hurfu þeir einn á eftir öðrum aftur til fjalla, sá fyrsti á jóladag. Líklega hefur talan 13 fest sig í sessi sökum þess að þá fór sá síðasti til fjalla á síðasta degi jóla, þrettándanum.

Jólasveinar Jóhannesar úr Kötlum[breyta | breyta frumkóða]

Það er ekki fyrr en með ljóðinu „Jólasveinarnir“ í bókinni Jólin koma sem Jóhannes úr Kötlum kemur jólasveinahefð nútíma íslendinga í fastar skorður. Samkvæmt þessari hefð eru jólasveinarnir þrettán, heita og koma til manna í þessari röð:

 1. Stekkjarstaur kemur 12. desember.
 2. Giljagaur kemur 13. desember.
 3. Stúfur kemur 14. desember.
 4. Þvörusleikir kemur 15. desember.
 5. Pottaskefill kemur 16. desember, almennt kallaður Pottasleikir
 6. Askasleikir kemur 17. desember.
 7. Hurðaskellir kemur 18. desember.
 8. Skyrjarmur kemur 19. desember, almennt kallaður Skyrgámur
 9. Bjúgnakrækir kemur 20. desember.
 10. Gluggagægir kemur 21. desember.
 11. Gáttaþefur kemur 22. desember.
 12. Ketkrókur kemur á Þorláksmessu, 23. desember.
 13. Kertasníkir kemur á aðfangadag, 24. desember.

Heimferð Íslensku jólasveinanna eftir Aðfangadag, samkvæmt kvæði Jóhannesar úr Kötlum, Jólasveinarnir.

Jóhannes notar sömu nöfnin og birtust í þjóðsögunum 70 árum áður, þó með þeirri undantekningu, að hann setur Hurðaskelli í staðinn fyrir Faldafeyki, og þannig hafa hin hálfopinberu jólasveinanöfn verið þekktust síðan. Jóhannes notar líka afbrigðið Pottaskefill fyrir Pottasleiki, og auk þess notar hann afbrigðið Skyrjarmur fyrir Skyrgám. Hvorugt þessara afbrigða hefur þó náð fótfestu í jólatilstandinu.

Þessi afbrigði benda hinsvegar til þess, að Jóhannes hafi ekki endilega haft Þjóðsögur Jóns Árnasonar fyrir framan sig, þegar hann orti vísurnar, heldur farið eftir því, sem hann lærði ungur vestur í Dölum. Og því kynnu þeir síra Páll á Myrká að hafa lært þuluna á sömu slóðum.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]