Fara í innihald

Thorvald Stauning

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Thorvald Stauning
Forsætisráðherra Danmerkur
Í embætti
24. apríl 1924 – 14. desember 1926
ÞjóðhöfðingiKristján 10.
ForveriNiels Neergaard
EftirmaðurThomas Madsen-Mygdal
Í embætti
30. apríl 1929 – 3. maí 1942
ÞjóðhöfðingiKristján 10.
ForveriThomas Madsen-Mygdal
EftirmaðurVilhelm Buhl
Persónulegar upplýsingar
Fæddur26. október 1873
Kaupmannahöfn, Danmörku
Látinn3. maí 1942 (68 ára) Kaupmannahöfn, Danmörku
ÞjóðerniDanskur
StjórnmálaflokkurJafnaðarmannaflokkurinn

Thorvald August Marinus Stauning (26. október 1873 – 3. maí 1942) var danskur stjórnmálamaður sem var tvívegis forsætisráðherra Danmerkur; frá 1924 til 1926 og frá 1929 til dauðadags árið 1942. Stauning var fyrsti forsætisráðherra Danmerkur úr Jafnaðarmannaflokknum. Hann sat í alls fimmtán ár og 9 mánuði, næstlengst danskra forsætisráðherra frá lokum einveldisins á eftir J. B. S. Estrup.

Thorvald Stauning fæddist í húsinu Holmens Kanal nr. 30 í Kaupmannahöfn árið 1873 og átti fátæka og heilsuveila foreldra af alþýðustétt.[1] Stauning vann í tóbaksverksmiðju sem drengur og hóf ungur þátttöku í dönskum verkalýðsmálum.[2] Hann var meðal annars lengi formaður stéttarsamtaka tóbaksverkamanna og ritstjóri tímarits þeirra. Stauning hlaut litla formlega skólamenntun – hann gekk aðeins þrjú ár í barnaskóla og gekk síðar í kvöldskóla á unglingsárum sínum. Stauning gekk í danska Jafnaðarmannaflokkinn um leið og hann hafði aldur til og varð gjaldkeri flokksins árið 1893.[3]

Stauning náði árið 1906 kjöri á þjóðþing Danmerkur fyrir Fane-kjördæmi.[4] Þegar P. Knudsen, formaður Jafnaðarmannaflokksins, lést árið 1910 var Stauning kjörinn eftirmaður hans, enda hafði Knudsen mælt með honum sem formannsefni.[1] Stauning var kjörinn í borgarstjórn Kaupmannahafnar árið 1913 og var formaður hennar frá 1919 til 1924.[3]

Sem flokksformaður bætti Stauning samskipti Jafnaðarmannaflokksins, sem hafði áður verið flokkur byltingarsinna, við aðra danska stjórnmálaflokka. Þetta leiddi til þess að árið 1916 varð Stauning ráðherra í ríkisstjórn Carls Theodor Zahle úr Róttæka vinstriflokknum, sem studd var af jafnaðarmönnum.[4] Stauning var í fyrstu ráðherra án ráðuneytis en fékk síðan til umráða nýtt ráðuneyti, félagsmálaráðuneytið, og varð fyrsti félagsmálaráðherra í sögu Danmerkur. Stjórn jafnaðarmanna og róttæklinga leið undir lok árið 1920 þegar Kristján 10. konungur leysti Zahle úr embætti og skipaði íhaldssama stjórn undir forsæti Otto Liebe til þess að geta innlimað Flensborg frá hinu sigraða Þýskalandi í kjölfar fyrri heimsstyrjaldarinnar. Afskipti konungsins af stjórn ríkisins leiddu til páskakreppunnar árið 1920 en í deilunni hótaði Stauning konungnum því að boða til allsherjarverkfalls til þess að mótmæla nýju stjórninni.[4] Til þess að forðast að vera settur af féllst Kristján á að leysa upp stjórn Liebe, kalla þingið saman á ný og samþykkja ný kosningalög með lýðræðislegri kjördæmaskipan en áður.

Með breyttum kosningalögum óx Jafnaðarmannaflokknum ásmegin á næstu árum og árið 1924 vann flokkurinn 55 þingsæti af 150. Jafnaðarmenn mynduðu í kjölfarið stjórn ásamt Róttæka vinstriflokknum með Stauning sem forsætisráðherra. Fyrsta stjórn Staunings var markverð bæði sem ein fyrsta lýðræðislega kjörna stjórn jafnaðarmanna í sögunni, en einnig þar sem í henni var þingkonan Nina Bang skipuð menntamálaráðherra, en hún var einn fyrsti kvenráðherra sögunnar.[5] Fyrsta stjórn Staunings sat í tvö ár en féll árið 1926 þegar íhaldsflokkar á þingi sameinuðust gegn henni til að koma í veg fyrir róttækar lagasetningar sem áttu að vinna bug á efnahagskreppu í landinu.[1]

Stauning leiddi kröftuga stjórnarandstöðu gegn ríkisstjórn eftirmanns síns, Thomasar Madsen-Mygdal úr Venstre, og vakti sterka andstöðu danskra verkamanna gegn stefnu hennar. Þegar Madsen-Mygdal kynnti fjárlög fyrir þinginu sem gerðu ráð fyrir töluverðum niðurskurði í opinberum útgjöldum árið 1929 neitaði samstarfsflokkur hans, Íhaldssami þjóðarflokkurinn, að greiða atkvæði með þeim. Stjórnin féll því og kallað var til nýrra kosninga. Jafnaðarmannaflokkurinn vann þar stórsigur og myndaði nýja stjórn með stuðningi róttæklinga þar sem Stauning varð forsætisráðherra á ný.[1]

Á stjórnartíð Staunings var Jafnaðarmannaflokkurinn í nær stöðugum vexti. Jafnaðarmenn unnu þingkosningar árið 1932 og 1935 og bættu við sig fylgi í bæði skiptin. Í kosningum árið 1939 notuðu jafnaðarmenn slagorðið „Stauning eða stjórnleysi!“ og unnu enn einn sigurinn, en þó með nokkuð minna fylgi en áður.[4] Sama ár ákvað Stauning að láta af embætti sem formaður Jafnaðarmannaflokksins en sat þó áfram sem forsætisráðherra Danmerkur. Hann mælti með bandamanni sínum, Hans Hedtoft, sem eftirmanni sínum á formannsstól og Hedtoft hlaut einróma stuðning í embættið.[1] Stjórn Staunings átti þátt í að þróa „norræna jafnaðarstefnu“ og í að byggja upp velferðarríki í Danmörku. Stjórn Staunings setti meðal annars lög sem tryggði dönskum verkamönnum sumarleyfi í fyrsta sinn.[6]

Seinni heimsstyrjöldin hófst næsta ár og þann 9. apríl 1940 gerðu Þjóðverjar innrás í Danmörku og hertóku landið. Þar sem Stauning var afar gagnrýninn á stjórn nasista í Þýskalandi var búist við því að honum yrði komið frá völdum á meðan á hernáminu stæði en að endingu vottuðu leiðtogar allra dönsku stjórnmálaflokkanna honum traust til að sitja áfram sem leiðtogi þjóðstjórnar þar sem hann væri eini maðurinn sem þjóðin gæti treyst.[4]

Stauning lést í embætti þann 3. maí árið 1942. Danmörk var þá enn hersetin og mestöll Evrópa á valdi nasista. Stauning lést því bugaður maður og svartsýnn á framtíð jafnaðarstefnunnar í Evrópu.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 Stefán Jóhann Stefánsson (10. maí 1942). „um Stauning, stjórnskörunginn og alþýðuleiðtogann“. Alþýðublaðið. Sótt 9. nóvember 2019.
  2. „Thorvald Stauning látinn“. Alþýðumaðurinn. 5. maí 1942. Sótt 9. nóvember 2019.
  3. 3,0 3,1 „Th. Stauning forsætisráðherra Dana“. Alþýðublaðið. 14. júlí. 1926. Sótt 9. nóvember 2019.
  4. 4,0 4,1 4,2 4,3 4,4 „Síðskeggurinn sem setti svip sinn á dönsk stjórnmál í þrjá áratugi“. Vísir. 1. desember 1964. Sótt 9. nóvember 2019.
  5. Skou, Kaare R. (2005). Dansk politik A-Å. Aschehoug, bls. 110, 638-639. ISBN 87-11-11652-8.
  6. „Hugmyndir Staunings og Karlslunde strand“. Tíminn. 23. mars 1980. Sótt 10. nóvember 2019.


Fyrirrennari:
Niels Neergaard
Forsætisráðherra Danmerkur
(24. apríl 192414. desember 1926)
Eftirmaður:
Thomas Madsen-Mygdal
Fyrirrennari:
Thomas Madsen-Mygdal
Forsætisráðherra Danmerkur
(30. apríl 19293. maí 1942)
Eftirmaður:
Vilhelm Buhl