Fara í innihald

REI-málið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Deilur um sölu og kaup á orkufyrirtækinu Reykjavik Energy Invest (REI) sem stóðu í október 2007 nefndust REI-málið og leiddu til þess að borgarstjórnarmeirihluti Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins féll.

Deilurnar snerust um Orkuveitu Reykjavíkur (OR), dótturfélag hennar REI og félagið Geysir Green Energy (GGE), sem fjárfestingarfélagið FL Group og Glitnir banki hf. áttu meirihluta í. Til stóð að sameina REI og GGE, með það að markmiði að sameina krafta þeirra í útrás erlendis. Þann 1. október var haldinn stjórnarfundur í REI, þar sem ákveðnir voru kaupréttarsamningar og grunnur lagður að sameiningu við GGE. Áttu starfsmenn OR að fá að kaupa hlutabréf í REI áður en félagið yrði selt. 569 skráðu sig fyrir kaupum áður en fresturinn rann út 10. október),[1] en hópur manna, sem þóttu sérlega mikilvægir fyrir fyrirtækin, átti að fá að kaupa margra milljóna króna virði í bréfunum á lágu gengi. Menn eru ekki á einu máli um hvernig valið var í þann hóp, og er það einn ásteytingssteinninn í deilunum. Reiknað var með að eftir sölu og sameiningu mundu bréf hins nýja félags snarhækka í verði. Snarpar deilur hófust um þessar fyrirætlanir.

Eftir samrunann við GGE, var áætlað að verðmæti REI yrði um 65 milljarðar króna, og samanstæði m.a. af fyrirtækinu Jarðborunum, 600 milljóna króna hlut í Enex, rúmlega 48% hlut í Hitaveitu Suðurnesja (HS) (16,58% frá OR + 32% frá GGE), auk 4,6 milljarða í reiðufé frá OR og fleiru. Þá væri drjúgur hluti verðmætanna (giskað á 10-11 milljarða) fólginn í óefnislegum verðmætum, á borð við rannsóknarleyfi, viðskiptavild, verkefni sem þegar væru í gangi o.fl. [2] Á minnisblaði forstjóra OR til borgarstjóra, dagsettu 7. október, kemur fram að miðað við sölugengi 3-4 gæti hlutur OR reiknast frá tæpum 25 milljörðum til rúmra 33 milljarða.[3]

Það má líta á 11. október 2007 sem ákveðin vatnaskil í málinu, þar sem borgarstjórn féll þann dag og ný var mynduð.

Atburðarásin fram til 11. október

[breyta | breyta frumkóða]

Fundurinn 3. október

[breyta | breyta frumkóða]

Að kvöldi 2. október var boðaður eigendafundur í OR sem átti að fara fram seinni partinn þann 3. október. Í fundarboði kom fram að REI yrði til umræðu, en dagskrá ekki kynnt að öðru leyti. Minnihlutinn mótmælti því á fundinum, að það væri ólöglega til hans boðað. Á fundi þessum var tilkynnt að REI og GGE yrðu sameinuð, og voru kaupréttarsamningarnir svo lagðir fram, og gerðar á þeim breytingar eftir athugasemdir, m.a. af hálfu minnihlutans. Vilhjálmur borgarstjóri sagðist seinna aldrei hafa séð neinn lista yfir þá starfsmenn og aðra, sem áttu að hafa kauprétt á sérstökum kjörum, en Guðmundur Þóroddsson forstjóri REI, og Svandís Svavarsdóttir oddviti Vinstri-grænna sögðu bæði að hann hefði verið lagður fram á þessum fundi, sem þau sátu öll þrjú. Þótt Vilhjálmur neitaði að hafa séð lista með nöfnum umræddra starfsmanna, sagði hann að Haukur Leósson, stjórnarformaður OR, hefði sagt sér „mjög rækilega“ að „ákveðnir starfsmenn REI fengju að fjárfesta í félaginu“. Svandís Svavarsdóttir sagðist hins vegar hafa fengið þann lista í hendurnar á eigendafundinum. Því svaraði Vilhjálmur, að þótt minnihlutinn í stjórn OR hefði fengið að sjá hann, þá hefði hann sjálfur ekki beðið um hann, og ætlaði sér ekki að sjá hann.[4] Þó fór Vilhjálmur fram á það að ef einhverjir starfsmenn fengju kauprétt skyldu það ekki bara vera „lykilstarfsmenn“, heldur allir starfsmenn OR, á sömu kjörum. Á stjórnarfundi REI þann 6. október var samþykkt að bjóða þeim það. Undanþegnir voru Bjarni Ármannsson og Jón Diðrik Jónsson.

Trúnaðarbrestur?

[breyta | breyta frumkóða]

Guðmundur Þóroddsson, forstjóri REI, sagði ekkert óeðlilegt við kaupréttarsamningana; hann vildi binda hagsmuni hlutaðeigandi aðila við félagið og að „svona gerðust kaupin á eyrinni“. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri sætti gagnrýni úr borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins, sem taldi hann hafa samið um málið án umboðs þeirra, en Vilhjálmur taldi hins vegar að þau hefðu farið á bak við sig þann 5. október með því að funda með Geir H. Haarde, formanni Sjálfstæðisflokksins og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur varaformanni án þess að tala við sig fyrst. Björn Ingi Hrafnsson, varaformaður stjórnar OR og borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, sagðist telja að það ætti ekki að selja hlut Reykjavíkurborgar í OR strax, heldur bíða með söluna.

Eftir langan fund hjá borgarstjórnarflokki Sjálfstæðismanna þann 8. október, var tilkynnt að hlutur OR í REI yrði seldur og Hauki Leóssyni yrði vikið úr stjórn OR. Borgarfulltrúi tæki sæti hans í stjórninni, en Hjörleifur B. Kvaran yrði forstjóri. Björn Ingi var sem fyrr andvígur sölunni. Sama dag sagðist Vilhjálmur ekki vita um aðra kaupréttarsamninga en þann við Bjarna, en daginn eftir kvað Guðmundur Þóroddsson það koma sér á óvart. Vilhjálmur sagðist þá hafa vitað nákvæmlega um samning Bjarna, en ekki „nákvæmlega um aðra samninga“.

Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, sagði að þótt borgin fengi 10 milljarða króna í sinn hlut, þá tapaði hún kannski öðrum fjörutíu milljörðum á því að selja strax. Björn Ingi Hrafnsson sagði Morgunblaðinu þann 9. október að það yrði „að ná lendingu í málinu“ milli flokkanna í meirihluta borgarstjórnar.[5] á fundi borgarstjórnar þann 10. október bauð minnihlutinn Birni bandalag um að stöðva söluna á hlut OR í REI. Björn svaraði því ekki þá, en viðbrögð hans áttu eftir að koma í ljós síðar.

Fleiri tjá sig um málið

[breyta | breyta frumkóða]

OR átti 16,58% hlut í HS, sem hafði verið lagður inn í REI og stóð til að selja með fyrirtækinu. Aðrir stórir hluthafar í HS, og líka Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, og Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar, sögðu að bæjarfélög þeirra ættu því að krefjast forkaupsréttar að hlutabréfum OR í REI þegar hún seldi hlut sinn, auk þess sem GGE hlyti að eiga kröfu um forkaupsrétt.[6]

Í Morgunblaðinu 11. október birtust þrjár yfirlýsingar, þar sem stjórn Heimdallar kvaðst „fagna þeirri sátt og samstöðu“ sem hefði náðst innan meirihluta borgarstjórnar um að stefna að sölu á hlut OR í REI (yfirlýsingin dagsett 8. október).[7] Í ályktun Ungra jafnaðarmanna í Reykjavík kváðust þeir telja það „afleita hugmynd“ að selja hlut OR strax, að fyrir því væru engar málefnalegar ástæður og að það væri „augljóst“ að verið væri að „breiða yfir trúnaðarbrest innan meirihluta borgarstjórnar“.[8] Loks mótmælti bæjarmálaráð Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs á Akranesi „ólýðræðislegum vinnubrögðum“ og kenndu flýtinum um að ekki gæfist ráðrúm til þeirra.[9]

Spurningar umboðsmanns Alþingis

[breyta | breyta frumkóða]

Á aukafundi borgarstjórnar Reykjavíkur þann 10. október var hart tekist á um málefni OR og REI. Borgarstjóri sagði „fulla einingu“ vera innan meirihlutans um að ljúka samrunaferli REI og GGE á 6-7 vikum, og fá síðan ráðgjöf um söluna á hlut OR í REI. Björn Ingi kvaðst telja það „óráð“ að selja strax. Dagur B. Eggertsson varaði við því að salan færi strax fram. Á fundinum kom fram að Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, hefði sent eigendum OR tólf spurningar, aðallega um sameininguna[10]

Spurningar Tryggva voru í stuttu máli þessar:

 1. Var stofnun REI samþykkt á eigendafundi OR? Hvenær?
 2. Hvaða eignir OR runnu inn í REI?
 3. Var 500 milljóna hluturinn sem Bjarni Ármannsson keypti í ágúst og september áður í eigu OR? Voru þau samþykkt á eigendafundi?
 4. Hver fór með atkvæðarétt um sameiningu REI og GGE á eigendafundi OR 3. október?
 5. Óskað eftir afriti af fundargerð eigendafundar OR, þar sem kaup einstaklinga á hlutum í REI voru samþykkt.
 6. Óskað eftir rökstuddri afstöðu sveitarstjórna sem eiga hlut í OR, til umboðs borgar/bæjarstjóra til að selja einkaaðilum hlutina.
 7. Á hvaða fundum viðkomandi sveitarstjórna var samþykkt að heimila það sem spurt var um í sp. 1, 2, 3 og 5, ef það var þá gert.
 8. Óskað eftir að sveitarstjórnir skýri frá því með rökum hvort jafnræðisregla hafi gilt við sölu á hlutum til einkaaðila.
 9. Óskað eftir skýringum sveitarstjórna á því hvort fulltrúar þeirra hafi gætt jafnræðisreglu þar sem það átti við.
 10. Var verðmæti þeirra eigna OR sem runnu til REI aðeins metnar af starfsmönnum og stjórnendum OR og REI, eða líka óháðum aðilum? Hverjum þá?
 11. Hvaða reglur gilda um hæfi bæjar- og borgarstjóra (fulltrúa sveitarstjórnanna) til að taka einstakar ákvarðanir í málefnum OR.
 12. Hvaða reglur gilda um hæfi sveitarstjórnarmanna til að sitja jafnframt í stjórn OR.[11]

Atburðarásin frá og með 11. október

[breyta | breyta frumkóða]

Að morgni 11. október var haldinn leynilegur fundur á heimili tengdaforeldra Björns Inga Hrafnssonar, þangað sem mættu, auk hans, þau Dagur B. Eggertsson og Svandís Svavarsdóttir, oddvitar Samfylkingar og VG. Fyrir hönd Frjálslynda flokksins og óháðra mælti Ólafur F. Magnússon. Á sama tíma bólaði ekkert á Birni á fundi með Sjálfstæðismönnum, sem hann hafði verið boðaður á í Höfða kl. 13. Áhyggjur Sjálfstæðismanna voru ekki ástæðulausar,[12] því Björn Ingi og hinir flokkarnir voru þá enn á fundi og handsöluðu með sér samkomulag klukkan 14.

Blaðamannafundurinn

[breyta | breyta frumkóða]

Björn sagði Vilhjálmi frá stjórnarslitunum, og svo var boðað til blaðamannafundar í síðdeginu á bakka Reykjavíkurtjarnar. Þar var tilkynnt um að samstarfi Framsóknarflokks við Sjálfstæðisflokkinn væri lokið og að Björn Ingi mundi mynda nýjan meirihluta með borgarfulltrúum Samfylkingarinnar og Vinstri-grænna, og hinni óháðu Margréti Sverrisdóttur. Voru Sjálfstæðismenn ósáttir við það og notuðu sumir stór orð til að lýsa vanþóknun sinni.[13] Nýi meirihlutinn ákvað að Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingar, yrði nýr borgarstjóri, Björn Ingi sinnti áfram formennsku í borgarráði, Margrét yrði forseti borgarstjórnar og Svandís Svavarsdóttir, oddviti Vinstri-grænna, yrði formaður sameiginlegs borgarstjórnarflokks nýs meirihluta og staðgengill borgarstjóra.[14]

Daginn eftir borgarstjórnarskiptin héldu Framsóknarflokkurinn, Samfylkingin og Vinstri-græn hvert sinn fund í sínu flokksfélagi í borginni og fóru yfir stöðuna með flokksmönnum. Dagana á eftir fóru stjórnmálamenn, álitsgjafar, bloggarar og aðrir mikinn. Skömmuðu margir Björn Inga með stórum orðum fyrir svik eða spillingu, aðrir Vilhjálm fyrir vanrækslu eða spillingu, enn aðrir hina borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins fyrir trúnaðarbrest, og loks voru þeir sem skömmuðu nýja meirihlutann fyrir tækifærismennsku og málefnaleysi. Töldu margir að Alfreð Þorsteinsson, fyrrum borgarfulltrúi Framsóknarflokksins í R-listanum, hefði haft hönd í bagga með hvernig fór fyrir gamla meirihlutanum.

Einkaréttarsamningur?

[breyta | breyta frumkóða]

Þann 13. október greindi Morgunblaðið frá því að OR hefði skuldbundið sig til þess að veita engum nema REI sérfræðiþjónustu um jarðhita, rannsóknir, markaðsmál og ýmsar áætlanir, samkvæmt þjónustusamningi til 20 ára sem undirritaður hefði verið þann 3. október. Fleiri hlunnindi átti REI að hljóta samkvæmt samningi þessum, einkum hvað snerti umsvif erlendis og aðgengi að sérfræðingum OR.[15] Hjörleifur B. Kvaran sagði þjónustusamninginn vera grundvöllinn að þeim 10 milljörðum sem Orkuveitunni hefðu verið reiknaðir sem innlögðum í REI í óefnislegum verðmætum. Í fréttatilkynningu um samrunann þ. 3. október kom ekkert fram um þennan þjónustusamning, og flutti Ríkisútvarpið fyrstu fréttirnar af honum þann 12. október. Hjörleifur kvaðst ekki vita hvers vegna hans hefði ekki verið getið í fréttatilkynningunni, en að þeir sem voru á fundinum 3. október hefðu vitað af honum. Samningurinn hefði að vísu aðeins verið til á ensku þá. Sagði Hjörleifur að ef fundurinn 3. október yrði úrskurðaður ólögmætur, þá gilti það einnig um þennan samning.[16]

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson sagði í viðtali að samningurinn hefði ekki verið ræddur á fundinum 3. október og væri auk þess mun víðtækari en sagt hefði verið. Þá sagði hann: „Ég held að ekki hafi margir stjórnarmenn gert sér grein fyrir að þetta væri einkaréttarsamningur til tuttugu ára sem útilokaði í raun Orkuveituna frá því að veita öðrum fyrirtækjum sérfræðiaðstoð á erlendri grundu án þess að fara í gegnum REI. Það er ekki í tillögunni að um sé að ræða einkaréttarsamning.“ Vilhjálmur sagði einnig að hann hefði ekki vitað að OR hefði heimilað REI að nota erlent nafn OR, Reykjavik Energy, erlendis. Hann sagðist ekki hafa lesið allt sem hann skrifaði undir, til þess treysti hann Birni Inga og Hauki Leóssyni, og svo starfsfólkinu sem sæi um málið fyrir hönd borgarinnar, en þetta orkaði „tvímælis“. Hann viðurkenndi fúslega að fundinn 3. október hefði mátt boða með meiri fyrirvara. Hann staðhæfði að Sjálfstæðisflokkurinn hefði verið „í samstarfi af fullum heilindum“ og ekki rætt við aðra flokka á meðan um hugsanlega myndun nýs meirihluta, eins og Björn Ingi gerði.

Í viðtalinu bar blaðamaður kaupréttarlistann undir Vilhjálm, þann sem var lagður fram á hinum afdrifaríka fundi 3. október. Hann sagði þá -- og vísaði í nýlegt minnisblað frá Hjörleifi B. Kvaran, sem hann hafði handbært -- að á þessum fundi hefði enginn fengið þennan lista nema Svandís Svavarsdóttir og Sigrún Elsa Smáradóttir. Aðrir hefðu ekki séð hann, því hann hefði ekki verið á dagskrá fundarins. Svandís hefði því farið með rangt mál í frétt á Visir.is, þegar hún hefði sagt hann ljúga því að hann hefði ekki séð listann, eins og hún leiðrétti síðan í borgarstjórn.[17]

Bjarni, Haukur og Hjörleifur sögðu, í greinargerð um atburðarásina, að Vilhjálmur hefði vitað um þjónustusamninginn heilum tíu dögum fyrir stjórnarfundinn, eða þann 23. september. Þá hafi þeir hist, Vilhjálmur, Haukur og Bjarni, á fundi heima hjá Vilhjálmi og farið yfir minnisblað sem hefði verið á íslensku, setið yfir því í nokkra klukkutíma „og það á ekki að leika nokkur vafi á því hvað var við átt,“ sagði Bjarni og bætti því við að hann hefði skilið eintak af blaðinu eftir hjá borgarstjóra. Vilhjálmur harðneitaði þessu hins vegar þegar það var borið undir hann.[18] og sagði að sú lýsing á samningnum sem honum var sýnd 23. september hafi verið áþekk tillögunni á fundinum 3. október, og ekki verið kennt sem einkaréttarsamningur.[19]

Björn Ársæll Pétursson, fyrrum stjórnarformaður REI, greindi frá því að fyrstu hugmyndir um þjónustusamning OR og REI hefðu komið fram á fundi 23. ágúst, og snúist um uppsegjanlegan samning til 5-10 ára. Óuppsegjanlegur 20 ára samningur hafi aldrei verið á borðinu þá.[20]

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins sagði að þjónustusamningurinn milli REI og OR gerbreytti stöðunni, og að í ljósi hans kæmi til greina að hennar mati að ógilda samrunann, í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins 14. október. Svandís Svavarsdóttir og Margrét Sverrisdóttir tóku í sama streng.[21] Bjarni Ármannsson stjórnarformaður REI og Hannes Smárason stjórnarformaður GGE sögðust hins vegar reikna með því að samruninn stæði. Bjarni sagði að annars mundu allir málsaðilar verða af tækifærum sem þá færu til spillis.[22]

15. október var hluthafafundur í Hitaveitu Suðurnesja, þar sem samþykkt var að veita nýja borgarstjórnarmeirihlutanum svigrúm til að fara yfir málið, en vildi að hann mótaði sér samt stefnu sem fyrst. Árni Sigfússon sagði, fyrir hönd Reykjanesbæjar, að forkaupsréttur REI á hlut Hafnarfjarðarbæjar í HS stæðist ekki samkomulag frá því í sumar.[23]

Sama dag þingfesti Héraðsdómur Reykjavíkur stefnu Svandísar Svavarsdóttur gegn Orkuveitu Reykjavíkur, þar sem hún vildi fá úrskurð um lögmæti eigendafundarins 3. október. Ragnar H. Hall sótti málið, en sagðist aðspurður ekki vita hvað það yrði lengi í meðferð; hann vonaði að það yrðu bara nokkrar vikur.[24] Ef Svandís tapar málinu og borgarstjórn unir ekki dómnum, geta stjórnendur borgarinnar og OR boðað aðra eigendur REI til fundar og óskað eftir að samningnum verði breytt eða hann ógiltur vegna þess að forsendurnar fyrir honum séu brostnar, m.a. vegna hlutarins í hitaveitu Suðurnesja.[25] Þann 16. október greindi svo Eftirlitsstofnun EFTA frá því að sér hefði borist kvörtun vegna málefna Orkuveitunnar, sem yrði tekin til gaumgæfilegrar skoðunar.[26]

Á fundi borgarstjórnar þann 16. október lagði Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson fram tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um að taka undir bókun Svandísar Svavarsdóttur á eigendafundi OR þann 3. október um lögmæti hans og þeirra ákvarðana sem voru teknar á honum um einkaréttarsamning og fleira.[27]

Í frétt Morgunblaðsins 30. janúar 2008 var sagt frá könnun sem Gallup Capacent gerði fyrir Creditinfo, um mat almennings á fyrirferð einstakra mála í fjölmiðlum. [28]

 1. „569 vilja kaupa hlutafé í REI“, Morgunblaðið 11. október 2007, s. 4.
 2. Guðmundur Sverrir Þór: „Efnislegar eignir REI um 54 milljarðar“, Morgunblaðið 10. október 2007, s. 8.
 3. „Söluverð REI gæti verið 9-20 milljörðum meira“, Morgunblaðið 16. október 2007, s. 6.
 4. Andri Karl: „Vissi um kauprétt starfsmanna“, Morgunblaðið 10. október 2007, s. 2.
 5. Andri Karl: „Vissi um kauprétt starfsmanna“, Morgunblaðið 10. október 2007, s. 2.
 6. Egill Ólafson: „Reykjanesbær og Hafnarfjörður gera kröfu um forkaupsrétt í REI“, Morgunblaðið 10. október 2007, s. 8.
 7. „Heimdallur fagnar sátt“, Morgunblaðið 11. október 2007, s. 49.
 8. „Mótmæla flýtisölu á REI“, Morgunblaðið 11. október 2007, s. 49.
 9. „Mótmæla ólýðræðislegum vinnubrögðum“, Morgunblaðið 11. október 2007, s. 49.
 10. „Hart tekist á um sölu Orkuveitunnar í REI“, Morgunblaðið 11. október 2007, forsíða.
 11. „Umboðsmaður spyr hvasst um REI“, Morgunblaðið 11. október 2007, s. 4.
 12. „Vilhjálmur borgarstjóri og Björn Ingi féllust í faðma“, Morgunblaðið 12. október 2007, s. 2.
 13. „Borgarstjórn bylt“, Morgunblaðið 12. október 2007, forsíða.
 14. Samkomulag um nýjan meirihluta handsalað klukkan 14“, Mbl.is 11. október (skoðað 28. október).
 15. „Víðtækar skyldur Orkuveitunnar við REI í 20 ár“, Morgunblaðið 13. október 2007, forsíða.
 16. „20 ára forgangsréttur að OR“, Morgunblaðið 13. október 2007, s. 4.
 17. Pétur Blöndal: „Sameining og sundrung“, Morgunblaðið 14. október 2007, s. 30-33.
 18. „Borgarstjóri þverneitar frásögn formanns REI“, Fréttablaðið 16. október 2007, s. 2.
 19. Gunnar Páll Baldvinsson: „Orð gegn orði“, Morgunblaðið 16. október 2007, forsíða.
 20. Andri Karl: „Vildi bíða með viðræður við fjárfesta um aðkomu að REI“, Morgunblaðið 17. október 2007, s. 2.
 21. Gunnar Páll Baldvinsson og Helgi Bjarnason: „Ógilding samruna kemur til greina“, Morgunblaðið 15. október 2007, forsíða.
 22. „REI gæti orðið af tækifærum“, Fréttablaðið 16. október 2007, forsíða.
 23. „Borgarmeirihlutinn skapi sér stefnu sem fyrst“, Fréttablaðið 16. október 2007 s. 4.
 24. „Þingfest í gær“, Fréttablaðið 16. október 2007, s. 2.
 25. Egill Ólafsson: „Er hægt að ógilda?“ Morgunblaðið 16. október 2007, forsíða.
 26. „Málefni Orkuveitunnar á borð EFTA“, Morgunblaðið 17. október 2007, forsíða.
 27. „Tillaga til stuðnings bókun“, Morgunblaðið 17. október 2007, s. 23.
 28. REI-málið stærsta fréttamálið á síðasta ári, Mbl.is 30. janúar 2008, skoðað 31. janúar 2008).