Rómverska keisaradæmið
Rómverska keisaradæmið nefnist það tímabil í sögu Rómaveldis þegar keisarar voru þar æðstu ráðamenn. Keisaradæmið var þriðja og síðasta stjórnarfyrikomulagið sem Rómaveldi gekk í gegn um, á eftir konungdæminu og lýðveldinu. Ekki er hægt að staðfesta eitthvert eitt ártal sem upphaf keisaraveldisins en aðallega er miðað við tvö ártöl: 31 f. Kr., þegar orrustan við Actíum átti sér stað, og árið 27 f.Kr. þegar Octavíanus hlaut titilinn Ágústus.
Á fjórðu öld, yfir nokkurt tímabil, skiptist svo keisaradæmið í tvennt, Vestrómverska keisaradæmið og Austrómverska keisaradæmið. Oftast er eru endalok Rómverska keisaradæmisins miðuð við árið 476, þegar Vestrómverska ríkið (sem var stjórnað frá Róm) leið undir lok. Þó er mikilvægt að hafa í huga að Austrómverska ríkið (sem var stjórnað frá Konstantínópel) hélt velli til ársins 1453.
Nafnið „rómverska keisaradæmið“ er einnig notað yfir landsvæðið sem Rómaveldi náði yfir þegar keisaraveldið var við lýði. Þegar það var stærst, náði það frá þar sem er í dag Skotland í norðri suður yfir alla Norður-Afríku. Vestast náði það á Íberíuskaga og að Persaflóa í austri. Í Rómverska keisaradæminu aðhylltist fólk framan af rómverska goðafræði en Konstantínus mikli keisari tók kristni og gerði hana árið 313 að „leyfðri trú“ í Rómaveldi. Upp frá því breiddist kristni út um allt ríkið og varð algengasta trúin.
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Principatið
[breyta | breyta frumkóða]Árið 31 f.Kr. sigraði Octavíanus Markús Antóníus og Kleópötru í orrustunni við Actíum og batt þar með enda á borgarastyrjöld sem geisað hafði á síðustu áratugum lýðveldisins. Með sigrinum tryggði hann sér öll völd í Rómaveldi en varðveitti þó ásýnd lýðveldisins út á við. Octavíanus hlaut virðingarheitið Ágústus frá öldungaráðinu og í stað þess að titla sig konung eða einvald kaus Ágústus að nota titilinn princeps, sem þýða má sem „fremstur meðal jafningja“. Það valdakerfi sem Ágústus bjó til hefur því verið kallað principatið. Tíberíus, stjúpsonur Ágústusar, tók við af honum og í kjölfarið komu Calígúla, Cládíus og Neró. Þeir voru allir af júlísku-cládísku ættinni, eins og Ágústus. Neró framdi sjálfsmorð árið 68 án þess að eiga erfingja og í kjölfarið hófst tímabil átaka um völdin, sem kallað hefur verið ár keisaranna fjögurra.
Vespasíanus stóð að lokum uppi sem sigurvegari í baráttunni um keisaratignina og þar með hófst valdatími flavísku ættarinnar. Synir Vespasíanusar, Títus og Dómitíanus, urðu báðir keisarar að föður sínum látnum. Á valdatíma flavísku ættarinnar var hringleikahúsið Colosseum byggt en einnig varð eldgos í Vesúvíusi, sem lagði m.a. borgirnar Pompeii og Herculaneum í rúst. Á eftir Dómitíanusi komst Nerva til valda, fyrsti keisarinn af ætt sem stundum er kölluð nervu-antónínusar ættin. Eftirmaður Nervu var Trajanus, einn frægasti og sigursælasti keisari Rómaveldis. Á hans valdatíma náði ríkið mestri útbreiðslu. Friður ríkti að mestu á valdatíma næstu tveggja keisara; Hadríanusar og Antónínusar Píusar. Markús Árelíus tók við af Antónínusi Píusi og þurfti að verja ríkið gegn mörgum árásum germanskra þjóðflokka. Sonur Markúsar, Commodus, var óvinsæll og var myrtur.
Septimius Severus komst til valda eftir mikil átök í kjölfar dauða Commodusar. Með Severusi hófst tími severísku ættarinnar. Caracalla, sonur Severusar, gaf öllum íbúum Rómaveldis fullan ríkisborgararétt, sem áður hafði aðeins verið fyrir íbúa Ítalíuskagans. Elagabalus og Alexander Severus voru tveir síðustu keisararnir af severísku ættinni og við dauða Alexanders Severusar árið 235 er oft miðað við að principatið hafi liðið undir lok, því í kjölfarið hófst mikið hnignunarskeið.
3. aldar kreppan
[breyta | breyta frumkóða]Á árunum 235 – 284 komust fjölmargir menn til valda, flestir fyrir tilstilli herdeilda sem lýstu þá keisara vegna óánægju með þáverandi keisara. Afleiðing þessa var sú að margir keisarar ríktu aðeins í stuttan tíma og margir keisarar voru vanhæfir. Efnahagur ríkisins fór versnandi á þessu tímabili og myntin varð stöðugt verðminni. Á valdatíma Filipusar araba var engu að síður fagnað með mikilfenglegum hátíðarhöldum í tilefni af þúsund ára afmæli goðsögulegrar stofnunar Rómarborgar.
Gallienus var einn fárra keisara, á þessu tímabili, sem náði að halda völdum í langan tíma eða frá 253 til 268. Engu að síður urðu til tvö klofningsríki úr Rómaveldi á hans valdatíma; Gallíska keisaradæmið og Palmýríska keisaradæmið. Nokkrir hæfir herstjórar komust til valda í kjölfarið, sem náðu að bjarga ríkinu frá hruni. Á meðal þeirra voru Claudius 2., Aurelianus (sem sameinaði allt heimsveldið að nýju) og Probus. Þessir keisarar náðu þó ekki að halda völdum í langan tíma og því telst kreppunni ekki hafa verið lokið fyrr en árið 284 þegar Diocletianus komst til valda.
Dóminatið
[breyta | breyta frumkóða]Þegar Diocletianus tók við keisaratigninni hóf hann að endurskipuleggja ríkið á margvíslegan máta, m.a. með því að skipa þrjá keisara til viðbótar við sig og skapa þannig stjórnkerfi sem kallað hefur verið fjórveldisstjórnin. Diocletianus kaus að láta kalla sig dominus (herra) í staðinn fyrir princeps. Þess vegna, og vegna hinna miklu kerfisbreytinga og umbóta sem hann stóð fyrir, er gjarnan álitið að nýtt tímabil hafi hafist með honum sem kallað hefur verið Dóminatið. Diocletianus sagði af sér keisaratigninni árið 305 og fljótlega eftir það fór stjórnskipun hans að riða til falls. Stríð á milli þeirra sem gerðu tilkall til keisaratitils urðu algeng á næstu árum en að lokum stóð Konstantínus mikli uppi sem sigurvegari, árið 324, og varð þá keisari yfir öllu Rómaveldi. Konstantínus var fyrsti kristni keisarinn og gerði hann trúnna leyfilega í heimsveldinu árið 313. Þrír synir Konstantínusar tóku við völdum að honum látnum og voru þeir einnig allir kristnir. Frændi Konstantínusar, Julianus, varð keisari árið 361 og var hann síðasti keisarinn sem aðhylltist hinum hefðbundnu rómversku trúarbrögðum. Hann reyndi að endurvekja þessi trúarbrögð sem mikilvægustu trúnna í Rómaveldi en hann féll í herleiðangri í Persíu árið 363 og eftir það var kristni ríkjandi trú.
Valentinianus 1. og Valens voru bræður sem komust til valda árið 364 og voru fyrstu keisararnir af valentínsku ættinni. Valens var keisari í austurhluta Rómaveldis og átti þar í átökum við Gota. Gotarnir fengu leyfi til að setjast að innan landamæra Rómaveldis en þeir gerðu fljótlega uppreisn og Valens mætti þeim í orrustu við Adrianopel árið 378. Útkoma orrustunnar var einn versti ósigur Rómaveldis frá upphafi, þar sem mörg þúsund Rómverjar féllu, þ.á.m. Valens sjálfur. Talið er að ósigurinn hafi átt stóran þátt í hnignun ríkisins. Theodosius 1. var síðasti keisarinn til þess að ríkja yfir öllu heimsveldinu því þegar hann lést árið 395 var Rómaveldi skipt í austur og vestur og synir hans tveir urðu keisarar, hvor yfir sínum helmingi ríkisins.
Vestrómverska ríkið átti ætíð í vök að verjast gegn innrásum frá germönskum þjóðflokkum. Innrásirnar urðu sífellt algengari og urðu að lokum óviðráðanlegar fyrir her ríkisins. Völd keisaranna fóru dvínandi eftir því sem leið á 5. öldina og germanir fóru að setjast að á svæðum innan landamæra ríkisins, þar sem þeir tóku svo völdin í sínar hendur. Romulus Augustus var síðasti vestrómverski keisarinn, en hann var að lokum neyddur til þess að segja af sér árið 476, af germanska hershöfðingjanum Odoacer, og teljast það vera endalok Vestrómverska ríkisins. Austrómverska ríkið, aftur á móti, stóð af sér árásir germananna og stóð þúsund árum lengur, eða til ársins 1453.