Alexander Severus

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Alexander Severus
Rómverskur keisari
Valdatími 222 – 235

Fæddur:

1. október 208
Fæðingarstaður Arca Caesarea, Syriu

Dáinn:

18. eða 19. mars 235
Dánarstaður Moguntiacum, Germaniu Superior
Forveri Elagabalus
Eftirmaður Maximinus Thrax
Maki/makar Sallustia Orbiana
Sulpicia Memmia
Faðir Marcus Julius Gessius Marcianus
Móðir Julia Avita Mamaea
Fæðingarnafn Marcus Julius Gessius Bassianus
Keisaranafn Caesar Marcus Aurelius Severus Alexander Augustus
Ætt Severíska ættin

Marcus Aurelius Severus Alexander (1. október 20818. eða 19. mars 235), þekktur sem Alexander Severus, var rómarkeisari af severísku ættinni, á árunum 222235.

Alexander Severus var 13 ára þegar Elagabalus, keisari og frændi hans, var, árið 222, tekinn af lífi af lífvarðasveit keisarans. Í kjölfarið var Severus skipaður keisari. Amma Alexanders (og Elagabalusar), hin valdamikla Julia Maesa, var á bakvið samsærið um að koma Elagabalusi frá völdum og að gera Alexander að keisara.

Alexander var mjög háður móður sinni, Juliu Mamaeu, og varð hún mjög valdamikil í keisaratíð hans. Hún skipaði marga ráðgjafa til að leiðbeina hinum unga keisara en einn af þeim var sagnaritarinn Cassius Dio.

Samskipti Alexanders við herinn voru ekki góð, aðallega vegna að móðir hans skar niður útgjöld til hersins. Afleiðing þessa var óánægja og lítill agi herdeilda víðsvegar um heimsveldið.

Árið 230 hófust árásir persneska Sassanídaveldisins inn á rómverskt landsvæði. Alexander hélt þá austur og gerði gagnárásir sem voru að nokkru leiti árangursríkar og persarnir voru stöðvaðir. Árið 234 réðust svo germanskir þjóðflokkar yfir Rín, inn í Gallíu. Alexander safnaði liðsauka frá herdeildum í austurhluta rómaveldis og hélt til Gallíu. Þegar á hólminn var komið kaus Alexander að borga germönunum til að fresta átökum. Þessi aðferð hans þótti ekki bera vott um herkænsku eða hugrekki af hálfu keisarans og þar sem hann var þá þegar óvinsæll á meðal hersins var nýr keisari, Maximinus Thrax, hylltur árið 235. Fljótlega eftir þetta var Alexander Severus tekinn af lífi. Við dauða Alexanders, og valdatöku Maximinusar, er vanalega miðað við að hin svokallaða 3. aldar kreppa hafi hafist.


Fyrirrennari:
Elagabalus
Keisari Rómaveldis
(222 – 235)
Eftirmaður:
Maximinus Thrax