Fara í innihald

Valentinianus 1.

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Valentinianus 1.
Rómverskur keisari
[[Mynd:|200px|]]
Valdatími 364 – 375
með Valens (364 – 375)
með Gratianusi (367 – 375)

Fæddur:

321
Fæðingarstaður Cibalae (í núverandi Króatíu)

Dáinn:

17. nóvember 375
Dánarstaður Brigetio (í núverandi Ungverjalandi)
Forveri Jovianus
Eftirmaður Valens, Gratianus og Valentinianus 2.
Maki/makar Marina Severa,
Justa
Börn Gratianus, Valentinianus 2., Galla, Grata, Justa
Faðir Gratianus eldri
Fæðingarnafn Flavius Valentinianus
Keisaranafn Flavius Valentinianus Augustus
Ætt Valentínska ættin

Valentinianus 1. (32117. nóvember 375) var keisari Rómaveldis frá 364 til dauðadags árið 375.

Valentinianus var valinn til að verða næsti keisari Rómaveldis, árið 364, á samkomu í borginni Nikeu í Anatólíu, eftir að Jovianus keisari hafði látist á leið sinni frá vigstöðvum í Mesopotamiu. Á samkomunni voru hátt settir aðilar úr hernum og úr embættismannakerfinu og var Valentinianus valinn vegna reynslu sinnar í herstjórn undir fyrri keisurum. Um mánuði eftir að Valentinianus tók við keisaraembættinu skipaði hann bróður sinn, Valens, sem með-keisara sinn. Valens tók þá við stjórn austurhluta ríkisins, með höfuðborg í Konstantínópel, en Valentinianus stjórnaði vesturhlutanum og hafði aðsetur í Mediolanum (Mílanó). Árið 367 veiktist Valentinianus illa og brutust þá út átök á milli helstu aðstoðarmanna hans um það hver ætti að taka við keisaratigninni að honum látnum. Valentinianus jafnaði sig þó fljótlega af veikindunum og til þess að koma í veg fyrir frekari átök skipaði hann átta ára son sinn, Gratianus, sem með-keisara og þar með arftaka sinn.

Valentinianus 1. átti í stöðugum átökum við germanska þjóðflokka (aðallega Alemanna) á valdatíma sínum en hafði yfirleitt yfirhöndina í þeim átökum og var í raun síðasti keisarinn sem hélt Germönum almennilega í skefjum í vesturhluta Rómaveldis. Þessi árangur hans var ekki síst að þakka herforingjanum Theodosiusi eldri, föður Theodosiusar 1. sem síðar varð keisari. Ástandið á Bretlandi var einnig slæmt og um tíma virtist eyjan vera að renna Rómverjum úr greipum en Theodosiusi tókst að koma svæðinu aftur undir vald keisarans. Ekki liðu þó margir áratugir þar til Rómverjar yfirgáfu Bretland fyrir fullt og allt. Einnig braust út uppreisn í Africu og enn og aftur sendi Valentinianus Theodosius til þess að bæta ástandið, sem hann gerði, árið 375, þegar hann tók valdaræningjann Firmus af lífi. Valentinianus 1. lést 17. nóvember árið 375. Valentinianus var þekktur fyrir skapofsa sinn og að sögn sprakk æð í höfði hans í reiðiskasti og leiddi það til dauða hans. Gratianus tók við völdum í vesturhluta Rómaveldis að föður sínum látnum og nokkrum dögum síðar var yngri sonur Valentinianusar, Valentinianus 2., sem þá var fjögurra ára, einnig hylltur sem keisari.


Fyrirrennari:
Jovianus
Keisari Rómaveldis
(364 – 375)
Eftirmaður:
Valens, Gratianus og
Valentinianus 2.