Fara í innihald

Commodus

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Commodus
Rómverskur keisari
Valdatími 177 – 192
með Markúsi Árelíusi (177 – 180)

Fæddur:

31. ágúst 161
í Lanuvium

Dáinn:

31. desember 192
í Róm
Forveri Markús Árelíus
Eftirmaður Pertinax
Maki/makar Bruttia Crispina
Faðir Márkús Árelíus
Móðir Faustina yngri
Fæðingarnafn Lucius Aurelius Commodus
Keisaranafn Caesar Marcus Aurelius Commodus Antoninus Augustus
Ætt Antónínska ættin

Lucius Aurelius Commodus Antoninus (31. ágúst, 16131. desember, 192) var keisari Rómaveldis á árunum 177 til 192.

Commodus var sonur Markúsar Árelíusar keisara og Faustinu yngri. Commodus fékk titilinn augustus árið 177 og var lýstur keisari ásamt föður sínum. Þegar Markús Árelíus lést svo árið 180 varð Commodus einn keisari.

Allar götur síðan Nerva kaus Trajanus sem kjörson sinn og eftirmann, höfðu keisarar farið að hans fordæmi og valið þann eftimann sem þeim þótti hæfastur til að gegna stöðu keisara. Commodus var því fyrsti keisarinn síðan á tíma flavísku ættarinnar sem erfði keisaratitilinn. Tími kjörkeisaranna (96 - 180) hafði verið með friðsælustu og blómlegustu tímabilum í sögu Rómaveldis og hafa þeir verið kallaðir góðu keisararnir fimm. Síðari tíma sagnfræðingar hafa margir álitið að með Commodusi hafi hnignun Rómaveldis hafist og að Rómarfriði hafi lokið á hans valdatíma. Ríkinu var þó ekki ógnað af utanaðkomandi óvinum heldur var það pólitískur óstöðugleiki sem jókst á þessum tíma.

Ævi[breyta | breyta frumkóða]

Commodus tók þátt í herför Markúsar Árelíusar gegn germönskum þjóðflokkum við Dóná á árunum 178 – 180. Markús ætlaði sér að halda stríðinu til streitu og ætlaði hugsanlega að innlima ný svæði, norðan Dónár, inn í Rómaveldi. Þegar Markús lést, samdi Commodus hins vegar fljótlega um frið við germanina og hélt til Rómar, þar sem hann fagnaði sigri í stríðinu. Commodus virðist hafa haft lítinn áhuga á hernaði eða á stjórn ríkisins. Snemma á valdaferli sínum fól hann embættismanni að nafni Saoterus að stjórna í flestum málum. Saoterus varð hins vegar mjög óvinsæll og var drepinn árið 182 af manni sem hét Cleander. Cleander tók þá við af Saoterusi sem sá embættismaður Commodusar sem stjórnaði mestu. Hann varð mjög valdamikill og stundaði m.a. það að selja mönnum ýmis embætti, t.d. sæti í öldungaráðinu, stöður í hernum, landsstjórastöður eða ræðismannastöður. Cleander féll í ónáð almennings í Róm árið 190 þegar kornskortur varð í borginni og lét Commodus þá taka hann af lífi.

Samsæri um að koma Commodusi frá völdum átti sér stað árið 182. Á meðal þeirra sem tóku þátt í samsærinu var Lucilla, systir Commodusar, og fólst samsærið í því að drepa Commodus og gera eiginmann Lucillu að keisara. Það tókst hins vegar ekki og Lucilla, ásamt öðrum samsærismönnum, var tekin af lífi.

Commodus hafði mikinn áhuga á bardögum skylmingaþræla og tók sjálfur þátt í fjölmörgum slíkum bardögum, bæði við aðra skylmingaþræla og við villt dýr. Þetta var mjög óvenjulegt af keisara og var litið hornauga af mörgum öldungaráðsmönnum og öðrum valdamönnum í Rómaveldi.

31. desember 192 reyndi Marcia, hjákona Commodusar, að eitra fyrir honum til þess að ráða hann af dögum. Tilraunin tókst hins vegar ekki þar sem Commodus ældi upp eitraða matnum. Glímukappi að nafni Narcissus var þá fenginn þess til að kyrkja Commodus. Eftir dauða Commodusar tók Pertinax, fyrrum öldungaráðsmaður, við keisaratigninni. Hann er talinn hafa átt þátt í samsærinu um að drepa Commodus.


Fyrirrennari:
Markús Árelíus
Keisari Rómaveldis
(177 – 192)
Eftirmaður:
Pertinax