Fara í innihald

Elagabalus

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Elagabalus
Rómverskur keisari
Valdatími 218 – 222

Fæddur:

um 203

Dáinn:

11. mars 222
Forveri Macrinus
Eftirmaður Alexander Severus
Maki/makar Julia Cornelia Paula
Julia Aquilia Severa
Annia Aurelia Faustina
Hierocles
Faðir Sextus Varius Marcellus
Móðir Julia Soaemias
Fæðingarnafn Varius Avitus Bassianus
Keisaranafn Caesar Marcus Aurelius Antoninus Augustus
Ætt Severíska ættin

Marcus Aurelius Antoninus (203 - 11. mars 222) var rómarkeisari frá 218 til 222. Hann er þekktur sem Elagabalus, en það var viðurnefni sem hann tók sér vegna þess að hann var æðsti prestur í söfnuði guðsins El-Gabal.

Elagabalus var skyldur Caracalla og Geta fyrrum rómarkeisurum í gegnum ömmu sína, Juliu Maesu, sem var systir Juliu Domnu móður Caracalla og Geta og eiginkonu Septimiusar Severusar.

Elagabalus var aðeins um 14 ára gamall þegar hann varð keisari en það var að miklu leyti Juliu Maesu að þakka þar sem hún tilkynnti (ranglega) að hann væri sonur Caracalla, sem hafði verið vinsæll meðal hersins, og einnig mútaði hún herdeildum til þess að þær myndu lýsa yfir stuðningi við Elagabalus sem keisara og gera uppreisn gegn Macrinusi, þáverandi keisara. Macrinus lýsti þá stríði á hendur Elagabalusi og mætti honum í bardaga árið 218 þar sem herdeildir Elagabalusar báru sigurorð. Macrinus flúði eftir bardagann en náðist fljótlega og var tekinn af lífi.

Elagabalus varð fljótlega mjög umdeildur keisari, m.a. vegna trúarofstækis síns, en hann ýtti hinum hefðbundnu rómversku guðum til hliðar og reyndi að láta alla tilbiðja sinn guð, El-Gabal. Einnig var einkalíf hans mjög umdeilt; hann giftist að minnsta kosti þremur konum á sínum stutta valdaferli en hann var líka opinberlega tvíkynhneigður og klæðskiptingur.

Móðir Elagabalusar, Julia Soaemias, studdi hann í sínu trúarofstæki, þrátt fyrir vaxandi óvinsældir á meðal almennings. Það var hinsvegar stuðningur ömmu hans, Juliu Maesu, sem skipti mestu máli og árið 221 virðist sá stuðningur hafa horfið og hún snúið sér að öðru barnabarni sínu, Alexander Severus. Hún fékk Elagabalus til þess að ættleiða Severus og gefa honum titilinn Caesar. Meðlimir lífvarðasveitarinnar studdu að lokum einnig að Alexander Severus yrði skipaður keisari og tóku því Elagabalus og móður hans af lífi 11. mars 222 og lýstu Severus sem keisara.


Fyrirrennari:
Macrinus
Keisari Rómaveldis
(218 – 222)
Eftirmaður:
Alexander Severus