Púnversku stríðin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stökkva á: flakk, leita
[breyta]
Púnversku stríðin
1. púnverska stríðið
2. púnverska stríðið
3. púnverska stríðið

Púnversku stríðin voru þrjú stríð milli Rómverja og fönísku borgarinnar Karþagó á annarri og þriðju öld fyrir Krist. Nafn stríðanna er dregið af latneska orðinu Punici sem þýddi Karþagóbúar (afbökun af Poenici, Föníkumenn). Stríðin voru að miklu leyti afleiðing stækkunar áhrifasvæðis Rómar á kostnað áhrifasvæðis hins mikla veldis Karþagó sem þá var. Við lok stríðanna var Karþagóveldið að öllu leyti komið undir vald Rómar. Við byrjun stríðana var Karþagó sterkasti aðilinn á Miðjarðarhafi en við lok þeirra og með sigri Rómverja í Makedóníustríðunum á sama tíma voru Rómverjar búnir að taka við því hlutverki.

Fyrsta púnverska stríðið[breyta | breyta frumkóða]

Fyrsta púnverska stríðið (264 f.Kr. - 241 f.Kr.) var háð á landi og sjó, á Sikiley og í skattlandinu Afríku og á Miðjarðarhafi. Stríðið var báðum þjóðum dýrkeypt en Rómverjar höfðu sigur og lögðu undir sig Sikiley. Í kjölfar stríðsins átti Karþagó erfitt með að verja áhrifasvæði sín og gátu Rómverjar sölsað undir sig eyjurnar Sardiníu og Korsíku nokkrum árum síðar þegar Karþagó átti í fullu fangi með að berja niður uppreisn ósáttra málaliða.

Annað púnverska stríðið[breyta | breyta frumkóða]

Annað púnverska stríðið (218 f.Kr. - 202 f.Kr.) er frægt fyrir herleiðangur Hannibals, herforingja Karþagómanna, yfir Alpana. Hann gerði innrás í Ítalíu úr norðri og sigraði rómverska herinn í nokkrum orrustum en náði aldrei hinu endanlega markmiði að grafa undan stjórnmálasambandi Rómaveldis og bandamanna þess. Spánn, Sikiley og Grikkland komu einnig við sögu og höfðu Rómverjar alls staðar sigur. Að lokum var barist í Africu og Karþagómenn voru sigraðir í orrustunni við Zama af rómverskum her undir stjórn Scipios Africanusar. Í kjölfarið voru landsvæði Karþagó takmörkuð við borgarmökin auk þess sem Karþagó varð að greiða himinháar stríðsskaðabætur.

Þriðja púnverska stríðið[breyta | breyta frumkóða]

Þriðja púnverska stríðið (149 f.Kr. - 146 f.Kr.) var að mestu leyti langt umsátur um Karþagó og lauk með því að borgin var lögð í rúst. Átökin má rekja til andstöðu við rómversk yfirráð á Spáni og í Grikklandi og mikils efnahagslegs uppgangs í Karþagó.