Fara í innihald

Julianus

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Julianus
Rómverskur keisari
Valdatími 360 – 363
í samkeppni við Constantius 2. (360 – 361)

Fæddur:

331 eða 332
Fæðingarstaður Konstantínópel

Dáinn:

26. júní 363
Dánarstaður Mesópótamía
Forveri Constantius 2.
Eftirmaður Jovianus
Maki/makar Helena
Faðir Julius Constantius
Móðir Basilina
Fæðingarnafn Flavius Claudius Julianus
Keisaranafn Flavius Claudius Julianus Augustus
Ætt Konstantínska ættin

Julianus (331 eða 332 – 363) var rómverskur keisari, af konstantínsku ættinni, á árunum 360 – 363.

Julianus var bróðursonur Konstantínusar mikla, sonur Juliusar Constantiusar og Basilinu. Konstantínus mikli skipaði Julius Constantius ræðismann árið 335 en eftir dauða Konstantínusar, árið 337, var Julius Constantius tekinn af lífi ásamt fleiri karlmönnum af konstantísku ættinni. Julianus slapp við þessar hreinsanir, sem líklega voru að skipan Constantiusar 2., vegna þess hve ungur hann var. Julianus hlaut menntun í kristnum fræðum sem ungur maður, en þegar hann var um tvítugt tók hann upp trú á gömlu grísk-rómversku guðina og hélt þeirri trú til dánardags. Á valdatíma sínum reyndi Julianus að hefja gömlu trúarbrögðin til fyrri vegsemdar en varð lítið ágengt og reyndist vera síðasti Rómarkeisarinn sem aðhylltist þau. Af þessum sökum fékk hann viðurnefnið apostata á meðal kristinna manna, sem þýða má sem trúvillingur.

Constantius 2., frændi Julianusar, skipaði hann undirkeisara (caesar) árið 355. Constantius var þá upptekinn við að verjast innrás Sassanída í Mesópótamíu og hlutverk Julianusar var að verja vesturhluta ríkisins gegn innrásum germana. Julianus stóð sig vel sem herforingi og vann sigra á Alemönnum og Frönkum í Gallíu. Árið 360 skipaði Constantius svo fyrir um að Julianus ætti að senda bróðurpartinn af herdeildunum í Gallíu til Mesópótamíu til að taka þátt í stríðinu gegn Sassanídum. Julianus varð ekki við þeirri beiðni, enda voru hermennirnir mótfallnir þessu og hylltu þeir Julianus sem keisara (augustus) í kjölfarið. Constantius leit á þetta sem uppreisn af hálfu Julianusar og bjóst til að mæta honum í orrustu, en áður en til þess kom tók Constantius sótt og lést. Constantius er sagður hafa viðurkennt Julianus sem eftirmann sinn á dánarbeði sínu og því tók Julianus völdin í öllu Rómaveldi við dauða Constantiusar, í nóvember árið 361. Julianus eyddi mestum hluta síns stutta valdatíma í að skipuleggja og framkvæma stórárás á veldi Sassanída. Í mars árið 363 hélt hann með fjölmennan her frá Antiokkíu í Sýrlandi með það að markmiði að hertaka höfuðborg Sassanída, Ctesiphon. Julianus leiddi herinn til Ctesiphon en ákvað þá að hörfa til baka áður en meginher Sassanída kæmi á svæðið. Á undanhaldinu urðu Rómverjar fyrir nokkrum árásum og í einni þeirra hlaut Julianus banvænt sár af völdum óvinaörvar. Hershöfðinginn Jovianus var þá hylltur keisari af hernum.


Fyrirrennari:
Constantius 2.
Keisari Rómaveldis
(360 – 363)
Eftirmaður:
Jovianus