Fara í innihald

Calígúla

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Calígúla
Rómverskur keisari
Valdatími 37 – 41

Fæddur:

31. ágúst 12
Fæðingarstaður Antium

Dáinn:

24. janúar 41
Dánarstaður Róm
Forveri Tíberíus
Eftirmaður Claudíus
Maki/makar Junia Claudia,
Livia Orestilla,
Lollia Paulina,
Milonia Caesonia
Börn Julia Drusilla
Faðir Germanicus
Móðir Agrippina eldri
Fæðingarnafn Gaius Julius Caesar Germanicus
Keisaranafn Gaius Caesar Augustus Germanicus
Ætt Julíska-claudíska ættin

Gaius Iulius Caesar Augustus Germanicus, betur þekktur sem Calígúla (á latínu: Caligula, stundum skrifað Kalígúla á íslensku) (31. ágúst 1224. janúar 41) var þriðji keisari Rómaveldis 3741. Hann tók við af Tíberíusi.

Calígúla var sonur Germanicusar og Agrippinu eldri. Hann var eyðsluseggur og grimmur og óútreiknanlegur harðstjóri og talinn geðbilaður. Hann ætlaði til dæmis að gera hest sinn Incitatus að ræðismanni. Calígúla var myrtur af liðsforingja í lífvarðasveit sinni, auk annarra.

Æska[breyta | breyta frumkóða]

Viðurnefnið Calígúla hlaut hann er hann fylgdi föður sínum á unga aldri í herferðir í Germaníu, þar sem hann fékk lítinn hermannsbúning til að klæðast. Hermennirnir fóru þá að kalla hann Caligula sem þýða má sem „litlir skór“, en skór hermanna voru kallaðir caliga. Síðar fór honum að líka illa við þetta viðurnefni og þegar hann var orðinn keisari refsaði hann mönnum fyrir að nota það.

Fjölskylda[breyta | breyta frumkóða]

Germanicus, faðir Calígúla, var bróðursonur Tíberíusar keisara, en var ættleiddur af Tíberíusi eftir að Drusus, faðir hans, lést. Germanicus lést þegar Calígúla var aðeins sjö ára, árið 19, hugsanlega af völdum eitrunar. Móðir Calígúla, Agrippina eldri, varð fyrir barðinu á ofsóknum Sejanusar, lífvarðaforingja Tíberíusar, og var hneppt í varðhald, þar sem hún svelti sig að lokum til dauða árið 33. Tveir bræður Calígúla hlutu sömu örlög og dóu báðir í varðhaldi. Calígúla sjálfur flúði Rómaborg og fór til eyjarinnar Kaprí þar sem hann dvaldi hjá Tíberíusi, en á eynni varði keisarinn mestum sínum tíma á síðari hluta valdaferils síns. Árið 35 var Calígúla ættleiddur af Tíberíusi, ásamt Tiberiusi Gemellusi frænda sínum, og þeir þar með gerðir að erfingjum Tíberíusar. Calígúla erfði keisaratign Tíberíusar þegar sá síðarnefndi lést. Gemellus var þá aðeins á táningsaldri og var ættleiddur af Calígúla. Nokkrum mánuðum síðar taldi Calígúla þó að Gemellus væri að skipuleggja samsæri gegn sér og lét því taka hann af lífi.

Valdatími[breyta | breyta frumkóða]

Fjármál[breyta | breyta frumkóða]

Calígúla var mikill eyðsluseggur og tókst á sinni stuttu valdatíð að eyða öllum þeim miklu fjármunum sem hann fékk í arf frá Tíberíusi. Á meðal þess sem hann lét byggja var floti stórra skipa sem hann notaði meðal annars til þess að mynda fljótandi brú yfir Napolíflóa. Calígúla reið svo yfir flóann á Incitatusi, uppáhalds hestinum sínum, í brynju Alexanders mikla. Þar að auki lét hann byggja tvö risaskip fyrir sjálfan sig. Annað, það minna, var notað sem fljótandi musteri, en hitt, það stærra, var í raun fljótandi höll. Calígúla réðst einnig í ýmsar opinberar framkvæmdir þar á meðal byggingu tveggja nýrra vatnsleiðslna fyrir Rómaborg.

Þegar arfur Tíberíusar var uppurinn hækkaði Calígúla skatta og lagði á nýja, meðal annars skatt á vændi. Einnig varð hann sér úti um fé með því að fjárkúga ríka einstaklinga, slá eign sinni á fjármuni manna sem voru nýlátnir og með því að bjóða upp skylmingaþræla.

Hneykslismál[breyta | breyta frumkóða]

Gullmynt (aureus), slegin árið 40, sem sýnir Calígúla (til vinstri) og föður hans, Germanicus, á bakhliðinni (til hægri).

Margar sögur eru til af hneykslismálum sem snerta Calígúla. Ein af þeim frægustu er sú að hann hafi ætlað að gera hest sinn Incitatus að ræðismanni og presti. Hvort sem sú saga er sönn eða ekki, sá Calígúla að minnsta kosti til þess að engu væri til sparað þegar kom að hestinum, honum var til dæmis boðið í ýmsar veislur sem keisarinn hélt. Calígúla var einnig sakaður um að fremja sifjaspell með systrum sínum og að hafa neytt þær í vændi. Tvær systra hans, Julia Livilla og Agrippina yngri, voru síðar sendar í útlegð vegna þáttar þeirra í samsæri um að koma Calígúla frá völdum. Ýmsir háttsettir embættismenn voru einnig reknir úr embætti eða teknir höndum vegna ásakana um samsæri og margir í kjölfarið teknir af lífi. Samskipti Calígúla við öldungaráðið fóru í kjölfarið hratt versnandi.

Calígúla hneykslaði einnig íbúa Rómar þegar hann lýsti sjálfan sig lifandi guð. Hann lét byggja hof sjálfum sér til heiðurs og kom fram á opinberum vettvangi í gervi ýmissa guða og gyðja. Calígúla neyddi svo efnaða menn til að borga sér háar fjárhæðir fyrir þann heiður að verða prestar í söfnuði sínum.

Endalok[breyta | breyta frumkóða]

Nokkur samsæri um að koma Calígúla frá völdum voru reynd á þeim á þeim tæpu fjórum árum sem hann var keisari. Þessi stöðuga ógn virðist hafa gert Calígúla mjög taugaveiklaðan og hann þjáðist einnig af svefnleysi. Calígúla var að lokum orðinn algerlega einangraður og hafði misst allan stuðning. Lokatilraunin til þess að ráða keisarann af dögum var vel skipulögð og fjölmargir voru viðriðnir samsærið. Liðsforingi í lífvarðasveitinni, Cassius Chaerea, var sá sem skipulagði morðið en einnig komu við sögu fleiri lífverðir, starfsmenn keisarahallarinnar og öldungaráðsmenn. Calígúla var stunginn til bana í undirgöngum í keisarahöllinni þann 24. janúar 41. Cassius stakk keisarann fyrstur en fleiri fylgdu í kjörfarið og að sögn var hann stunginn um þrjátíu sinnum. Eiginkona Calígúla, Caesonia, og dóttir þeirra, Julia Drusilla, voru einnig drepnar af samsærismönnunum. Minniháttar óeirðir brutust út í Róm eftir morðið og öldungaráðið reyndi að endurreisa lýðveldið, en lífvarðasveit keisarans hafði ekki hug á að styðja það og hyllti Claudíus, frænda Calígúla, sem keisara.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Scarre, Chris, Chronicle of the Roman Emperors, the Reign–by–Reign Record of the Rulers of Imperial Rome (London: Thames & Hudson, 1995).Fyrirrennari:
Tíberíus
Rómarkeisari
(37 – 41)
Eftirmaður:
Claudíus