Nýfundnaland og Labrador

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
Nýfundnaland og Labrador
Fáni Nýfundnaland og Labrador Skjaldarmerki Nýfundnaland og Labrador
(Fáni Nýfundnaland og Labrador) (Skjaldarmerki Nýfundnaland og Labrador)
Kjörorð: Quaerite Prime Regnum Dei (Leitið fyrst að konungsríki Guðs)
Kort af Nýfundnaland og Labrador
Önnur kanadísk fylki og yfirráðasvæði
Höfuðborg St. John's
Stærsta borgin St. John's
Fylkisstjóri Kathy Dunderdale
Forsætisráðherra John Crosbie (2008-) (Frjálslyndisflokkur Nýfundnaland og Labrador)
Svæði 405.212 km² (10. Sæti)
 - Land 373.872 km²
 - Vatn 31.340 km² (7,7%)
Fólksfjöldi (2018)
 - Fólksfjöldi 525.000 (9. Sæti)
 - Þéttleiki byggðar 1,35 /km² (7. Sæti)
Aðild í ríkjabandalagið
 - Dagsetning mars 21, 1949
 - Röð Tíunda
Tímabelti UTC-3,5 & -4
Skipting á þingi
 - Neðri málstofa 7
 - Öldungadeild 6
Skammstafanir
 - Póstur NL
 - ISO 3166-2 CA-NL
Póstfangsforskeyti A
Vefur www.gov.nl.ca
Labrador.
Nýfundnaland.
Gros Morne þjóðgarðurinn.
Á norðurströnd Labrador er fjalllendi.

Nýfundnaland og Labrador er austast af fylkjum Kanada og nær yfir eyjuna Nýfundnaland og fastalandssvæðið Labrador. Fólksfjöldi árið 2018 var um 525.000. Höfuðstaðurinn er St. John's sem er einnig stærsta borgin.

Landsvæði og náttúra[breyta | breyta frumkóða]

Samanlagt er svæðið 405.212 ferkílómetrar að flatarmáli, þar af er Labrador 294.330 km2 og Nýfundnaland 111.390 km2. Það er 4% af landsvæði Kanada. Long Range-fjöllin á Nýfundnalandi eru talin vera norðaustasti hluti Appalasíufjalla. Torngat Fjöll eru í Norður-Labrador og er þar þjóðgarður með sama nafni: Torngat Mountains-þjóðgarðurinn. Þar er hæsta fjall fylkisins Mount Caubvick (1652 m.). Jarðfræðilega er Labrador austasti hluti Kanadaskjaldarins sem er stórgrýttur og jökulsorfinn.[1]

Í Norður-Labrador er túndra en í suðurhlutanum barrskógabelti. Barrskógur er á hluta Nýfundnalands en um þriðjungur Nýfundnalands er skógi vaxinn[2]. Trjátegundir eru aðallega hvítgreni, svartgreni og balsamþinur ásamt birki, ösp og reynivið.

Í Labrador eru 42 tegundir spendýra en aðeins 14 á Nýfundnalandi. Spendýr eins og elgur og íkorni hafa verið flutt til Nýfundnalands. Svartbjörn er á báðum landsvæðunum.

Gros Morne-þjóðgarðurinn liggur á vesturströnd Nýfundnalands og var stofnaður árið 1973. Hann er um 1800 km2 að stærð og er annað af tveimur svæðum á Nýfundnalandi sem eru á Heimsminjaskrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Gros Morne var settur á listann árið 1987 en hinn staðurinn er L'Anse aux Meadows. Í þjóðgarðinum er m.a. Western Brook Pond sem er um 16 km langt stöðuvatn sorfið af ám og jöklum.[3] Terra Nova-þjóðgarðurinn er á austurströndinni.

Churchillfljót í Labrador er yfir 850 kílómetra langt. Það hefur verið virkjað og stendur til að virkja það enn frekar. Stíflan í Churchill Falls er næststærsta neðanjarðarraforkuver í heimi.

Samfélag[breyta | breyta frumkóða]

Um 92% íbúa fylkisins búa á Nýfundnalandi. Um 98% hafa ensku að móðurmáli. Frönskumælandi minnihluti er á Nýfundnalandi vestanverðu. Meirihluti íbúanna eru afkomendur innflytjenda frá Suðvestur-Englandi og suður- og suð-austurhluta Írlands, sem komu snemma á 19. öld. Avalonskaginn er fjölmennasta og þéttbýlasta svæði Nýfundnalands og Labrador en þar er höfuðborgin St. John's.

Í Labrador eru íbúar aðeins tæplega 30.000 eða 8% fylkisins. Stærstu bæirnir þar eru Happy Valley/Goose Bay og Labradorborg. Á norðurströnd Labrador er sjálfstjórnarhéraðið Nunatsiavut sem byggt er inúítum

Olía, járnvinnsla, timbur og pappírsframleiðsla og fiskveiðar eru mikilvægar atvinnugreinar. Á sumrin er ferðaþjónusta mikilvæg.

Söguágrip[breyta | breyta frumkóða]

Frumbyggjar hafa verið á svæðinu í þúsundir ára. Á eyjunni bjuggu tveir indíánaþjóðflokkar – Mi’kmaq (Micmac) og Beothuk. Mi’kmaq-indíánar komu frá fastalandinu og settust líklega að á Nýfundnalandi rétt fyrir eða um svipað leyti og fyrstu Evrópumennirnir komu. Minjar eftir norræna menn hafa fundist í L'Anse aux Meadows og hugsanlegt er að svæðið þar í kring hafi verið það sem þeir nefndu Vínland.

John Cabot/Giovanni Caboto var einna fyrstur Evrópumanna til að sigla til Nýfundnalands frá Evrópu eftir að norrænir menn komu þar. Hann var Ítali en í þjónustu Hinriks 7. Englandskonungs og kom til Nýfundnalands árið 1497. Eftir að Evrópubúar höfðu numið þar land var farið að tala um eyjuna sem Terra nova (nýtt land á latínu). Nafnið Labrador er hins vegar talið búið til úr portúgalska orðinu lavrador (landeigandi) og er nafngiftin eignuð portúgalska landkönnuðinum João Fernandes Lavrador sem var þar á ferð árið 1498.

Ýmsar Evrópuþjóðir veiddu fisk á þessum slóðum eins og Portúgalir, Frakkar, Hollendingar, Spánverjar og Englendingar og kepptust þeir um völd á svæðinu. Englendingar urðu ofan á að lokum.

Upp úr aldamótunum 1900 fóru tekjur af fiskveiðum að dragast töluvert saman, sem leiddi til verulegra efnahagsvandræða sem heimskreppan á 3.- 4. áratug 20. aldar jók enn á. Árið 1949 var ákveðið í almennri kosningu, með naumum meirihluta atkvæða, að ganga inn í Kanada. Kanadamenn sóttust nokkuð eftir innlimun Nýfundnalands og lofuðu betri kjörum. Þeir óttuðust að það myndi ganga inn í Bandaríkin ella, en vegna bandarískra herstöðva í landinu höfðu Bandaríkjamenn töluverð áhrif þar. Nýfundnaland var tíunda fylkið til að verða aðili að kanadíska fylkjasambandinu. Fram til 1964 var fylkið nefnt Nýfundnaland en síðar var nafninu heima fyrir breytt í Nýfundnaland og Labrador og var sú nafnbreyting felld inn í stjórnarskrá Kanada árið 2001.

Í Labrador bjuggu fáir af evrópskum uppruna fyrir árið 1950. En þá jókst innflutningur enskumælandi fólks. Byggður var herflugvöllur í Happy Valley/Goose Bay með tilheyrandi umsvifum og atvinnu.

Í kringum 1990 hrundu fiskistofnar við Nýfundnaland, efnahagur svæðisins fór í lægð og fólki fækkaði. Frá 2006 hefur fólki hins vegar verið að fjölga.

Heimild[breyta | breyta frumkóða]

Fyrirmynd greinarinnar er m.a. Newfoundland and Labrador á ensku Wikipedia. Sótt 15. mars 2016.

Tilvísun[breyta | breyta frumkóða]

  1. Kanada - Labrador Ferðaheimur. Skoðað 15. mars, 2016.
  2. Nýfundnaland I[óvirkur hlekkur] Skógræktarritið. Skoðað 15. mars, 2016.
  3. Nýfundnaland I[óvirkur hlekkur] Skógræktarritið. Skoðað 15. mars, 2016.