Machu Picchu

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Machu Picchu við sólsetur og fjallið Huayna Picchu.

Machu Picchu (framburður: ['mɑ.tʃu 'pik.tʃu]) (stundum nefnd „Týnda borgin“) er forn borg byggð fyrir komu Kólumbusar til Ameríku af Inkunum. Macu Picchu var byggð um miðja 15.öld er veldi Inka stóð sem hæst í tíð keisarans Pachhacuti Inca Yupanqui (1438-1471). Borgin er 2.430 metra yfir sjávarmáli á fjallsbrún yfir Urubambadalnum í Perú, um 70 km norðvestur af Cusco. Borgin er á Heimsminjaskrá UNESCO.

Í virkisborginni eru ríflega 140 byggingar, hof og aðrar opinberar byggingar auk íbúðarhúsa. Um tvo hundruð tröppugangar tengja byggðina saman enda er hún í miklum halla. Húsin eru öll byggð úr graníti, flest án múrlíms, en grjótið svo nákvæmlega fellt saman að eigi má hnífsblaði á milli koma. Þökin voru ýmist úr steini eða einhverju öðru sem fannst í nágreninu. Í hlíðunum eru stallar með akurreinum þar sem rækta mátti næg matvæli fyrir íbúa borgarinnar. Borginni var skipt í hverfi. Sum hverfi voru fyrir hof, önnur fyrir aðalsmenn og presta og önnur hverfi fyrir almenning. Í borginni eru einnig torg og önnur opin svæði, brunnar og áveiturennur, er náðu til flestra bygginga.

Íbúðarhús í Machu Picchu

Borgin var yfirgefin árið 1572 í kjölfar spænska hernámsins en þeir komu hins vegar aldrei á staðinn og því er borgin óskemmd af manna völdum og einstaklega vel varðveitt. Eftir að borgin var yfirgefin týndist hún umheiminum í meira en fjórar aldir og þaktist gróðri.

Seint á 19.öld fréttist að nokkrir útlendingar hafi farið á staðinn og jafnvel rænt forngripum. Það var svo ekki fyrr en í júlí 1911 að bandaríski sagnfræðingurinn, Hiram Bingham, tilkynnti að hann hefði „fundið“ borgina. Hann var við rannsóknir í Machu Picchu næstu árin og greindi frá niðurstöðunum í fjölmörgum greinum og bókum. 

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  • „Hvað getið þið sagt mér um Inkaborgina Machu Picchu?“. Vísindavefurinn.Skoðað 17.11.2017.

Heimildaskrá[breyta | breyta frumkóða]

  Þessi sögugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.