Skínandi stígur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kommúnistaflokkur Perú – Skínandi stígur
Partido Comunista del Perú – Sendero Luminoso
Leiðtogi Abimael Guzmán (til 1992)
Óscar Ramírez (1992-1999)
Florindo Eleuterio Flores Hala (1999-2012)
Víctor Quispe Palomino (2012-)
Stofnár 1969; fyrir 55 árum (1969)
Stjórnmálaleg
hugmyndafræði
Kommúnismi, marx-lenínismi, maóismi
Einkennislitur Rauður  

Kommúnistaflokkur Perú – Skínandi stígur (sp. Partido Comunista del Perú – Sendero Luminoso eða PCP-SL), yfirleitt kallaður Skínandi stígur (Sendero Luminoso) er kommúnískur byltingarhópur og skæruliðahópur í Perú. Samtökin aðhyllast marx-lenínisma, maóisma og svokallaða Gonzalo-hugsun, sem kennd er við fyrsta leiðtoga hópsins, Abimael „Gonzalo“ Guzmán.

Skínandi stígur hefur háð vopnaða baráttu gegn ríkisstjórn Perú frá því á níunda áratugnum en áhrif samtakanna hafa dvínað verulega frá því að Guzmán var handtekinn árið 1992. Samtökin eru skilgreind sem hryðjuverkasamtök af Perú, Bandaríkjunum, Japan, Kanada og Evrópusambandinu.

Söguágrip[breyta | breyta frumkóða]

Skínandi stígur var stofnaður árið 1969 í Huamanga-háskólanum í borginni Ayacucho í Andesfjöllum. Stofnandi hópsins var heimspekiprófessorinn Abimael Guzmán, sem var aðdáandi Maó Zedong.[1] Samtökin urðu til upp úr klofningi meðal perúskra kommúnista milli þeirra sem aðylltust stjórnarstefnu Sovétríkjanna og þeirra sem fylgdu kínverska alþýðulýðveldinu að málum. Þegar Skínandi stígur var stofnaður hafði herinn undir stjórn Juans Velasco Alvarado nýlega tekið völdin í Perú og óskilvirkni stjórnar hans leiddi til þess að boðskapur Guzmáns um jöfnuð, bræðralag og réttlæti féll í góðan jarðveg.[2]

Hópurinn einbeitti sér að skipulagsstarfi á áttunda áratugnum en lýsti yfir svokölluðu „stríði fólksins“ gegn perúskum stjórnvöldum árið 1980. Skínandi stígur gerði um 200 árásir það ár og greip jafnframt til táknrænna ofbeldisaðgerða eins og að hengja dauða hunda upp á ljósastaura.[1] Hundadrápin fólu í sér táknræn mótmæli gegn kínverska leiðtoganum Deng Xiaoping, sem hafði þá nýlega hreinsað harðlínumaóista fjórmenningaklíkunnar úr ríkisstjórn Kína. Liðsmenn Skínandi stígs litu á Deng sem „hlaupahund kapítalismans“ og áttu hundarnir því að tákna það sem ætti að koma fyrir „hunda Dengs“.[3]

Áróðursplakat Skínandi stígs.

Skínandi stíg tókst á næstu árum með skæruhernaði að leggja undir sig rúmlega 2.000 km² svæði í Andesfjöllum frá Cajamarca til Puno.[4] Guzmán var fylgjandi þeirri stefnu Maós að leggja undir sig sveitir landsins og neyða þannig borgirnar til að gefast upp. Árið 1989 taldi hópurinn til sín um 5.000 skæruliða í fullu starfi en naut jafnframt aðstoðar um 30.000 landsmanna Perú. Hópurinn náði sér í lagi að tryggja sér stuðning margra amerískra frumbyggja sem var illa við spænskumælandi valdhafa í stórborgum landsins.[3] Skínandi stígur einkenndist einnig af meiri þátttöku kvenna en vanalegt var hjá skæruliðahreyfingum í Rómönsku Ameríku.[5]

Skínandi stígur varð alræmdur fyrir ofbeldisverk og villimennsku sem oft bitnaði á óbreyttum borgurum. Mannréttindasamtök á borð við Amnesty International og Mannréttindavaktina báru samtökin þungum sökum í skýrslum sínum, meðal annars um að standa fyrir pyntingum og fjöldaaftökum, sérstaklega á landsbyggð Perú.[1] Reiknað var með því árið 1992 að um 30.000 manns hefðu látist í átökum Skínandi stígs við perúsk stjórnvöld.[2]

Efnahagskreppa ríkti í Perú á forsetatíð Alans García á níunda áratugnum og því jókst stuðningur landsmanna við Skínandi stíg.[1][6] Eftir að Alberto Fujimori varð forseti árið 1990 lét hann leysa upp þing Perú og tók sér alræðisvald, meðal annars með vísan til ógnarinnar sem stafaði af áframhaldandi uppreisn Skínandi stígs.[7]

Árið 1992 handsamaði stjórnarlögreglan Guzmán í Surquillo-hverfinu í perúsku höfuðborginni Líma. Umsvif Skínandi stígs höfðu þá undanfarið aukist í höfuðborginni og ljóst þótti að Guzmán hygði á yfirtöku hennar.[5] Handtaka Guzmáns var gríðarlegt reiðarslag fyrir Skínandi stíg og áhrif hreyfingarinnar minnkuðu verulega án forystu hans.[8] Guzmán lést í fangelsi í september 2021, þá 86 ára gamall.[9]

Eftirmaður Guzmáns sem leiðtogi hreyfingarinnar, Florindo Eleuterio Flores (öðru nafni „félagi Artemio“) var handsamaður árið 2012 en þá hafði liðsmönnum Skínandi stígs farið stöðugt fækkandi síðustu áratugina. Í kjölfarið lýsti Ollanta Humala forseti því yfir að hryðjuverkahópurinn væri sigraður.[10]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 Magnús Torfi Ólafsson (10. október 1992). „Byltingingarleiðtogi lentur í kastalafangelsi“. Dagblaðið Vísir. bls. 14.
  2. 2,0 2,1 „Blóðhundar heimspekingsins nú sem höfuðlaus her?“. Morgunblaðið. 16. september 1992. bls. 20.
  3. 3,0 3,1 Dagur Þorleifsson (27. janúar 1989). „Inkamaóistar á vígaslóð“. Þjóðviljinn. bls. 12.
  4. „Lýsandi stígur“. Alþýðublaðið. 12. júní 1987. bls. 4.
  5. 5,0 5,1 Dagur Þorleifsson (24. október 1992). „Af er að vísu höfuðið ...“. Tíminn. bls. 8-9.
  6. „Hvað er að gerast í Perú?“. Tíminn. 17. febrúar 1989. bls. 13.
  7. Dagur Þorleifsson (30. apríl 1992). „Gulur forseti, rauð alþýða og hvít yfirstétt“. Helgarblaðið. bls. 11.
  8. Dagur Þorleifsson (3. janúar 1997). „Rómanskamerískir vinstriskæruliðar“. Dagur. bls. 7.
  9. Jón Agnar Ólason (11. september 2021). „Leiðtogi Skínandi stígs látinn“. RÚV. Sótt 22. október 2021.
  10. „Leiðtogi Skínandi stígs handtekinn“. RÚV. 12. febrúar 2012. Sótt 31. júlí 2021.