Mengun
Mengun verður þegar aðskotaefni komast út í umhverfið þar sem þau valda óstöðugleika, röskun, skaða og óþægindum í vistkerfinu. Mengun getur verið kemískt efni eða orka eins og hávaði, hiti eða ljós. Mengunarvaldar geta komið fyrir náttúrulega en þeir kallast aðskotaefni þegar þeir eru umfram náttúrulegt magn. Menguðustu borgir heims eru í Aserbaísjan, Indlandi, Kína, Perú, Rússlandi, Sambíu og Úkraínu. Borgin Linfen í Kína er talin mengaðast borg í heimi. Mengun flokkast í punktlindamengun og fjöllindamengun eftir því hvort upptök mengunarinnar má rekja til einnar eða fleiri uppspretta.
Í íslenskum lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir frá 1998 er mengun skilgreind sem „það þegar örverur, efni og efnasambönd og eðlisfræðilegir þættir valda óæskilegum og skaðlegum áhrifum á heilsufar almennings, röskun lífríkis eða óhreinkun lofts, láðs eða lagar. Mengun tekur einnig til ólyktar, hávaða, titrings, geislunar og varmaflæðis og ýmissa óæskilegra eðlisfræðilegra þátta. “[1]
Tegundir mengunar
[breyta | breyta frumkóða]Helstu tegundir mengunar ásamt helstu mengunarvöldum sem þeim tengjast.
- Geislamengun stafar af notkun kjarnorku í orkuframleiðslu, iðnaði og vopnaframleiðslu á 20. öld.
- Hávaðamengun felst meðal annars í umferðarhávaða, flugvélarhljóðum, hávaða frá iðnaði og hátíðnihljóðum.
- Hitamengun eru breytingar á hitastigi í umhverfi vegna iðnaðar, til dæmis þegar vatn úr ám er notað sem kælivökvi.
- Jarðvegsmengun á sér stað þegar efni leka út í jarðveg. Meðal mengunarvalda eru vetniskolefni, þungmálmar, MTBE, skordýraeitur, meindýraeitur og lífræn klóríð.
- Ljósmengun felst meðal annars í ágengri lýsingu, yfirlýsingu og truflun náttúrulegs ljóss.
- Loftmengun verður þegar efni og agnir dreifast um andrúmsloftið. Algengir mengunarvaldar eru kolmónoxíð, brennisteinsdíoxíð, klórflúorkolefni og nituroxíð sem stafa frá iðnaði og umferð bifreiða. Ljósefnavirkt óson og reykmóða verða til þegar nituroxíð og vetniskolefni hvarfast í sólarljósi.
- Plastmengun felst í uppsöfnun plasts sem hefur neikvæð áhrif á dýralíf, umhverfið og manninn sjálfan.
- Sorpmengun verður þar sem sorp er skilið eftir á stöðum þar sem það á ekki heima.
- Sjónmengun getur til dæmis stafað af rafmagnsmöstrum, auglýsingaskiltum, breytingum á landslagi (t.d. vegna námugraftar), geymslu á sorpi eða geimrusli.
- Vatnsmengun stafar af losun frárennslisvatns frá mannabyggð og iðnaði út í yfirborðsvatn, losun ómeðhöndlaðs skolps og mengandi efna eins og klóríns, losun rusls og mengandi efna út í affallsvatn, affallsvatn frá þéttbýli og landbúnaði, förgun úrgangs og leki í grunnvatn, ofauðgun og rusl.
Kostnaður
[breyta | breyta frumkóða]Mengun felur í sér kostnað sem oft kemur fram sem ytri áhrif. Framleiðandi sem losar mengandi efni út í andrúmsloftið varpar þannig kostnaði af verri heilsu og auknum óþrifnaði á allt samfélagið. Þar sem kostnaðurinn kemur ekki fram í bókhaldi framleiðandans getur hann kosið að framleiða meira af vörunni en hann hefði gert ef allur kostnaður félli á hans reikning.
Mengunarbótareglan kveður á um að sá sem veldur mengun skuli bera kostnað sem hlýst af að koma í veg fyrir eða draga úr áhrifum hennar. Mengunarbótareglan kom fram í löggjöf á 19. öld. Hún er mikilvæg grunnregla í löggjöf um mengunarvarnir.
Áhrif
[breyta | breyta frumkóða]Á heilsu manna
[breyta | breyta frumkóða]Verri loftgæði hafa neikvæð áhrif á heilsu margra lífvera, þar á meðal manna. Ósonmengun veldur öndunarsjúkdómum, hjarta- og æðasjúkdómum, ertingu í hálsi og nefstíflum. Vatnsmengun veldur um 14.000 dauðsföllum á dag, aðallega vegna mengunar drykkjarvatns af ómeðhöndluðu skolpi. Talið er að um 500 milljónir Indverja hafi ekki aðgang að salerni. Yfir 10 milljónir Indverja veiktust af sjúkdómum sem bárust með vatni árið 2013 og 1.535 létust, flestir þeirra börn. Nær 500 milljónir Kínverja hafa ekki aðgang að hreinu drykkjarvatni. Rannsókn frá 2010 áætlaði að 1,2 milljónir manna hefðu látist fyrir aldur fram í Kína vegna loftmengunar. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin áætlaði árið 2007 að mengun ylli hálfri milljón dauðsfalla á Indlandi árlega. Rannsóknir benda til þess að dauðsföll af völdum mengunar í Bandaríkjunum séu um 50.000 á hverju ári.
Olíulekar geta valdið ertingu í húð og útbrotum. Hávaðamengun veldur heyrnartapi, háþrýstingi, aukinni streitu og svefntruflunum. Kvikasilfur hefur verið tengt við þroskafrávik og taugasjúkdóma í börnum. Eldra fólk er í sérstakri hættu vegna loftmengunar og fólk með hjarta- eða lungnasjúkdóma er í aukinni hættu. Börn og ungabörn eru líka í sérstakri hættu. Blý og aðrir þungmálmar hafa verið tengdir við raskanir í taugakerfinu. Geislavirk efni geta valdið krabbameinum og fæðingargöllum.
Á umhverfið
[breyta | breyta frumkóða]Mengun er víða til staðar í umhverfinu. Þetta hefur margvísleg áhrif.
- Lífmögnun á sér stað þegar eiturefni (eins og þungmálmar) fara gegnum neysluþrep þannig að þéttni þeirra margfaldast.
- Losun koldíoxíðs í andrúmsloftið veldur súrnun sjávar.
- Losun gróðurhúsalofttegunda veldur hnattrænni hlýnun.
- Ágengar tegundir geta rutt innlendum tegundum úr vegi og dregið úr líffjölbreytni.
- Nituroxíð falla til jarðar með regni og valda aukinni næringu sem aftur breytir samsetningu tegunda á tilteknum svæðum.
- Reykjarmóða getur dregið úr sólarljósi sem berst niður til plantna og leiðir til framleiðslu ósons í veðrahvolfinu sem skaðar lífverur.
- Jarðvegur getur orðið ófrjósamur og óhentugur fyrir vöxt plantna. Það hefur aftur áhrif á aðrar lífverur fæðukeðjunnar.
- Brennisteinsdíoxíð og nituroxíð geta valdið súru regni sem lækkar sýrustig jarðvegsins.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- „Er hægt að eyðileggja jörðina með mengun?“. Vísindavefurinn.
- „Hvað mengar eitt álver mikið í samanburði við bíl?“. Vísindavefurinn.
- „Hvort mengar umhverfið meira: Að sigla á fraktskipi eða fljúga flugvél yfir Atlantshafið?“. Vísindavefurinn.
- „Hver eru mengunaráhrif brennisteins?“. Vísindavefurinn.
- „Hvað getið þið sagt mér um mengun hafsins og afleiðingar hennar?“. Vísindavefurinn.
- „Hvernig er mengun í hafinu farin að hafa áhrif á ísbirni?“. Vísindavefurinn.
- „Hvaða vatn er það mengaðasta í heimi og hvar er það?“. Vísindavefurinn.
- „Hvernig er mengun grunnvatns á Íslandi samanborið við Norðurlöndin?“. Vísindavefurinn.